Stjórn fiskveiða

90. fundur
Þriðjudaginn 15. febrúar 1994, kl. 14:13:31 (4110)


[14:13]
     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Hér er loks komið til umræðu frv. til laga um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða sem sett voru þann 15. maí 1990. Í þeim lögum var sett fram það skilyrði að sjútvrh. væri gert að skyldu að endurskoða þá löggjöf eða beita sér fyrir endurskoðun hennar fyrir árslok 1992. Þessi lagagrein kom inn að kröfu Alþingis vegna þess að hér var mikill vilji fyrir því að þessi mál væru tekin til endurskoðunar og ekkert nema sjálfsagt um það en síðan er liðið á annað ár síðan þetta frv. átti í reynd að vera komið fram á Alþingi samkvæmt þeim lögum sem þá voru sett.
    Látum það nú vera þótt að það sé staðreynd, aðalatriðið er að sjálfsögðu efnisinnihald þess og hvernig að málinu hefur verið staðið. Ég er sammála mörgu af því sem hæstv. sjútvrh. sagði, m.a. því að nauðsynlegt sé að byggja á þeim grunni sem settur hefur verið í sambandi við sjávarútvegsstefnuna og það hefur jafnframt verið skoðun míns flokks en á síðasta flokksþingi okkar var m.a. ályktað með þessum hætti:
    ,,Fiskveiðistefnan verður að byggjast á þeim grunni sem þegar hefur verið lagður.``
    Þar var jafnframt ályktað í þessa veru:
    ,,Sú óvissa sem ríkir um fiskveiðistefnuna dregur úr hagræðingu og endurskipulagningu fyrirtækja.``
    Hæstv. sjútvrh. kom oft inn á þetta í sinni ræðu, talaði um að það væri nauðsynlegt að skapa festu og tiltrú til framtíðar og ég er sammála því en því miður ríkir verulegt óvissuástand í þessum málum í dag og mikilvægt að skera á það sem allra fyrst vegna þess að sjávarútvegurinn er okkar mikilvægasti atvinnuvegur og þaðan fáum við megnið af okkar útflutningstekjum.
    Því hefur oft verið spáð að það ætti eftir að verða mikil breyting hér á. Þær spár hafa ekki ræst og má segja að því miður hafa aðrir atvinnuvegir ekki vaxið með þeim hætti sem við höfum óskað eftir og sjávarútvegurinn því tekið við ótrúlega mikilli aukningu í verðmætasköpun í landinu.
    Það er enginn vafi um það að hluti af þeim árangri sem hefur náðst þrátt fyrir allt er upptaka aflamarkskerfisins sem hefur reynst að flestu leyti hagkvæm og skapað mun meiri verðmæti en annars hefði orðið. Ég tek jafnframt undir það sem kom fram hjá hæstv. sjútvrh. að sóknarmarkið hefur reynst illa og jafnframt það kerfi sem var að því er varðar smábáta. Þetta kerfi leiddi til allt of mikillar fjárfestingar, ónauðsynlegrar fjárfestingar sem hefði verið hægt að koma í veg fyrir ef það hefði verið samstaða um hreint aflamarkskerfi.
    Þetta varð því miður ekki raunin fyrr en lög voru sett 1990 þar sem sóknarmarkið var að mestu leyti afnumið þótt nokkrar undantekningar væru þar á.
    Þótt ég geti tekið undir margt sem er í þessu frv. þá vil ég aðeins koma að því hvernig staðið hefur verið að málinu. Það má segja að núgildandi löggjöf hafi verið sett á ábyrgð allra flokka sem setið hafa í ríkisstjórn á undanförnum 10 árum á Alþingi, þ.e. Alþfl., Alþb., Framsfl. og Sjálfstfl. Þannig að þrátt fyrir allt hafa þessir flokkar komið að málum og bera með einum eða öðrum hætti ábyrgð á því kerfi sem ríkir í dag. Því er það oft dálítið undarlegt að hlusta á umræðuna um þessi mál, sérstaklega af hálfu stjórnmálamanna vegna þess að oft er eins og margir þeir þingmenn sem ræða hvað mest um þessi mál hafi aldrei að þeim komið og gagnrýna núverandi kerfi mjög ótæpilega. Þótt ég geti tekið undir sumt af því þá get ég ekki tekið undir það að ekki skuli byggt á þeim grunni sem þegar hefur verið lagður.
