Réttur vörubílstjóra til atvinnuleysisbóta

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 16:57:24 (4059)


[16:57]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Atvinnuleysisbótakerfið er að verða ónýtt. Það er verið að eyðileggja það. Atvinnuleysisskráning fer fram eftir óeðlilegum reglum. Við eigum að taka upp reglur eins og er í nágrannalöndunum. Við eigum að láta þá hafa rétt til atvinnuleysisbóta sem eru atvinnulausir. Forráðamenn Atvinnuleysistryggingasjóðs, ráðuneyti og sjóðstjórn eru að reyna að verja sjóðinn, einoka sjóðinn, útiloka en ekki að víkka heimildir. Þeir heimta það að menn gefi upp alla von, alla sjálfsbjargarviðleitni, leggi upp laupana. En það leiðir bara til ófarnaðar. Það leiðir til síaukins og viðvarandi atvinnuleysis. Síðan er náttúrlega sérmál hvernig stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs meðhöndlar fjármuni sjóðsins til styrktar fyrirtækjum sem þeir hafa velþóknun á.