Veiðar á ref í friðlandinu á Hornströndum

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 18:08:23 (4091)


[18:08]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessu máli og það er eitt sem ég vildi koma á framfæri hér í þessari umræðu. Vissulega tek ég undir það sem hv. fyrirspyrjandi sagði um lífríkið þarna og hversu fallegt og skemmtilegt það er orðið og mikil náttúruparadís. En það er eitt þegar við förum að tala um að það eigi að hætta að fylgja því eftir að eyða ref á þessum stað, þá get ég nefnt það sem dæmi að í Hornbjargi hefur um margra ára skeið alltaf verið refafjölskylda, haldið þar til og ekki hefur náðst að eyða. Og þeir sem þekkja best til þarna, menn sem hafa alið allan sinn aldur og fara þarna á hverju einasta sumri segja að lífríkið í Hornbjargi þar sem alltaf hefur verið mikið um fugl hafi tekið stórkostlegum breytingum núna síðustu ár vegna þess að það hefur ekki tekist að eyða þessu refabæli. Þ.e. refurinn gengur greinilega í bjargið og eyðileggur það. Og eins hafa menn orði varir við það að mófuglinn sem er þarna í kring hafi minnkað þannig að ég held að það þurfi að skoða ýmislegt. Ég þakka hæstv. ráðherra einnig fyrir að tala um að það þurfi þá að gera úttekt á lífríkinu eins og það er áður en farið verður að breyta þeim aðgerðum sem gerðar hafa verið undanfarin ár. Þetta þarf allt að vera í samræmi.