    Núv. ríkisstjórn tók þá afstöðu að reyna að ná samkomulagi um þetta mál milli þeirra flokka sem standa að núv. ríkisstjórn. Það get ég út af fyrir sig skilið en ég taldi það mjög óskynsamlegt að aðrir

flokkar á Alþingi kæmu ekki að málinu og ég taldi það jafnframt óskynsamlegt að hagsmunaaðilar kæmu ekki að því í ríkari mæli en raun ber vitni. Menn hljóta því að spyrja hvar liggi fyrir afstaða hagsmunaaðila. Hvar er sú samstaða sem þó hafði ríkt um það kerfi sem nú er, t.d. meðal sjómanna? Það verður því miður að segjast eins og er að það eru litlar undirtektir í forustuliði sjómanna um þá stefnu sem nú ríkir. Það hefur eitt og annað farið úr böndum eins og oft vill verða og orðið til þess að þeir hafa að sumu leyti horfið frá þeim stuðningi sem hafði verið við málið.
    En við hljótum að spyrja sem störfum í stjórnarandstöðu á Alþingi hvort það eigi að taka þetta frv. mjög alvarlega. Stjórnarflokkarnir hafa verið að reyna að ná saman um þetta mál alveg síðan að tvíhöfða nefndin skilaði af sér og höfðu þá í því starfi reynt að ná saman eftir því sem við best vissum.
    Þegar þingi var að ljúka sl. vor þá var reynt að flytja þetta frv. en það var ekki samstaða þá um það í stjórnarflokkunum og frv. var ekki flutt. Síðan verða breytingar á ríkisstjórn og það er ekki fyrr en nú skömmu fyrir jól að næst um það samstaða að flytja þessi frumvörp á Alþingi. Við skildum það svo að stjórnarflokkarnir væru báðir bundnir af þessu máli og ætluðu að styðja það í þeim búningi sem það nú er í og var ekki að skilja að stjórnarandstaðan gæti fremur en áður haft þar mikil áhrif á.
    Nokkru síðar heldur Alþfl. flokksráðsfund og í leiðara þar sem þessum flokksráðsfundi eru gerð skil þann 2. febr. 1994 kemur fram túlkun á þeirri stefnu sem Alþfl. hefur þá mótað á þessum fundi. Þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ályktun flokksstjórnar Alþýðuflokksins um stjórnun fiskveiða er skýr og ótvíræð: Alþýðuflokkurinn hafnar þeirri spillingu og óréttlæti sem núverandi kvótakerfi býður upp á. Alþýðuflokkurinn mun berjast af öllu afli gegn því að fáir sægreifar fái að ausa endurgjaldslaust úr helstu auðlind þjóðarinnar, fiskimiðunum, og ráðskast með sameiginlega eign þjóðarinnar eins og séreign. Alþýðuflokkurinn telur nauðsynlegt að hlúð sé að vistvænum veiðum og Íslendingar séu öðrum þjóðum fordæmi í þeim efnum. Alþýðuflokkurinn er einnig þeirrar skoðunar að núverandi fyrirkomulag fiskveiða sé úrelt og tilheyri annarri þjóðfélagsgerð og öðrum tíma en við lifum á.`` --- Svo segir í lokin: ,,Alþýðuflokkurinn hefur með ályktun sinni áréttað stefnu sína í þessum málaflokki og sagt óréttlæti, spillingu og stöðnun í stjórnun fiskveiða stríð á hendur.``
    Ég spyr nú í fullri alvöru þegar hér standa tveir stjórnarflokkar að frumvarpi sem þessu og nokkrum dögum síðar kemur annar stjórnarflokkurinn saman til þess að skýra stefnu sína í þessum málum sem gengur í allt aðra átt en þetta frv., er þá hægt að taka þetta alvarlega? Er hægt að reikna með því að flokkur sem þannig ályktar ætli sér að standa að málinu hér á Alþingi?
