Kvikmyndaeftirlit

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 17:59:28 (4088)


[17:59]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Herra forseti. Mér er alveg ljós veikur lagagrundvöllur eins og kom fram í máli mínu og ég sagði aðeins frá að við gildistöku hinna nýju laga um vernd barna og ungmenna hafi starfsemi Kvikmyndaeftirlitsins haldið áfram óbreytt og byggst á ákvæðum laga um bann við ofbeldiskvikmyndum. Mér er alveg ljóst að VI. kaflinn er fallinn brott og var ekki að draga neina dul á það.
    Ég upplýsti líka í svari mínu áðan hvað hefði gerst. Nefndin skilaði tillögum að nýju lagafrv. í árslok 1992 og þá var þáv. ráðuneytisstjóra Knúti Hallssyni falið að yfirfara þessar tillögur og ég sagði áðan að hann hefði skilað sinni álitsgerð núna í janúarmánuði sl. eða upphafi þessa árs. Og þær eru núna til athugunar í ráðuneytinu. Forstöðumaður Kvikmyndaeftirlitsins, Auður Eydal, var beðin um að tjá sig um tillögur nefndarinnar og það hefur hún gert. Ég sé ekki að það sé nein hætta á ferðum vegna einhverra hagsmunatengsla. Auður Eydal hefur af augljósum ástæðum mikla reynslu og þekkingu á þessum málum og þess vegna er fengur að því að fá hennar álit á þeim tillögum sem nú liggja fyrir í ráðuneytinu og hennar álit er ásamt tillögum nefndarinnar og álitsgerð fyrrv. ráðuneytisstjóra til athugunar í ráðuneytinu.