Lífeyrisréttindi hjóna

87. fundur
Fimmtudaginn 10. febrúar 1994, kl. 16:21:13 (4005)


[16:21]
     Flm. (Guðmundur Hallvarðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég legg hér fram frv. til laga um lífeyrisréttindi hjóna. Meðflm. mínir eru Salome Þorkelsdóttir, Sigríður Anna Þórðardóttir, Lára Margrét Ragnarsdóttir, Svanhildur Árnadóttir og Drífa Hjartardóttir.
    Í upphafi máls míns vildi ég geta þess að ég leitaði eftir því að fleiri þingkonur væru með á þessu frv. og einkum leitaði ég til þeirra í Kvennalistanum en þær sáu ekki ástæðu til þess að vera með á frv., svo mikilvægt sem ég tel að það sé nú. En það gengur út á það, virðulegi forseti, eins og segir í 1. gr.:
    ,,Ellilífeyrisréttindi hjóna, sem áunnist hafa meðan á hjónabandi stóð, skulu teljast hjúskapareign þeirra. Við slit á fjárfélagi hjóna við skilnað skulu þau ellilífeyrisréttindi sem áunnust meðan hjónabandið stóð skiptast jafnt á milli þeirra.``
    Frumvarp sama efnis var áður lagt fram á 112., 113., 115. og 116. þingi en náði ekki fram að ganga.
    Eins og nú er háttað eru ellilífeyrisréttindi beinlínis tengd þeirri persónu sem aflað hefur tekna og greitt af þeim iðgjald, enda þótt önnur eignamyndun af tekjum hjóna teljist hjúskapareign þeirra og henni sé skipt við slit hjúskapar. Eðlilegt er að litið sé á öflun ellilífeyrisréttinda sem eignamyndun sem aðilar hafa stuðlað að með ákveðinni verkaskiptingu.
    Það verður að teljast réttlætismál að litið sé á þessa eignamyndun sem sameiginlega eign hjóna. Auk þess hefur þetta þann kost að tekjuöflun hjóna hefur ekki áhrif á myndun ellilífeyrisréttinda þeirra, þ.e. að ekki skiptir máli hvernig hjón hafa valið að skipta með sér störfum og tekjuöflun heimilisins.
    Samkvæmt lögum eru allir landsmenn, sem starfa úti á hinum almenna vinnumarkaði, skyldaðir til þess að vera aðilar að lífeyrissjóði. Slík aðild að söfnunarsjóðum lífeyriskerfisins hefur það í för með sér með iðgjaldagreiðslum fólks í sjóðina í áratugi að þar myndast raunverulega mesta eign viðkomandi einstaklinga á langri starfsævi. Þessi eign er skilyrt og felur í sér verðmætan tryggingarrétt að starfsævi lokinni. Það er því sjálfsagt og eðlilegt að hjón líti á þennan rétt sem sameiginlegan rétt eins og aðrar eignir.
    Eins og fram kemur er þetta frumvarp ekki lagt fram í fyrsta sinn. Þá frumvarp þessa efnis hefur verið lagt fram hafa umræður og umsagnir snúist meira um aðra þætti og greiðslur frá lífeyrissjóðum en sjálfan ellilífeyrisréttinn sem kannski vonlegt er. Kemur þar einkum til skráning á greiðslum og áunnum réttindum í viðkomandi lífeyrissjóði sem í dag tengjast einvörðungu þeirri persónu sem iðgjöld til viðkomandi lífeyrissjóðs eru greidd af, svo og sá viðbótarréttur sem ávinnst við inngreiðslu, þ.e. örorkulífeyrir og barnalífeyrir. Þá er réttur til töku ellilífeyris mismunandi hjá lífeyrissjóðum. Hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins er t.d. um að ræða svokallaða 95 ára reglu (þ.e. aldur + starfsaldur), tengingu lífeyris við launaflokk viðkomandi, svo og niðurfellingu iðgjaldagreiðslna eftir 32 ár. Í Lífeyrissjóði sjómanna öðlast menn rétt til ellilífeyris 60 ára hafi þeir stundað sjómennsku í 25 ár. Þá veitir 20--25 ára starf á sjó rétt til ellilífeyristöku frá 61 árs aldri og frá 62 ára aldri eftir 15--20 ára starf á sjó.
    Hér eru nefnd fáein dæmi um það flókna kerfi sem lífeyrissjóðir hafa búið sér til, en fjölmörg önnur dæmi væri hægt að nefna þar sem löggjafinn hefur gripið inn í eða ákvarðanir eru teknar beint af stjórnum sjóðanna samkvæmt reglugerð.
    Flutningsmenn gera sér fulla grein fyrir þeim vanda sem stjórnir hinna fjölmörgu lífeyrissjóða stæðu frammi fyrir væri ætlunin með frumvarpi þessu að rétturinn yrði allur sá sami hvað hjón varðar. Með frumvarpi þessu er hins vegar eingöngu gert ráð fyrir að við slit á fjárfélagi hjóna við skilnað skuli áunninn ellilífeyrisréttur greiddur til fyrrverandi maka miðað við inngreiðslur í viðkomandi sjóð á meðan hjúskapur stóð yfir og þá miðast við almennan lífeyrisaldur viðkomandi lífeyrissjóðs án tillits til flýtireglna. Að sjálfsögðu yrði viðkomandi lífeyrissjóður að taka upp skráningu lífeyrisréttinda með tilliti til þess sem að framan greinir. Ætla má að slík skráning yrði starfsmönnum lífeyrissjóða ekki erfið þegar litið er til þeirrar tölvuvæðingar og mikils samstarfs og upplýsingaflæðis á milli lífeyrissjóða í dag.
    Með ólíkindum er hve mál þetta hefur átt lítinn hljómgrunn hjá löggjafanum og jafnvel samtökum kvenna þrátt fyrir annars jákvæða afstöðu til þeirra mála er lúta að jafnrétti kynjanna.
    Virðulegi forseti. Ég legg þetta frv. fram og legg til að það fari til efh.- og viðskn.