Innheimta þungaskatts

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 16:27:46 (4043)


[16:27]
     Fyrirspyrjandi (Jóna Valgerður Kristjánsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Þau voru að vísu að einhverju leyti endurtekning á því sem spurt var um um daginn þegar spurt var hvort það yrði farið út í litaða olíu. En það sem ég vildi fá fram með því að spyrja um þetta er hvort sú nefnd sem sett var á laggirnar muni leggja til að það verði farið út í að breyta þessu innheimtukerfi því þrátt fyrir að þeim sem líta eftir þessari innheimtu fjölgi um fimm, úr tveimur í sjö, þá hefur það sýnt sig að þetta kerfi er orðið úrelt og gengur bara ekki lengur. Það eru allar þjóðir búnar að viðurkenna það og taka upp annað kerfi. Ég veit að t.d. bifreiðastjórar í þessari stétt sem horfa upp á að aðrir komist fram með alls konar svindl í þessu kerfi hafa virkilegar áhyggjur af samkeppnisstöðu sinni og þessari atvinnugrein yfirleitt ef ekki verður breyting á. Sem fjárlaganefndarmanneskja hef ég að sjálfsögðu áhyggjur af því ef ríkinu tekst ekki með sæmilegu móti að ná þeim tekjum sem það á rétt á að fá. Ég vænti þess því að sem allra fyrst verði farið út í þær breytingar að vera með breytilega olíu eða litaða olíu sem ég held að hafi gengið best í öðrum löndum.