Úthlutun aflaheimilda

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 16:02:22 (4030)



[16:02]
     Fyrirspyrjandi (Jóna Valgerður Kristjánsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Það er svo að ríkisstjórnin tekur ákvörðun um aðgerðir. En mér sýnist hún ekki taka ábyrgð á sínum aðgerðum. Því þegar hún er að taka ákvörðun um það að skera svo niður þorskkvótann og botnfiskheimildir sem gert hefur verið að atvinnuleysi blasir við meginhluta sjávarútvegsfyrirtækja, alla vega þeim sem byggja afkomu sína á botnfiski hálft árið, þá sýnist mér að ríkisstjórnin taki ákvörðun um ákveðnar aðgerðir en hún ætlar ekki að taka afleiðingunum af þeim ákvörðunum.
    Og hvað viðvíkur því sem hæstv. ráðherra rakti áðan að þorskstofninn væri ekki áætlaður nema 630 þús. tonn, eins og hann las upp úr skýrslu Hafrannsóknastofnunar frá sl. vori, þá er það alveg rétt. En samkvæmt því sem nú hefur verið lagt til að veiða þá á ekki að veiða meira en 24% af stofnstærðinni. Árið 1973 var stofninn 830 þús. tonn, en veiðin var 382 þús. tonn eða 46% af stofnstærðinni. Samt varð nýliðun aldrei betri en einmitt úr þessum sama stofni. Það fer því ekki alltaf saman, hæstv. ráðherra. Þó stofnstærðin segi okkur að við megum ekki veiða nema eitthvað ákveðið sem Hafrannsóknastofnun leggur til þá sýnir reynslan okkur stundum ýmislegt annað.