Skólaskip

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 17:49:25 (4084)


[17:49]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Herra forseti. Hv. þm. segir að það sé stefna menntmrn. að ekki verði gert út skólaskip af menntmrn. Það má alveg orða þetta svo en það hefur ekki orðið nein breyting, það hefur ekki orðið nein stefnubreyting hjá menntmrn. frá því að hv. þm. Svavar Gestsson var menntmrh. Alls engin. Skólaskip hefur ekki verið gert út af menntmrn. og það stendur ekki til að gera það. Það er ekki hægt að bera það saman, eins og hv. þm. var að gera, að menntmrn. beri ábyrgð á rekstri Stýrimannaskólans eða Háskólans á Akureyri. Hér erum við að tala um sjóvinnukennslu í grunnskólum og eins og ég rakti í svari mínu áðan þá heyrir það undir sveitarfélögin að koma fyrir þeirri aðstöðu sem þarf til þess að kennsla í hinum ýmsu valgreinum og raunar ekki bara valgreinum geti átt sér stað. Það er sem sagt engin stefnubreyting sem hefur orðið af hálfu menntmrn. í þessu máli.