    Það hefur að vísu komið fram hjá hæstv. viðskrh. sem hefur lýst því yfir áður, meira að segja skriflega, að hann muni enga ríkisstjórn styðja sem byggi á kvótakerfi, að flokkurinn ætli þrátt fyrir þessa ályktun að standa að þessu. Þá hlýtur það að vekja mikið vantraust meðal stjórnarandstöðunnar að hér sé á ferðinni frv. sem eigi að taka mjög alvarlega. Það er afar mikilvægt að öllum vafa sé eytt í þessu sambandi áður en málið fer til sjútvn. því við sem þar störfum viljum að sjálfsögðu vita hvort standi til að leita sátta í þessum málum og hvort sem við erum á vegum stjórnarliðsins eða stjórnarandstöðu getum haft einhver áhrif á niðurstöðu málsins. Ef þetta er orðin niðurstaða á milli stjórnarflokkanna þá er verið að segja okkur í stjórnarandstöðunni að það sé nokkuð sama hvað við segjum í málinu, það standi ekki til að taka tillit til þess.
    Ef það er hins vegar hugmyndin að opna málið þá hljótum við að spyrja: Er hugmyndin að opna það með einhverjum þeim hætti sem Alþfl. hefur verið að álykta um? Ef hugmyndin er að gera það þá er ekki mikill samkomulagsflötur í málinu, a.m.k. við þann flokk sem ég starfa innan, því þessar ályktanir eru náttúrlega ekkert annað en hreinræktaður farsi sem e.t.v. á heldur ekki að taka alvarlega. Það er kannski ekkert sem á að taka alvarlega í þessum efnum. Það er mjög merkilegt hvernig fulltrúi Alþfl. í tvíhöfða nefndinni bregst við því hann segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Umræður um sjávarútveg hafa ekki tekið mið af þessu [þ.e. hagkvæmni] og sú makalausa ályktun sem samþykkt var á flokksstjórnarfundi flokksins í dag gefur ekki miklar vonir um að Alþfl. gefi tón sem nýtist sem veganesti inn í framtíðina. Svo bregðast krosstré sem önnur tré. Hvers má þá vænta af öðrum flokkum fyrst Alþfl. bregst svona?``
    Þetta er nú dómur Péturs Bjarnasonar sem var trúnaðarmaður flokksins í tvíhöfða nefndinni að hann telur að þessi makalausa ályktun sé nánast endemis þvæla svo menn þýði þetta nú yfir á alveg skiljanlegt mál.
    Hér er því allmikil óvissa og ætla ég ekki að hafa mikið fleiri orð um það og vil þá snúa mér að efnisatriðum þessa frv. sem eru í sjálfu sér ekkert afskaplega mörg, þ.e. ef menn geta byggt á þeim grunni sem þegar hefur verið lagður og reynt að sníða verstu agnúana af þeirri löggjöf sem nú gildir og hæstv. sjútvrh. hefur sagt að það sé það sem reynt sé að gera þá eru efnisatriðin ekkert mjög mörg. Þau eru listuð skilmerkilega upp á bls. 5 í þessu frv. og vil ég þá ræða nokkuð um þau.
    Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því að reglum um endurnýjun fiskiskipa verði breytt. Það er sem sagt gerð tillaga um það að heimilt verði að hafa fiskiskip sem veiðileyfi hefur verið flutt af á innlendri skipaskrá. Og það verði jafnframt heimilt að veita tveim eða fleiri skipum veiðileyfi í stað eins sem hverfur úr flotanum.
