Kaup á björgunarþyrlu

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 15:27:48 (4017)


[15:27]
     Fyrirspyrjandi (Ingi Björn Albertsson) :
    Hæstv. forseti. Ég skal viðurkenna það að ég var að gera mér vonir um það að ég fengi skýrari svör en ég fékk í dag. Það er alveg rétt að þetta eru nákvæmlega sömu svörin og við höfum verið að fá lon og don. Það eru frekari viðræður, nýjar nefndir, litið suður á völl. Þetta er það sem við erum búin að hlusta á í þrjú ár. Vilji Alþingis er algjörlega skýr, hann er jafnskýr og hann var í landbúnaðarmálum um daginn og þá átti að keyra allt í gegnum þingið. Viljinn er nákvæmlega jafnskýr en það er bara vilji ríkisstjórnarinnar sem er ekki skýr og þar er mikill munur á. Ríkisstjórnin hefur aldrei viljað kaupa þyrlu og það er málið. Vilji þingsins er skýr, vilji þjóðarinnar er skýr. Það er vilji allra nema ríkisstjórnarinnar til þess að kaupa björgunarþyrlu. Ég segi eins og aðrir: Þetta er hneyksli og ég skammast mín fyrir svona ríkisstjórn. Ég hreint og beint skammast mín fyrir hana. Að líta hér með söknuði til þess að búið sé að selja 9--11 ára gamla þyrlu, það er annað hneyksli. Forstjóri Landhelgisgæslunnar var búinn að lýsa því yfir að það væri rangt að fara þá leið. Það munaði litlum 150 millj. kr. á því að kaupa nýja þyrlu, nýja fullkomna þyrlu, og menn eru að gráta yfir því að 11 ára gömul þyrla er farin og það á að fara að leita að eins þyrlu á einhverjum þyrlukirkjugörðum úti í heimi. Þetta kalla ég hneyksli eins og allt þetta mál er orðið. Ég dauðsé eftir því að hafa samið af mér þau tvö lagafrumvörp sem við höfum lagt hérna fram. Ég dauðsé eftir því. Ég hélt í einfeldni minni að það væri hægt að treysta orðum manna. En það er svo víðáttu, víðáttulangt frá því að það sé hægt að treysta orðum þessara manna. Þær yfirlýsingar sem nú hafa komið fram, ég treysti þeim ekkert meira en hinum enda engin ástæða til. Það er ekki hægt að draga menn á asnaeyrunum endalaust. Það fer að svíða undan. ( Gripið fram í: Hvar er forsrh.?)