Bætur til bænda vegna harðinda

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 16:11:44 (4037)

[16:11]
     Fyrirspyrjandi (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) :

    Virðulegur forseti. Ég ber hér fram fsp. á þskj. 499 til fjmrh. Hún hljóðar svo:
    ,,Hvernig hyggst ráðherra beita heimild í 6. gr. fjárlaga 1994 til að greiða bætur þeim bændum sem urðu fyrir mestu tjóni vegna harðinda á síðastliðnu sumri?``
    Í 6. gr. fjárlaga fyrir yfirstandandi ár, heimildagreininni, er opin heimild til fjmrh. til að greiða bætur til bænda vegna harðinda á síðasta ári. Þetta er að mínu mati afar sérstök málsmeðferð. Á margan hátt hefði verið miklu eðlilegra að sjá til þess að búnaðarmáladeild Bjargráðasjóðs fengi ákveðna fjárveitingu til þessara verkefna. Ég veit ekki til þess að neitt sé farið að vinna í þessu máli enn þá. Bændur eru farnir að spyrja eftir því hvað þetta þýði og hvers þeir megi vænta.
    Ég vil því ítreka spurningu mína til hæstv. ráðherra: Hvernig ætlar ríkisstjórnin að beita þessari heimildargrein? Hvað á það að dragast lengi að eitthvað liggi ljóst fyrir um það? Ég beini þessari spurningu til fjmrh. einfaldlega vegna þess að heimildargreinin sem slík er í fjárlögunum, heimildin er hans.
    Virðulegur forseti. Nú skil ég hvorki upp né niður í tímatöku. Það er talið hér bæði upp og niður. Ég vil spyrja hvort ég eigi þarna 49 sekúndur eftir eða hvað?
    ( Forseti (KE) : Það er rétt, 45 sekúndur.)
    Ég þarf ekki lengri tíma en ég vænti greiðra svara frá hæstv. ráðherra.