Viðræður við Bandaríkin um fríverslun

89. fundur
Mánudaginn 14. febrúar 1994, kl. 18:37:54 (4105)


[18:37]
     Fyrirspyrjandi (Árni R. Árnason) :
    Virðulegi forseti. Ég ber fram fsp. til hæstv. utanrrh. sem frammi hefur legið á þskj. 558.
    Hið Evrópska efnahagssvæði hefur tekið til starfa nýlega og má segja að algjör þáttaskil hafa orðið í þeim viðræðum okkar Íslendinga og annarra Evrópuþjóða um samstarf á sviði fríverslunar og efnahagsmála. Fyrir endann sér á GATT-viðræðum sem staðið hafa um langt árabil og ná til enn þá fleiri þjóða með víðtæku samkomulagi. En einmitt í ljósi þeirra viðræðna höfðu Bandaríkjamenn áður brugðist þannig við tilmælum Íslendinga um viðræður um fríverslun, að að þeim óloknum væru þeir ekki reiðubúnir að taka upp viðræður við einstök ríki. Fyrir fáeinum mánuðum fékk ríkisstjórnin skýrslu og tillögur starfshóps sem

hún hafði skipað til að fjalla um fríverslun Íslendinga við Norður-Ameríku, Bandaríkin eða fríverslunarsamtökin NAFTA. Vegna þessa spyr ég hæstv. ráðherra hvort hann muni leita eftir viðræðum við Bandaríkin eða við fríverslunarsamtök Norður-Ameríku um fríverslun, um markaðsaðgang, samskipti og samtarf á sviði viðskipta og athafnalífs, um miðlun nýrrar tækni og þróunarstarf og fleira sem tengist frjálsum viðskiptum nú þegar sér fyrir endann á GATT-viðræðunum.