Greiðslur atvinnuleysisbóta til bænda

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 17:08:03 (4065)


[17:08]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Samkvæmt upplýsingum Atvinnuleysistryggingasjóðs hafa 16 bændur sótt um atvinnuleysisbætur eftir að ný lög um atvinnuleysistryggingar tóku gildi á sl. ári. Samþykktar hafa verið greiðslur til fimm þessara bænda sem uppfyllt hafa skilyrði til að njóta atvinnuleysisbóta, þ.e. að vera hættir atvinnurekstri eða hafa tilkynnt til launagreiðendaskrár ríkisskattstjóra að búrekstri sé hætt, skilað inn virðisaukaskattsnúmeri og staðið í skilum með greiðslur tryggingagjalds síðustu 12 mánuði sem þeir störfuðu. Hafnað hefur verið umsóknum frá 11 bændum. Meginástæðan fyrir höfnuninni hefur verið sú að umsækjendur hafa ekki staðið í skilum með tryggingagjald né tekið sig út af virðisaukaskattsskrám.