Eftirlit Landhelgisgæslunnar innan 200 sjómílna efnahagslögsögunnar

87. fundur
Fimmtudaginn 10. febrúar 1994, kl. 16:26:58 (4006)


[16:26]
     Flm. (Guðmundur Hallvarðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég legg hér fram ásamt hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni till. til þál. um eftirlit Landhelgisgæslunnar innan 200 sjómílna efnahagslögsögunnar. Þáltill. hljóðar svo:
    ,,Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra framkvæmd ítarlegrar athugunar á því hve mörg tæki (skip og loftför) Landhelgisgæslan þurfi til að halda uppi fullu eftirliti innan 200 sjómílna efnahagslögsögunnar samkvæmt lögum nr. 41/1979 og 200 sjómílna fiskveiðilandhelgi samkvæmt reglugerð nr. 299/1975. Einnig skal kanna hver viðbótin þurfi að vera verði efnahagslögsagan færð út allt að 350 sjómílum á þeim svæðum sem Ísland á rétt á samkvæmt alþjóðalögum.``
    Í greinargerð segir m.a.:
    ,,Eins og bersýnilega hefur komið í ljós að undanförnu má þjóðarbúið ekki við neinum skakkaföllum í efnahagslögsögunni. Efnahagslögsagan er mjög víðfeðm, um 758 þúsund ferkílómetrar, eða 7,5 sinnum stærri en landið sjálft. Ekki er úr vegi að líta á þann viðbúnað sem nágrannaþjóðir okkar hafa vegna eftirlits í sínum efnahagslögsögum. Þar má nefna Norðmenn, Englendinga og Dani vegna Grænlands og Færeyja.
    Ekki þarf að fara mörgum orðum um hvað samkeppnin um fiskinn í höfunum hefur aukist á síðustu árum. Ásókn fiskiskipa við 200 sjómílna mörkin og/eða miðlínur hefur aukist að undanförnu og má þar nefna svæði á Færeyjahrygg, á Reykjaneshrygg, á Dohrn-banka og norðaustur af landinu. Einnig má benda á áhuga Spánverja, Portúgala, Frakka og fleiri þjóða á fiskveiðum í Norðaustur-Atlantshafi. Skip frá öðrum heimsálfum hafa sótt til veiða við mörk efnahagslögsögunnar á undanförnum árum og má þar t.d. nefna skip frá Asíu.
    Eftir að breyting varð á lögum hvað varðar heimildir erlendra fiskiskipa til löndunar á afla í íslenskum höfnum má búast við aukningu á umferð þeirra um efnahagslögsöguna. Einnig er talsverð umferð þeirra fiskiskipa um efnahagslögsöguna sem sækja á Dohrn-banka. Ekki má gleyma hversu mikilvægt er að halda uppi öflugu eftirliti vegna mengunar sjávar. Ef upp kæmi mengunarslys innan efnahagslögsögunnar og/eða frétt um slíkt gæti það haft alvarlegar afleiðingar fyrir markaði á sjávarafurðum okkar erlendis. Stærð efnahagslögsögunnar við Ísland og þýðing hennar fyrir þjóðarbúið er svo mikil að ekki má hætta á neitt er dregið gæti úr strangri gæslu á auðlindinni.``
    Eins og hér kemur fram í greinargerð er ekki dregið úr né ofsagt um mikilvægi Landhelgisgæslunnar. Margar tillögur hafa á undanförnum árum komið fram um bæði flugkost og skipakost Landhelgisgæslunnar en með þessari þáltill. er lagt til að menn setjist niður og hugleiði hvernig skuli með fara, hvaða hlutverk er það sem við ætlumst til af Landhelgisgæslunni og hverju við megum búast við í framtíðinni hvað varðar ásókn erlendra skipa. Nú þegar liggur það fyrir að ekki innan langs tíma munu sækja hér a.m.k. fimm skip á mið okkar Íslendinga vegna samnings við evrópsku efnahagsbandalagslöndin þannig að vissulega er þörf á enn frekari gæslu. Flm. gera sér fulla grein fyrir að vandinn er auðvitað mikill vegna þess að menn þurfa að líta á nútímann og reyna þá um leið að sjá fram á veginn í þá veru sem vissulega blasir við okkur að erlend fiskiskip munu í síauknum mæli sækja hér innan fiskveiðilögsögunnar eða að henni og því þarf fulla gát á og við verðum að vera undir það búin að gæta 200 sjómílna efnahagslögsögunnar.
    Að síðustu þetta: Íslensku fiskimiðin eru gjöful. 80% af útflutningin okkar er vegna sjávarafurða sem duglegir sjómenn hafa sótt við erfið skilyrði. Við þurfum að hafa varðskip til að aðstoða þá ef illa fer, aðstoða íslensk fiskiskip sem sækja nú dýpra en áður. Við þurfum líka að huga að þeim flugflota sem við þurfum nauðsynlega á að halda til þess að geta sinnt björgunar- og öryggisstörfum hér í kringum landið og innanlands líka og það er líka nauðsyn á með tilliti til okkar gjöfulu fiskimiða að gefa nú enn frekari gaum að komu erlendra skipa innan okkar efnahagslögsögu og hvað ekki síst þeirra olíuskipa sem eru að koma hingað til landsins undir þægindafána og með mismunandi áhafnir um borð þannig að eitt olíuslys gæti valdið okkur miklu meiri búsifjum en við höfum þurft að glíma við nú undan farin þrjú ár.