Innheimta þungaskatts

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 16:31:39 (4046)


[16:31]
     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Það kom skýrt fram á fundi samgn. um daginn að vegamálastjóri hefði áhuga á því að láta á það reyna hvort þessi innheimta gæti tekist betur heldur en hún hefur gert fram að þessu. Þar var talað um að halda óbreyttu kerfi næstu 2--3 árin. Mér hefur fundist þetta koma dálítið á skjön við hæstv. fjmrh. og hæstv. samgrh. Hæstv. fjmrh. upplýsti áðan að innan mjög stutts tíma yrði tekin ákvörðun um að breyta þessu innheimtukerfi en hæstv. samgrh. bergmálar skoðanir vegamálastjóra þar sem menn á þeim bæ vilja láta reyna á það að hafa þetta kerfi óbreytt um stund áfram. Ég tel að það sé full ástæða til þess að menn geri hreint fyrir sínum dyrum og láti það koma skýrt fram hvort það eigi yfirleitt að gera breytingar á þessu kerfi eða ekki.