Stjórn fiskveiða

90. fundur
Þriðjudaginn 15. febrúar 1994, kl. 14:56:04 (4115)


[14:56]
     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Í yfirgripsmikilli ræðu sinni flutti hv. 1. þm. Austurl. yfirlýsingu sem ég hygg að teljist til nokkurra tímamóta og varðar framtíðarskipan mála hjá smábátunum.
    Þannig er mál með vexti eins og menn vita að í núgildandi lögum er kveðið mjög skýrt á um það hvernig eigi að fara með þá smábáta sem núna eru á svokölluðu krókaleyfi. Þar er gert ráð fyrir því að ef aflahlutdeild þeirra hafi vaxið um 25% að meðaltali á þeim þremur árum sem í hönd fóru eftir að lögin tóku gildi, þá skuli þeim ákvarðaður kvóti frá og með næsta fiskveiðiári. Í yfirlýsingu hv. 1. þm. Austurl. kom fram að hann hefur nú skipt um skoðun. Hann er ekki lengur þeirrar skoðunar sem hann var á þeim tíma þegar hann var hæstv. sjútvrh. og bar ekki hvað síst ábyrgð á þeirri lagasetningu sem nú gildir varðandi m.a. smábátana. Í yfirlýsingu hv. þm. áðan kom það fram að hann er þeirrar skoðunar að smábátarnir, sem nú eru á krókaleyfi, eigi að fá að halda áfram þeim kosti eins og raunar er gert ráð fyrir með ákveðnum hætti í því frv. sem við erum hér að ræða um.
    Hins vegar fannst mér skorta á varðandi yfirlýsingu hv. þm. með hvaða hætti hann teldi að ætti að fara með vanda þeirra báta, sem hann vissulega rakti í máli sínu áðan, sem á sínum tíma völdu kvóta og hafa orðið að taka á sig sennilega hlutfallslega mestu skerðinguna af öllum bátastærðum í landinu, þ.e. þeir litlu bátar undir 6 tonnum sem völdu kvóta og hafa mjög litlar aflaheimildir í öðrum tegundum. Þess vegna tel ég nauðsynlegt vegna málsins, vegna þess að hér er um að ræða svo mikilsverða yfirlýsingu, að hv. þm. skýri þetta öllu betur.