Starfsemi Landgræðslu ríkisins

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 16:44:45 (4055)


[16:44]
     Fyrirspyrjandi (Ólafur Þ. Þórðarson) :
    Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. landbrh. fyrir svör hans og ég tel að sú stefnumörkun sem kom fram í svarinu sé rétt. Ég hef undir höndum lista sem hæstv. ráðherra afhenti mér um girðingar. Hann er reyndar merktur þannig: Svæði sem hafa verið girt af Landgræðslu ríkisins, en mín spurning var: Hvaða girðingar í umsjá Landgræðslunnar njóta þess viðhalds að viðunandi sé? Ég veit að á þessum lista eru girðingar sem alls ekki njóta þess viðhalds sem eðlilegt getur talist og ég held að sú stefnumörkun að færa þetta verkefni til bændanna sé langraunhæfasta aðgerðin til þess að nýta fjármagnið betur. Ég fagna því líka sem kom fram í svari ráðherrans varðandi samstarf við hestamenn m.a. til þess að nýta búfjáráburð meir til landgræðslustarfa.
    Það voru gleðilegar fréttir sem okkur bárust um hve stór hluti landsins væri gróinn. Það hoppaði úr 25% í 42% og voru þó hinir bestu vísindamenn búnir að fjalla um málið áður. En auðvitað kemur það manni til að hugleiða það hvort það geti verið að á fleiri sviðum geti nú vísindamönnum skjátlast og það er vel ef það leiðréttist á jafnjákvæðan hátt og það var hvað þetta snertir.