    Nú er í sjálfu sér að mínu mati ekkert því til fyrirstöðu að veita tveimur eða fleiri skipum veiðileyfi í stað eins sem hverfur úr flotanum ef það er ekki til þess að auka afkastagetuna og ég tel það alveg koma til greina. Ég tel það hins vegar vera mikið vafamál hvort rétt sé að fiskiskip sem veiðileyfi hafa verið flutt af eða veiðiheimildir teknar að mestu leyti af séu áfram í flotanum. Eitt af því sem stuðlað hefur að mjög miklum tilfærslum á aflaheimildum er sú staðreynd að það er allmikið af skipum í flotanum með sáralitlar veiðiheimildir. Þessi skip byggja fyrst og fremst á því að geta flutt til sín afla og því hlýtur sú spurning að vakna hvort ekki sé rétt að setja einhver lágmarksskilyrði um aflaheimild skipa sem geta verið á skipaskrá. Auðvitað hefur þetta eins og annað kosti og galla en ef hugmyndin er að draga úr framsali og minnka þær tilfærslur sem hafa verið innan flotans og mikið hefur verið gagnrýnt þá er alveg ljóst að þetta að skip geti verið í útgerð með sáralitlum aflaheimildum eykur tilfærslurnar en dregur ekki úr þeim.
    Hér er lagt til að útgerðum báta sem stunda krókaveiðar verði heimilt að velja á milli veiðileyfis með aflahlutdeild eða krókaleyfis með banndögum. Jafnframt verði banndögum fjölgað nokkuð frá því sem nú er.
    Afstaða okkar framsóknarmanna á síðasta flokksþingi til þessa máls kemur fram í stuttu máli, með leyfi forseta:
    ,,Minnstu bátarnir veiði áfram samkvæmt endurbættu banndagakerfi með heildaraflahámarki.``
    Við erum ekki þeirrar skoðunar að það sé rétt að smábátaflotinn fái einn ganginn enn útdeilt til sín kvóta, það sé mikil hætta á því að það muni enn á ný upphefjast veruleg sala á þessum heimildum og þar af leiðandi sé réttast að þessi floti veiði úr einum potti með banndagakerfi þótt ég geri mér alveg grein fyrir því að auðvitað hefur þessi framkvæmd sína galla eins og allar aðrar. En það er hægt að sýna fram á mjög slæm dæmi í þessu sambandi þar sem aðilar hafa selt sínar veiðiheimildir og farið síðan yfir á krókaleyfi og hafa nú áunnið sér réttindi einn ganginn enn á sama tíma og aðrir sem völdu kvóta á sínum tíma þurfa að sætta sig við gífurlega skerðingu. Það eru dæmi þess að aðilar sem höfðu t.d. 80 tonna kvóta séu komnir niður í 24 tonn. Aðrir sem voru með jafnvel minna, seldu sín réttindi, fóru yfir á krókaleyfisbáta og ættu nú að eignast allmiklu meiri réttindi en þeir sem völdu kvótann á sínum tíma. Þessi forsaga er því miður þannig að það er ekki ástæða til að mínu mati að úthluta kvótum einu sinni enn til smábátanna heldur verði þeim stjórnað með banndagakerfi en reynt að halda afla þeirra innan einhverra tiltekinna marka.
    Þetta er að sjálfsögðu erfitt mál viðfangs því að auðvitað er það rétt að smábátarnir skipta mjög miklu máli í sambandi við byggðina í landinu. Það verður að taka tillit til þeirrar staðreyndar en þó má ekki raska algerlega jafnvæginu milli þeirra annars vegar og hinna sem völdu kvóta á sínum tíma. Ef þessu jafnvægi er algerlega raskað þá er ekki lengur friður um skiptinguna.
