Rannsóknir og þróun í fiskvinnslu

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 15:40:11 (4021)


[15:39]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Það er nokkuð athyglisvert að hugsa um það þegar maður skoðar stöðu sjávarútvegsins hér á landi annars vegar og hins vegar þann mikla fjölda af háskólamenntuðu fólki sem við höfum útskrifað á undanförnum árum og áratugum, hvað það eru ótrúlega fáir háskólamenntaðir einstaklingar sem starfa í vinnslufyrirtækjum í sjávarútvegi. Það er ótrúlega lítið um að slíkir aðilar séu í vinnu við rannsókna- og þróunarverkefni inni í sjávarútvegsfyrirtækjum. Ég hygg að það megi telja þá einstaklinga á fingrum annarrar handar í landinu öllu sem sinna þessum verkefnum sérstaklega.
    Ég hef á undanförnum missirum rætt þetta oft við forstöðumenn sjávarútvegsdeildar Háskólans á Akureyri og auðvitað er það stuðningur fyrir sjávarútveginn sem þar á sér stað og sömuleiðis á vegum Rannsóknasjóðs. Hitt er alveg ljóst sem hv. fyrirspyrjandi er að ýja að að til þess að ná því út úr sjávarútveginum sem hægt er þá verður að gera sérstakt menntunarátak fyrir þá sem þar starfa og sérstakt átak til þess að stórauka fjármuni og svigrúm til fjármunamyndunar í rannsókna- og þróunarverkefnum. Og ég harma svar hæstv. sjútvrh. sem lýsti því að hann væri sáttur við ástandið eins og það er í dag.