Rækjukvóti loðnuskipa

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 15:51:12 (4027)


[15:51]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Ég hlaut að svara fsp. eins og hún var borin fram. Ég tók það alveg skýrt fram af minni hálfu að eðlilegt hefði verið að spyrja ef þetta mál hefði átt að bera fram með málefnalegum hætti hvort til stæði að gera tillögur um breytingar á lögum.
    Það hefur ekki staðið til af minni hálfu og fyrir því eru mörg rök og auðvitað þau sem ég veit að

hv. þm. er kunnugt um að loðnuskipin voru skert mest allra skipa af botnfiskveiðiheimildum árin 1984--1985. Þau áttu aldrei kost á að velja sóknarmark eins og flest önnur skip og auka þannig aflareynslu sína. Þær ákvarðanir sem teknar voru miðuðu að því að koma þessum skipum út úr botnfiskveiðum. Og þegar af þeirri ástæðu er ljóst að ef nú ætti að taka af þeim þessar veiðiheimildir þá vaknaði upp spurning hvort ekki væri nauðsynlegt að bæta þeim upp þær veiðiheimildir sem áður voru af þeim teknar og voru forsenda fyrir því að rækjuheimildirnar voru auknar gagnvart hluta af þessum flota.
    Á það er svo líka rétt að minnast að þessar heimildir hafa færst á milli skipa í ýmsum tilvikum og hv. þm. kemst þess vegna ekki hjá því ef hann ætlar að beita sér fyrir lagabreytingu af þessu tagi að flytja um það tillögur að aflaheimildir séu fluttar af tilteknum skipum yfir á önnur.