Kaup á björgunarþyrlu

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 15:29:59 (4018)


[15:29]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Það gætir nokkurs misskilnings í máli tveggja hv. þm. sem túlkuðu orð mín á þenn veg að ég hefði verið að vísa til þess að það kæmi til álita að við hyrfum frá því að kaupa þyrlur ef til

samstarfs við björgunarsveit varnarliðsins kæmi. Það er á miklum misskilningi byggt og fólst ekki á nokkurn hátt í mínum orðum. Hins vegar gæti það haft áhrif á val um kaup á björgunarþyrlu en í því efni verða menn þó að hafa í huga að við höfum sett okkur ákveðin skýr markmið og gert ákveðnar kröfur um hæfni og búnað slíks björgunartækis, m.a. um langdrægi og möguleika til flots og frá þeim kröfum verður ekki horfið, burt séð frá því hver endanleg niðurstaða verður um þá tegund sem keypt verður. Íslendingar þurfa að eignast eigin björgunarþyrlu, nægjanlega öfluga til að geta sinnt þeim skilgreindu verkefnum sem við ætlum að taka að okkur en við það val geta auðvitað komið inn fleiri kostir.
    Ég vil líka að gefnu tilefni minna á að sérfræðingar Landhelgisgæslunnar og þeir sérfræðingar sem kallaðir hafa verið til töldu eðlilegt að við keyptum notaða þyrlu sem uppfyllti þær kröfur sem gerðar yrðu, ekki síst með tilliti til þess að notkunartími er ekki það mikill, sem betur fer, en hagsmunirnir auðvitað mjög miklir að þyrlan fullnægi þeim kröfum sem gerðar eru og út frá þeim meginmarkmiðum verður unnið þegar við erum þessa daga að leita að nýjum kosti.