Innheimta þungaskatts

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 16:22:38 (4042)


[16:22]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Hér er eiginlega um tvær fsp. að ræða. Annars vegar fsp. um það hvernig standa skuli að sérstöku átaki í innheimtu þungaskatts eins og kemur fram í fsp. og hins vegar hvernig herða má eftirlit með því að menn svindli ekki á kerfinu sem er málsatriði sem kom fram í ræðu hv. þm.
    Fyrst vil ég líta á innheimtuna og þegar talað er um innheimtu er verið að tala um innheimtu álagðra gjalda.
    Ráðuneytið hefur á undanförnum árum staðið fyrir sérstökum innheimtuátökum, ef ég má nota þá íslensku. Aðgerðirnar sem notaðar eru felast í því að skráningarnúmer eru klippt af bifreiðum, fjárnám er gert í bifreiðagjöldum, lögveð er fyrir þungaskattinum sem þýðir að það er hægt að krefjast uppboðs á viðkomandi tæki án þess að fjárnáms hafi fyrst verið krafist.
    Rétt er að taka fram að auk þessara sérstöku aðgerða í innheimtu bifreiðagjalda og þungaskatts eru innheimtumenn stöðugt með staðbundnar aðgerðir í gangi. Það hefur verið lögð veruleg vinna í þetta. Ráðuneytið hefur lagt áherslu á að innheimtumenn beiti allir sömu vinnubrögðum við innheimtuna þannig að allir gjaldendur, sem t.d. eru að bjóða í vegaframkvæmdir, hafi sömu forsendur fyrir tilboðunum. Það er ákaflega mikilvægt að þeir allir hafi staðið skil á þungaskattinum.
    Sérstak átak verður gert innan tíðar til þess að efla innheimtuna á þessu ári en til að nefna stöðu innheimtunnar þá get ég farið með tölur frá 1. jan. sl. Ef við leggjum saman fasta árgjaldið í þungaskattinum, vátryggingu ökumanns, bifreiðagjald, þungaskatt samkvæmt ökumæli og þungaskattsviðurlögin, þá hafa innheimst frá árinu 1991, sem féll á því ári, 98,3%, á árinu 1992 97,5% og vegna ársins 1993 88%. Það hlutfall mun áreiðanlega hækka verulega og upp í þau hlutföll sem ég nefndi áður þegar til aðgerðanna kemur.
    Hv. þm. ræddi einnig um eftirlitið og það skal tekið fram að Vegagerð ríkisins tók við eftirliti með ökumælum til þungaskattsákvörðunar 1. jan. sl. Undanfarin ár hafa tveir menn á vegum fjmrn. sinnt þessu starfi en nú taka við eftirlitsmenn á vegum Vegagerðarinnar. Eftirlitsmönnum fjölgar þannig úr tveimur í sjö og þá er gert ráð fyrir að allt að fimm til sex hópar muni starfa að þessu ásamt löggæslumönnum um landið allt.

    Ég tel óþarfa að fara nákvæmlega ofan í lýsingu á því hvernig þeir sinna sínu eftirliti en það verður stórhert og ætti að leiða til þess að álagning þungaskatts eykst. Í framhaldi af því ætti innheimtan að ganga betur og meira fé að ganga til þeirra verkefna sem þungaskatturinn á að fara til.
    Með nýjum stjórnsýslulögum og dómum sem féllu í nóvember sl. vegna áætlaðs aksturs á bifreiðar gerðist það að niðurstaðan varð í fyrsta lagi sú að ráðuneytið sem hærra stjórnvald mætti ekki blanda sér beint inn í áætlanir um brot á þessum lögum eins og verið hefur á síðustu árum. Í öðru lagi að andmælareglur hefðu ekki verið virtar við fyrrnefndar áætlanir. Þess vegna var talið nauðsynlegt að breyta áætlanaferlinu frá því sem verið hefur en undanfarin ár hafa þessar áætlanir í raun verið unnar í fjmrn. þó svo að það hafi verið innheimtumenn sem lögðu á samkvæmt tillögu ráðuneytisins. Þetta áætlunarferli verður nú mun svifaseinna vegna þess að innheimtumenn verða að byrja á því að skrifa eiganda eða umráðamanni bifreiðar, tilkynna honum að áætlun sé fyrirhuguð og gefa honum frest til andmæla.
    Þetta eru fréttir af því hvar þetta mál stendur en hv. þm. vék í síðustu að spurningunni að því hvort taka ætti upp í staðinn fyrir þungaskatt litaða olíu. Ég gaf held ég nokkuð ítarlegt svar við þeirri fsp. fyrir nokkrum dögum síðan og mín skoðun er sú og það er stefna ráðuneytisins að hverfa yfir í olíugjald. Það þarf ekki að vera lituð olía. Það kemur alveg eins til greina að olían sé ólituð því það að taka upp litaða olíu kostar nánast tvöfalt dreifingarkerfi hjá olíufélögunum. Það eru kostir og gallar á þessu fyrirkomulagi en ég á von á því að innan tíðar liggi fyrir endanleg ákvörðun í þessu atriði.