Stjórn fiskveiða

90. fundur
Þriðjudaginn 15. febrúar 1994, kl. 14:48:52 (4111)



[14:48]
     Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. 1. þm. Austurl., varaformaður Framsfl., er fullkomlega meðvitaður um að málamiðlanir í ríkisstjórn í viðkvæmum málum eru sjaldnast stefna eins flokks í stjórninni. Árétting stefnu á flokksþingum og í flokksstjórn er mikilvæg, óháð samkomulagi sem fyrir liggur á yfirstandandi stjórnartímabili. Það þekkja allir sem verið hafa stjórnarliðar.
    Ég ætla ekki að leggja mat á skrifin Alþýðublaðsins sem þingmaðurinn vísaði til en vil árétta meginatriðin sem Alþfl. setti fram í ályktun flokksstjórnarfundarins sem þingmaðurinn var að vísa til:
    ,,Flokksstjórn Alþfl. lýsir því yfir að stefna beri að gerbreytingu á fiskveiðistjórnuninni. Sem fyrsta skref telur flokksstjórnin eðlilegt að kannað verði sérstaklega hvort gefa eigi veiðar frjálsar í þá stofna þar sem ekki hefur tekist að ná tilætluðum afla.``
    Og flokksstjórnin ítrekar þá afstöðu Alþfl. sem raunar kemur fram í stefnuskrá hans að veiðigjaldi verði komið á og það virkt tæki í stjórn sóknar í fiskstofna og flokksstjórnin hafnar því að setja svokallaða krókaleyfisbáta á aflamark. Annað sem sett er fram í ályktun eru sjónarmið varðandi þá fiskveiðistjórnun sem við búum við og verður eflaust farið nánar í hana í umræðunni hér en ég hef ekki tíma til annars en árétta þessi atriði sem eru sú stefna sem Alþfl. var að árétta á sínum flokksstjórnarfundi.