Úthlutun aflaheimilda

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 16:08:43 (4034)


[16:08]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég vil láta það koma hér fram að um þessi efni hafa verið nokkuð skiptar skoðanir innan Kvennalistans. Við höfum sumar verið talsmenn þess að fara mjög varlega í því að ganga lengra á fiskstofnana. Ég tek undir það sem fram kom í máli hæstv. sjútvrh. að lífið hér í landi byggist á því að við getum veitt fisk. Ég vil minna á grein sem birtist reyndar í Alþýðublaðinu af öllum blöðum eftir Pétur Bjarnason á Akureyri, þar sem hann benti einmitt á þá staðreynd að ástæðan fyrir því að það væri þó enn þorskur hér við landið er líklega sú staðreynd að fiskstofnar hér hafa notið meiri verndar en víðast hvar annars staðar og veiðum hér hefur verið stýrt um árabil.
    Ég hygg að það sé töluverður sannleikur í þessari skoðun Péturs og vara eindregið við því að þorskkvóti hér við land verði aukinn eða menn gangi lengra í að veiða þorsk hér en orðið er.