Eftirlit Landhelgisgæslunnar innan 200 sjómílna efnahagslögsögunnar

87. fundur
Fimmtudaginn 10. febrúar 1994, kl. 16:33:21 (4007)


[16:33]
     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Hæstv. forseti. Mig langar að auka eilitlu við það sem félagi minn, hv. þm., var að lýsa fyrir okkur um gang þessara mála.
    Fyrst er það að því er ekki að leyna að Íslendingar hafa verið býsna lengi að átta sig á því nú á síðari árum hve gífurleg réttindi við eigum á geysilega stóru hafsvæði og það hefur allt snúiast meira og minna um önnur mál, mikilvæg kannski, kannski ekki, þ.e. samskiptin við Evrópubandalagið og við höfum gleymt okkar meginhagsmunamálum í þeirri baráttu. En staðreyndin er sú að eftir réttum lögum samkvæmt hafréttarsáttmálanum sem auðvitað er í gildi og hefur verið lengi, hann er í gildi de facto og hefur verið það þó að menn hér hafi ekki viljað viðurkenna að einhverja fimm eða sex vantaði til að undirskrifa úr hópi ríkjanna. Hafréttarsáttmálinn er sem sagt í gildi og eftir honum á að fara. Og í honum eru mörg merkileg ákvæði og áttum við Íslendingar ekki síst þátt í því að eitt af þessum ákvæðum varð að lögum, þ.e. í VI. hluta hafréttarsáttmálans, 76. gr. um landgrunn. Þar er sérstaklega getið um þau miklu réttindi sem þær þjóðir geta helgað sér sem eru á hafsbotnsgrunnum og eins getur sérstaklega í 5. gr. þar sem segir að þrátt fyrir ákvæði 5. tölul. 2. gr., þá séu neðansjávarhryggir allt að 350 sjómílur frá grunnlínum sem víðátta landhelginnar takmarkast af. Þ.e. með venjulegu orðalagi og við séum þá ekki með orðhengilshátt sem óneitanlega var í nokkrum mæli á hafréttarráðstefnunni sem eðlilegt er þegar aðilar eru á annað hundrað og fjöldinn allur að glíma við að finna lausn en þá varð um það lausn sem ekkert verður um deilt og um það samið og fór beint inn í hafréttarsáttmálann, samið af okkar fulltrúum og fulltrúum Rússa. Rússarnir sögðu við okkur, það er mér minnisstætt, eftir nokkra fundi þar sem Hans G. Andersen stjórnaði okkar liði, þá sögðu þeir að við Íslendingar værum mestu ,,imperialistar`` í heimi því að við ætluðum okkar að fara einar 2--3 þúsund mílur eftir Reykjaneshryggnum en svo djúpt er það svæði einmitt sem þarna um ræðir. Og þetta er óbrotin línan, landgrunnið á þessum svæðum, og menn hér kannast allir við hvað þar er um að ræða þegar við tölum um landgrunnið og eignarrétt á því, þ.e. þar sem hafið tekur við af þurrlendinu og síðan megum við fara svo og svo langt niður. Á nokkrum stöðum annars staðar í veröldinni var þessu svo háttað að löndin gátu eignast miklu víðtækari réttindi en við höfum t.d. á Hatton-Rockall svæðinu. Þetta hefðum við alltaf getað haft í huga og átt að hafa í huga allan tímann en liðið er liðið og við snúum okkur sem sagt að því að ná nú fram því sem mesta þýðingu hefur. En það er þessi grein sem byggt var á í þessum samkomulagsumleitunum okkar og Rússa að þar sem svo háttaði til að um neðansjávarhryggi var að ræða þar sem ekki væri neitt land slitið frá öðru, ekki væru djúpar gjár eða neitt slíkt þar sem það færi til sjávar, þá mætti ríkið helga sér og takmarka þessa framlengingu í 350 mílur. Við vorum ekkert allt of kátir með þessa tölu, 350 mílur í staðinn fyrir 200 mílurnar en sögðum við Rússana eitthvað á þann veg: Hvað er það þá sem þið getið sætt ykkur við? Þið segið að við ættum að taka 3--4 þúsund mílur. Það er ekki rétt, við ætlum ekki að gera það en getum við ekki sest niður einn ganginn í viðbót og athugað hvort við náum ekki samkomulagi. Rússarnir vildu náttúrlega fá fyrirmæli einhvers staðar frá og niðurstaðna varð sú að við stungum upp á að mig minnir 600 mílum í staðinn fyrir 200 og niðurstaðan varð þessar 350 mílur.
    Það er ekki vansalaust að Íslendingar skuli ekki enn þann dag í dag vera farnir að hagnýta Reykjaneshrygg sem sína einkaeign. Það er Reykjaneshryggurinn og það er sífellt verið að draga á langinn að nytja þessa gífurlegu auðlegð. Þarna er djúpsjávarkarfi, þarna hafa verið skip sem hundruðum skipta frá fyrrum Sovétríkjunum t.d. og frá Austur-Evrópu ríkjunum. Þó að á þessu sé hamrað á hverju einasta þingi úr þessum stóli þá er það svo að áheyrendur eru venjulega 3, 4 eða 5 og síðan ekki söguna meir. Þetta er nú staðreynd málsins. Ég hef haldið þessa ræðu svo oft, meira að segja fyrir ákafa og ágætis menn eins og hér eru núna staddir að maður getur eiginlega ekki farið mikið lengra út í þetta.
    Eitt er það sem ég vil aðeins geta um það sem segir í tillögunni að 350 sjómílurnar er það sem við miðum við og þurfum að rökstyðja okkar mál betur en gert verður í örstuttu máli.