Bætur til bænda vegna harðinda

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 16:16:51 (4039)


[16:16]
     Fyrirspyrjandi (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég mun þá væntanlega í framhaldi af ábendingu ráðherrans beina fsp. til hæstv. landbrh. formlega á þskj. um hvað líði úrvinnslu þessa máls.
    Eitt vakti athygli í ræðu hæstv. ráðherra. Hann sagði: Þetta er ekki opin heimild. Það eru mjög þröngar skorður á því sem hægt er að gera samkvæmt 6. gr. að mati ráðherrans. Það er væntanlega rétt en það slær hins vegar úr höndum ráðherrans þau rök að ekki hefði verið hægt að ákveða í þetta sérstaka upphæð innan þess sem menn treystu sér til til handa búnaðarmáladeild Bjargráðasjóðs. Mér sýnist að þessi umræða hafi nú fært að því rök að það hefði verið miklu skynsamlegri málsmeðferð.
    Ég vil einnig benda á varðandi styrki Bjargráðasjóðs. Þeir hafa einskorðast við styrki vegna fóðurkaupa. Þá vil ég benda á að við þær breyttu aðstæður sem eru í búskap hér á landi og afkoma bænda byggist orðið alfarið á því að mönnum takist að afla sem mest af sínu fóðri heima þá er mjög líklegt að í mörgum tilfellum sé núna hægt að telja nægilega margar fóðureiningar í hlöðum og rúllum viðkomandi bónda þó svo að fóðurgildið sé svo lélegt að fóðrið nýtist mjög illa til afurðafóðrunar og þá sérstaklega í mjólkurframleiðslu. En ég geri ekki kröfur til þess að fjmrh. ,,kommenteri`` á þetta atriði sem slíkt.