    Hér er lagt til að banndagar verði allt að 7 í hverjum mánuði fyrir utan aðra banndaga. Ég vil í því sambandi taka fram að þetta getur komið fremur illa við, sérstaklega þegar horft er til þess að það eru líka banndagar um verslunarmannahelgi og páska og í sumum tilvikum getur þetta hitt illa á, t.d. að því er varðar straum og veður. Í mínum huga var helgarbannið sem ríkti hér eitt sinn og var gagnrýnt af mjög mörgum á margan hátt betri útfærsla og ég er þeirrar skoðunar að margir gætu verið sáttari við slíkt bann, þ.e. um helgarnar þannig að áhættan dreifðist meira í þessu sambandi. Eins og allir vita þá er hér um mikið deilumál að ræða sem engin ein lausn er til á en ég tel rétt að ræða betur þessa banndagaútfærslu.
    Hér er lagt til að flutningur aflaheimilda frá einu fiskveiðiári til þess næsta nemi aldrei meiru en 10% af aflamarki í stað 20% samkvæmt gildandi lögum. Nú má það vel vera eins og fram kemur í greinargerð með frv. að 10% sé nægilegt miðað við þá reynslu sem verið hefur en það hefur hins vegar komið fram að ein ástæðan fyrir því hversu mikið er flutt af aflaheimildum milli skipa er að í mörgum tilvikum eru aðilar að reyna að geyma sinn rétt milli ára og fá að gera það hjá öðrum aðilum. Ef til stendur að draga úr flutningi aflaheimilda milli skipa fremur en hitt þá tel ég ekki rétt að takmarka geymsluna með þessum hætti. Það kemur hér fram að þetta verður til þess að erfitt sé að áætla veiði fyrir hvert ár fyrir sig og það er vissulega nokkuð til í því. Hins vegar vil ég benda á að nú gengur betur að veiða þorskinn sem betur fer og því líklegra að minna verði um það að aflamark verði geymt eftir þetta fiskveiðiár eins og var nokkuð um eftir síðasta fiskveiðiár.
    Hér er síðan lagt til að því verði viðhaldið að hægt verði að tvöfalda línuaflann. Það er í samræmi við okkar skoðanir í Framsfl. en hér er hins vegar gert ráð fyrir því að það verði haft á því ákveðið þak sem er skiljanlegt því að auðvitað verður hér ekki um endalausa þróun að ræða, þessi afli er tekinn frá öðrum og því eðlilegt að þarna séu sett mörk. Hvort mörkin eiga að vera með þessum hætti eða öðrum er umdeilanlegt. Ég bendi á það að auðvitað mætti hugsa sér að það væri tvöföldun fyrst í stað en síðan væri það ekki tvöföldun heldur eitthvað minna til þess að draga úr þessum réttindum.
    Síðan kemur eitt mjög stórt atriði sem hér er lagt til. Þ.e. það verði heimilt að framselja aflahlutdeild fiskiskips yfir á vinnslustöð enda sé fyrir hendi gilt vinnsluleyfi og viðkomandi aflahlutdeild sé í samræmi við vinnslu viðkomandi stöðvar á næstliðnum þremur árum. Nú er það svo, eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra, það má nefna sem dæmi að það eru margir að frysta loðnu um þessar mundir og fleiri að frysta loðnu en nokkru sinni fyrr og þykir mér ekki ólíklegt að þeim hafi fjölgað um helming þó ég hafi engar nákvæmar tölur þar um. Samkvæmt þessu ákvæði væri heimilt að flytja loðnuréttindi yfir á vinnslustöð sem hefur verið að vinna loðnu sl. þrjú ár en ekki aðrar. Þarna eins og alltaf áður koma upp álitamál en stærsta álitamálið er að sjálfsögðu hvort eigi að heimila að framselja aflaréttindi yfir á fiskvinnslustöðvar.
