Unglingaheimilið í Stóru-Gröf

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 17:25:35 (4074)


[17:25]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst, eins og hér hefur fram komið, að reynslan af starfsemi þessa heimilis hefur verið mjög góð. Ég held að það sé engum vafa undirorpið að fyrir þau börn sem þarna hafa vistast muni þau meðferðarúrræði og sú meðferð sem þarna hefur farið fram skila verulegum árangri. Enda er talið, eins og hefur komið fram í mínu máli, að meðferðin sem þessir unglingar hafa fengið dugi þannig að þeir þurfi ekki að vistast þarna lengur. Og ég held að það sé líka mjög ánægjulegt að það liggi fyrir að það eru ekki neinir biðlistar og engir unglingar með sama vandamál og þessir bíða eftir því að fá vistun á slíku heimili. Ég held að það sé mjög ánægjulegt að vita til þess.
    En hins vegar er, eins og ég sagði áðan, fullur vilji fyrir því hjá Unglingaheimili ríkisins og í félmrn. að nýta þá miklu og góðu reynslu og þekkingu sem þarna hefur fengist af þessari starfsemi. Þess vegna er verið að leita fyrir sér um áframhaldandi möguleika á meðferðarstarfi á vegum stofnunarinnar í Skagafirði. Ég veit að það er þessa dagana verið að huga að því hvar væri hægt að setja niður slíka starfsemi og með hvaða hætti hún gæti orðið. Það er verið að fjalla um það þessa dagana hjá Unglingaheimili ríkisins þannig að ég get ekki gefið nákvæma dagsetningu á því en ég vænti þess að það muni liggja fyrir á allra næstum vikum hvert framhaldið á þessu verður.