Úthlutun aflaheimilda

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 15:53:36 (4028)


[15:53]
     Fyrirspyrjandi (Jóna Valgerður Kristjánsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég hef hugsað mér að bera hér fram fsp. til hæstv. sjútvrh. á þskj. 554, svohljóðandi:
    ,,Verður endurskoðuð úthlutun aflaheimilda yfirstandandi fiskveiðiárs á botnfisktegundum, sbr. ákvæði 3. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða?``
    Það hefur komið í ljós sem flestir óttuðust þegar ákveðinn var heildarþorskafli fyrir yfirstandandi ár að nú eru aflaheimildir að klárast og ekkert fram undan hjá þeim landsvæðum sem byggja allt sitt á þeim nema atvinnuleysi. Við gerum okkur það öll ljóst að það hefur verið minnkandi þorskur í sjónum og klak undanfarinna ára hefur ekki tekist sem skyldi. Við því hefur verið brugðist með takmörkun á afla. Og undanfarin tvö ár hefur jafnvel verið erfiðleikum bundið að ná þeim afla sem leyfður hefur verið í þorskveiðiheimildum. Þess vegna var ekki mikið um mótmæli við ákvörðun sjútvrh. um þann niðurskurð sem ákveðinn var hér fyrir yfirstandandi fiskveiðiár. Ég geri þó ráð fyrir að hefðu fiskveiðar gengið jafntreglega í vetur og undanfarin ár þá hefði engum dottið í hug að fara fram á auknar þorskveiðiheimildir. En ástandið er mun betra en sjómenn og flestir aðrir þorðu að vona. Það hefur fiskast vel þegar gefið hefur á sjó og menn tala um að greinileg aukning á fiskgengd hafi orðið allt í kringum landið. Stór og góður fiskur hefur t.d. veiðst út af Vestfjörðum í vetur. Sl. tvö ár hafa skilyrðin í sjónum verið með betra móti. Hafrannsóknastofnun lýsti því svo yfir sl. vor að ástand sjávar væri eins og best væri á kosið og útlit fyrir gott þorskklak.
    Ég tel að við þessar aðstæður sem ég hef hér nefnt sé fullkomlega réttlætanlegt að úthluta meiri veiðiheimildum á botnfiski. Og ég tek alveg undir það sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson sagði í DV sl. laugardag að það sé varlega farið þó þorskkvótinn yrði hækkaður í það sama og á síðasta ári eða í 205 þús. tonn. Það mundi bæta stöðu þeirra sjávarútvegsfyrirtækja sem byggja afkomu sína mest á þorskveiðum og koma í veg fyrir stórfellt atvinnuleysi.
    Ég rengi ekki niðurstöður fiskifræðinga miðað við þær forsendur sem þeir nota en ég tel hins vegar að skekkjumörk séu þar veruleg enda hefur það komið í ljós í ráðleggingum þeirra á undanförnum árum.
    Eftir togararallýið í fyrra mældist þorskstofninn heldur stærri en árið áður því þá mældist fiskurinn 20--45 sm að jafnaði en í fyrra var hann allt upp í 30--60 sm. Og meira varð vart við eins árs fisk þá heldur en árið áður eða árið 1992. Ég tel þetta vísbendingu um að stofninn sé tvímælalaust á uppleið og sem betur fer segja auðvitað allir. Og eins og ég sagði var það gefið út af Hafró sl. vor að aðstæðurnar bentu til þess að klak gæti heppnast betur en verið hefur.
    Það var sett á síðasta fiskveiðiári kvóti um 205 þús. tonna þorskafla en reyndar voru veidd 230 þús. tonn. Þannig að venjulega hefur ekki verið hægt að hengja sig alveg á ákveðinn tonnafjölda. Þess vegna beini ég þeirri fsp. sem ég las hér upp áðan til hæstv. sjútvrh.