Ráðning sjúkraþjálfara við heilsugæslustöðvar

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 18:32:01 (4102)


[18:32]
     Lára Margrét Ragnarsdóttir :

    Hæstv. forseti. Ég tel að uppbyggingarþörf heilbrigðisþjónustu í dreifbýli sé í ýmsu annars eðlis en á þéttbýlissvæðum, svo sem Stór-Reykjavíkursvæðinu vegna mismunandi aðgengis. Ég tel nauðsynlegt að íbúar í dreifbýli eigi kost á þjónustu sjúkraþjálfara á heilsugæslustöðvum jafnt í meðferðarstarfi sem í fyrirbyggjandi starfi. Hins vegar er mér ekki alveg ljóst hlutverk sjúkraþjálfara á heilsugæslustöðvum í þéttbýli. Mér er tjáð að viðkomandi aðilar í Reykjavík vísi þegar þeir meta svo til sjúkraþjálfara bæði til forvarna og meðferðar á eigin stofur sjúkraþjálfara en fjöldi þeirra starfar sjálfstætt í þéttbýli.
    Ég tel brýnt að skoða eflingu starfs sjúkraþjálfara til forvarnastarfa hjá Vinnueftirliti ríkisins og efla samstarf Vinnueftirlits og verkalýðsfélaga. Ég legg áherslu á mikilvægi starfa sjúkraþjálfara í heilbrigðisþjónustunni, jafnt í meðferðarstarfi sem í forvarnastarfi, en skoða á vel hvernig skipulagi skal háttað vegna mismunar á aðgengi þjónustunnar í dreifbýli og í þéttbýli.