Réttur vörubílstjóra til atvinnuleysisbóta

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 17:01:21 (4062)


[17:01]
     Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem hv. þm. Páll Pétursson sagði áðan að atvinnuleysisbótakerfið eins og það er er miðað við allt aðra tíma en þá sem við, því miður liggur mér við að segja, lifum um þessar mundir þegar atvinnuleysið er mælt í þúsundum manna. Það var þess vegna sem við fluttum á síðasta þingi frv. til laga um rétt þeirra sem ekki hafa atvinnu, sem m.a. gengur út á það að allir þeir sem ekki hafa vinnu en eru að leita sér að vinnu og hafa verið atvinnulausir tiltekinn tíma fái bætur. En í núverandi kerfi, þó svo það hafi verið lagað þó nokkuð í fyrra að því er varðar einyrkjana, þá eru enn þá útilokaðir t.d. námsmenn sem hafa lokið námi og eru komnir út á vinnumarkaðinn en fá ekki vinnu. Þeir komast ekki inn í þetta kerfi. Það er fjöldinn allur, sennilega mörg hundruð manna, sem eru enn þá útilokaðir og búa ekki við þau mannréttindi á Íslandi að eiga rétt á einni einustu krónu til þess að lifa og framfleyta sér á. Þetta er ólíðandi í þessu þrátt fyrir allt ríka þjóðfélagið þar sem fjöldinn allur af fólki er með tekjur upp á mörg hundruð þúsunda króna.
    Ég þakka fyrir þær góðu undirtektir sem mál mitt hefur fengið í þessum umræðum og þó að það sé væntanlega búið að loka skrifstofunum í félmrn. núna þannig að ekki hægt sé að gefa út reglugerð fyrir klukkan fimm þá skora ég á hæstv. ráðherra að gefa út nýja reglugerð um þetta mál fyrir hádegi á morgun. Það er ástæðulaust að gaufa við það mikið lengur.