    Ég vil ekki fara dult með þá skoðun mína að ég hef dregið það mjög í efa og það er alveg ljóst að ef á að ganga til baka að því er varðar framsalið eins og kröfur sjómanna standa til þá liggur það fyrir að þessi breyting á lögunum gengur í þveröfuga átt, þ.e. þetta mun verða til þess að auka framsal og t.d. þá þróun sem hefur orðið varðandi veiðar með tonn á móti tonni en ekki draga úr þróuninni. Ég held því að það liggi alveg ljóst fyrir að með því að fara út á þessa braut þá mun það auka andstöðu sjómanna og jafnframt útvegsmanna en ég geri mér grein fyrir því að margir þeir sem standa að fiskvinnslu eru fylgjandi ákvæði sem þessu.
    Þarna er enn komið upp eins og ávallt kemur upp í sambandi við þetta mál þeir ríku hagsmunir sem hér eru í húfi. Auðvitað verða þjóðhagsleg markmið ávallt að ráða ferðinni en samt verður að taka tillit til þess að það verður að nást um þessi mál ásættanlegur friður þannig að hægt sé að treysta því með nokkurri vissu að leikreglurnar gildi til frambúðar.
    Þetta eru þau helstu atriði sem eru í frv. og hef ég þá ekki komið að þróunarsjóðsmálinu sem mér skilst að verði til umræðu síðar en ég vil aðeins segja í sambandi við það að það er mjög mikilvægt að því er varðar fiskveiðistjórnunina að úreldingarkerfið sé sterkt og það sé hægt að byggja upp hvata til að fækka skipum og sameina aflaheimildir. Ég vil láta þá skoðun koma fram að ég tel nauðsynlegt að Úreldingarsjóður eigi að geta keypt skip og eytt þeim en það eigi ekki eingöngu að vera í höndum útgerðarmanna sjálfra. Þannig var gengið frá þeim málum í þeim hagræðingarsjóði sem áður gilti og núverandi stjórnarflokkar ákváðu að breyta. Það var tvennt mikilvægt sem þá var niður fellt og má segja að sé það eina sem gerst hefur í þessum málum í tíð núverandi ríkisstjórnar að því er varðar breytingar á löggjöf. Það er í fyrsta lagi að ekki er lengur fyrir hendi heimild Úreldingarsjóðs til þess að kaupa upp fiskiskip og taka til sín aflaheimildirnar og láta þær aflaheimildir standa undir þeim skuldum sem þar var til stofnað og það er líka búið að taka í burtu þá heimild sem var fyrir hendi til þess að koma til aðstoðar í litlum byggðarlögum sem verða sérstaklega illa úti í sambandi við tilfærslur aflaheimilda. Á þeim tíma var talið mikilvægt að slíkt öryggiskerfi væri fyrir hendi, ekki síst til þess að reyna að skapa sem mesta sátt í þessu máli því að það lá alveg fyrr að það gat svo farið að lítil byggðarlög sem hafa kannski lítið annað en trilluútgerð gætu misst megnið af sínum veiðiheimildum og þá þyrfti að grípa til einhverra neyðarráðstafana.
