Slysavarnaráð

87. fundur
Fimmtudaginn 10. febrúar 1994, kl. 16:11:31 (4002)


[16:11]
     Guðmundur Hallvarðsson :
    Virðulegi forseti. Þetta frv. til laga slysavarnaráð er af hinu góða. Þó verð ég að segja að mér finnst þetta frv. ekki gefa svör sem ég vil leita eftir hér.
    Sagt er að 25% allra slysa sem skráð eru hér á landi séu slys á sjómönnum. Ég spyr: Hvar finnum við þeim stað? Er það kannski ætlað að slík skráning fari fram í gegnum þetta slysavarnaráð? Þá vaknar enn fremur sú spurning hvernig verði farið með vegna þess að segja má að slys gerist með allt öðrum hætti til sjós en lands. Einkum og sér í lagi þegar litið er á hvar slysin verða og þá á ég við á skipum. Hvar verða slysin oftast á skipinu? Við hvaða aðstæður o.s.frv.? Hvað heitir skipið? Hvað heitir skipstjórinn og fleira og fleira í þeim dúr. Auðvitað má síðan vinna út úr þessari skráningu ákveðnar upplýsingar sem geta leitt til þess að menn átti sig á hvar þurfi að grípa á þeim vanda sem við blasir vegna hinna fjölmörgu slysa.
    Það sem kannski fyrst og fremst vakir fyrir mér er að fá það fram hjá 1. flm. Láru Margréti Ragnarsdóttur hvort þarna sé átt við að þetta sé, ef svo mætti taka til orða, ein allsherjarskráning allra slysa sem verða hér á landi, og þá veit ég að það er jafnt til sjós og lands, til sveita, bæja og borga. Það er ekkert smávegis sem þetta slysavarnaráð á að ráðast í. En ég tek hins vegar undir það sem umhvrh. sagði hér. Við megum vissulega fara varlega í þetta mál svo að ekki hljótist af ein stofnunin enn, eitt apparatið enn eða eitt kerfið enn. Nóg er af þeim fyrir. En ég endurtek það sem ég sagði áðan. Þetta gæti verið af hinu góða. En þó finnst mér vanta ýmsar frekari upplýsingar hér um.