Innheimta þungaskatts

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 16:30:13 (4045)


[16:30]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Í tilefni orða síðasta ræðumanns þá er í þessu tilfelli hægt með einföldum hætti að komast hjá því að menn geti svikist undan að greiða þessi opinberu gjöld með því að menn borgi þetta í hráolíunni þegar hún er keypt.
    Ég bar fram fsp. til hæstv. fjmrh. fyrir hálfum mánuði síðan hvort hann hygðist beita sér fyrir því að taka upp olíugjald í stað þungaskatts og ég vil ítreka það hér að það kemst aldrei gott lag á þessi mál fyrr en horfið verður að því að þetta verði greitt í olíunni.
    Ísland er orðið eina Evrópulandið sem enn er með mælakerfið og ef ekki verður orðið við þessari breytingu á næstu árum þá endar það þannig að það verður sjálfhætt vegna þess að það fást ekki lengur mælar.
    Virðulegur forseti. Ég held að hér hafi málið kannski skýrst eilítið og ljóst sé að í þessu, eins og mörgu öðru, séu ráðherrar ekki sammála. Þeir tveir ráðherrar sem hafa tjáð sig um málið eru auðheyrilega ekki sammála um hvernig eigi að bregðast við þessu.