Kaup á björgunarþyrlu

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 15:26:21 (4016)


[15:26]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Hv. 4. þm. Norðurl. e. hefur eiginlega sagt það sem ég ætlaði að segja. Auðvitað er allur gangur þessa máls hreint hneyksli og ég vildi að ríkisstjórnin vissi hvern hug sjómannastéttin ber til hennar eftir að hafa horft á þetta ganga á þennan máta í allt upp í tvö ár. Það sýnir auðvitað gildismat þessarar ríkisstjórnar að hvert stórslysið eftir annað gerist án þess að menn ranki við sér og enn og aftur heyrir maður sömu svörin, að björgunarþyrlur af Keflavíkurflugvelli geti komið í staðinn fyrir þá þyrlu sem við óskuðum eftir að yrði keypt. Það er rangt. Þær eru ekki ætlaðar til þess að ferðast yfir land á borð við Ísland í hvernig veðrum sem er og þetta hefur margsinnis komið fram.
    Ég ætla aðeins að lokum að minna á og gera þau orð skipstjórans á Goðanum að mínum þegar hann sendi ríkisstjórnina kveðju og sagði: Þeir ættu að lenda í þessu sjálfir.