    Ég er ekki talsmaður þess að það eigi að vera hægt að færa einhverjar miklar heimildir með þessum hætti til ákveðinna byggðarlaga. En ég held að það sé alveg ljóst að þegar minnstu byggðarlögin sem hvað mest eru háð sjávarafanginu verða þannig úti þá verður að vera möguleiki til þess að grípa þar inn í. Þessar heimildir hafði Hagræðingarsjóður sem voru vissulega umdeildar og ég tel eftirsjá í sambandi við þau ákvæði en þær breytingar voru gerðar í andstöðu við stjórnarandstöðuna á sínum tíma og ríkisstjórnin og talsmenn hennar gerðu mikið úr því að þar væri um algerlega aðskilið mál frá sjávarútvegsstefnunni að ræða, aðskilið frá stjórnun fiskveiða. Nú vill hins vegar svo merkilega til að þessi frumvörp eru flutt samhliða, þ.e. frv. til laga um stjórn fiskveiða og frv. til laga um Þróunarsjóð sjávarútvegsins og þar með er lögð áhersla á að það eigi að skoða þessi mál sem eina heild. Það vekur nokkra athygli að þessi nýi sjóður fær miklar heimildir. Fær heimildir til þess að taka lán að jafnvirði 4.000 millj. á þremur árum. Það hefði einhvern tíma verið kallað sjóðasukk fyrir eins og tveimur árum þegar var verið að lýsa því hvernig fráfarandi ríkisstjórn skildi við en nú heitir það eitthvað annað. Og það heitir sjálfsagt eitthvað annað þegar þarf að grípa til sérstakra ráðstafana til að hjálpa byggðarlögum á Vestfjörðum. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að slík staða getur ávallt komið upp að það þurfi að rétta þeim sérstaka hjálparhönd í okkar samfélagi sem verst verða úti og við verðum að gera ráð fyrir því að það geti gerst. Hins vegar hafa menn almennt verið með þær kenningar að slíkt ætti ekki að þekkjast, þ.e. stuðningsmenn núv. ríkisstjórnar, en ég sé að þar hefur vissulega orðið nokkur stefnubreyting sem ég ætla ekki að fara nánar inn á hér. Ég vil samt við þessa umræðu taka það fram að það er margt í sambandi við þennan Þróunarsjóð sem ég get ekki sætt mig við og ég hef ávallt haft verulegar efasemdir um að hægt verði að koma á reglum sem hægt er að styðjast við við kaup á fasteignum í sambandi við fiskvinnsluna. Þetta er vissulega göfugt markmið og góð hugsun sem þar liggur að baki, en framkvæmdaerfiðleikarnir eru mjög miklir.
    Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að hafa um þetta mikið fleiri orð en vildi fyrst og fremst spyrja hæstv. sjútvrh. um það hvaða samningar gilda um þetta mál milli stjórnarflokkanna. Hann hefur látið að því liggja að þetta væri allt saman bundið og allt væri naglfast. Þannig er það víst líka í landbúnaðarmálunum. Þar er líka allt naglfast en mér skilst að það standi nú eitthvað í mönnum og það sé verið að draga einn og einn nagla út a.m.k. til hálfs og það er vissulega sú hugsun sem býr hjá okkur sem erum í stjórnarandstöðu að þannig sé það líka að því er varðar þetta mál, þetta stóra mál sem er trúlega eitt erfiðasta pólitíska úrlausnarefnið sem er við að glíma í íslenskum stjórnmálum. Það er mjög vandasamt og það er náttúrlega grundvallaratriði í stjórnarsamstarfi í sambandi við pólitískt úrlausnarefni eins og þetta að samningar haldi og það er búið að vera að gera nýja samninga í þessu núna á hverju ári. Ef þeir gilda ekki lengur, þessir sem voru gerðir fyrir jólin, þá er ekki eðlilegt að við tökum þetta lengur alvarlega hér í stjórnarandstöðu. Það hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir hæstv. ríkisstjórn hvort hún ætti ekki að fara að viðurkenna uppgjöf sína í þessu máli og gera það hreinlega með heiðarlegum hætti. Og það sé þá alveg ljóst hvað Alþfl. er að fara því að ef þetta eru hugmyndir Alþfl. sem birtast í Alþýðublaðinu og ég hef enga ástæðu til þess að efast um þá er náttúrlega alveg ljóst að þar innan búðar ríkir einhver örvænting í málinu. Hins vegar kemur þessi stefnumörkun að sumu leyti ekki á óvart því að talsmenn Alþfl., t.d. í síðustu kosningum, töluðu með þessum hætti þó að það hafi í sjálfu sér ekki verið neitt skiljanlegra þá en það er nú. En e.t.v. veit hæstv. sjútvrh. meira um þetta og væri mjög fróðlegt að fá hans skoðanir svona einhvern tíma við þessa umræðu hvort sem það verður í dag eða á morgun því að ég býst við því að þessi umræða verði löng.