Úthlutun aflaheimilda

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 15:57:15 (4029)


[15:57]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Hafrannsóknastofnun lagði fram skýrslu sína um nytjastofna sjávar og umhverfisþætti fyrir árið 1992--1993 og aflahorfur fyrir fiskveiðiárið 1993--1994 í maí sl. Þar kom fram að veiðistofninn, þ.e. fjögurra ára þorskur og eldri yrði aðeins 610 þús. tonn í ársbyrjun árið 1994 og hrygningarstofninn rétt um 200 þús. tonn. Þá kom fram í skýrslunni að við 175 þús. tonna afla mun veiðistofninn minnka í 580 þús. tonn árið 1995 og hrygningarstofninn nánast standa í stað næstu árin. Aðeins með því að takmarka aflann enn frekar, þ.e. veiða minna en 175 þús. tonn, má gera ráð fyrir að stofninn nái að stækka svo nokkru nemi fram til 1996. Þá hefur komið fram að nýliðun í þorskstofninn hefur verið mjög slök síðustu árin og miklar líkur eru á því að endurnýjunargeta hrygningarstofnsins sé verulega skert miðað við fyrra ástand hans. Fyrir þá sök ber mikla nauðsyn til að efla þorskstofninn svo afrakstursgeta hans aukist og verði álíka og verið hefur marga undanfarna áratugi. Það er þess vegna sem Hafrannsóknastofnun lagði til að miðað yrði við 150 þús. tonna afla á yfirstandandi fiskveiðiári og stjórnvöld ákváðu 165 þús. tonna afla í framhaldi af tillögum stofnunarinnar.
    Enda þótt þorskstofninn standi illa um þessar mundir verður ekki annað sagt en að ástand loðnustofnsins sé mjög gott. Þar sem loðnan er aðalfæða þorsksins hefur þetta haft þau áhrif að þorskur á ýmsum miðum hefur safnast saman og orðið auðveiðanlegri en oft áður og í annan stað vex þorskurinn mjög vel þar sem mikið er um æti. Hér ber einnig að hafa í huga að þorskurinn getur verið veiðanlegri þegar breytingar verða á hitaskilum í sjónum.
    Athugun á aldursdreifingu þorsks í afla togara á Vestfjarðamiðum á tímabilinu september--desember 1993 sýnir að a.m.k. 70% af aflanum er fjögurra ára fiskur og yngri. Hið sama gildir um afla við Norðurland og Breiðafjörð. Meðalþyngd þorsksins á haustmánuðum var því um eða talsvert undir 2 kg. Það er deginum ljósara að mikla nauðsyn ber til að draga úr veiðum á þessum unga en hraðvaxta ókynþroska fiski og jafnframt er það ljóst að öll aukning í veiðiheimildum um þessar mundir mun koma okkur í koll síðar og tákna fráhvarf frá fyrri ákvörðunum um hagkvæma nýtingu og eflingu þorskstofnsins.
    Það er einnig rétt að minna á í þessu sambandi að afli á togtíma togara hefur farið minnkandi. Var minni að því er ísfisktogarana varðar á síðasta ári en árið þar áður. Ég þykist vita að hv. þm. hafi kynnt sér síðustu bráðabirgðatölur Fiskifélagsins um afla Vestfjarðatogara í janúarmánuði. Hann var minni en á sama tíma árið áður. Ef allur bátafloti Vestfirðinga er tekinn og veiðar í janúarmánuði kemur í ljós að afli þeirra var minni í janúar á þessu ári en árið áður.
    Allt eru þetta atriði sem við þurfum að hafa í huga. En aðalatriðið er þó að ekkert hefur komið fram sem breytir þeim forsendum sem lagðar voru til grundvallar ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar í maímánuði í fyrra og ákvörðunum stjórnvalda. Sem betur fer reyndist klakmælingin sl. haust betri en áður og gefur góða von. En þorskurinn er ekki svo bráðþroska að það gefi tilefni til að auka aflaheimildir nú. Það væri ábyrgðarleysi. Við höfum oft orðið varir við slíkt ábyrgðarleysi en það hefur dregið úr því á síðustu árum og síst af öllu átti ég von á að það kæmi úr röðum Kvennalistans.