Stjórn fiskveiða

90. fundur
Þriðjudaginn 15. febrúar 1994, kl. 15:05:05 (4119)


[15:05]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Það vekur athygli mína þegar þetta mikla mál er til umræðu i þinginu að hér skuli ekki vera mættir forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar í málinu, þ.e. þeir sem hafa samið um stefnuna. Ég sé t.d. engan ráðherra Alþfl. í salnum. Ég tel að menn hefðu átt að sýna þessari umræðu þá virðingu að vera viðstaddir og taka þátt í henni og svara fyrir þá stefnumörkun sem þessi ríkisstjórn hefur látið frá sér fara, hvort sem er að marka hana eða ekki. Það á eftir að koma í ljós í framhaldi málsins.
    Áður en þessi ríkisstjórn varð til fór fram kosningabarátta fyrir kosningar. Í þeirri kosningabaráttu var þetta umræðuefni mjög ríkjandi. Það hefur verið ágreiningur um þessi mál allt frá því að kvótakerfið var sett á og reyndar fyrir þann tíma. Kvótakerfið og þær hugmyndir sem lágu að baki því voru árangur af einhvers konar hugmyndasamkeppni innan LÍÚ ásamt nánustu aðstoðarmönnum þess hóps sem kom því til leiðar að þessu kerfi var komið á. Þeir höfðu enda kynnt sér sambærileg kerfi og hvernig þau höfðu virkað annars staðar í heiminum. Það var þeirra niðurstaða að heppilegast væri fyrir Íslendinga að taka upp kerfi eins og þetta. Og hver er aðalgrundvöllurinn undir þessu kerfi? Aðalgrundvöllurinn er að koma eignarrétti á veiðiheimildirnar í sjónum. Og ef hann má ekki kallast eignarréttur, þá verður hann a.m.k. að framkvæmast eins og eignarréttur, vera ígildi eignarréttar. Það er á þeim grunni sem þetta kerfi hvílir. En um hann hafa líka átökin verið allan tímann, akkúrat um þennan grundvöll kerfisins og auðvitað um það óréttlæti sem hefur fylgt kerfinu allan tímann. Frá því að farið var að skipta þessum verðmætum á milli aðila í útgerð í kringum landið hafa þessi átök staðið yfir.
    Eftir kosningarnar sem ég nefndi áðan kom núv. hæstv. ríkisstjórn sér saman um stefnu eða a.m.k. héldu menn það. Það var gefin út bók sem menn kölluðu hvíta bók og í þeirri hvítu bók var stefnan mörkuð og einmitt í fyrstu setningu kaflans um sjávarútveg í hvítu bókinni er tekið á þessu máli, þ.e. eignarréttinum á fiskinum í sjónum. Ég hef lesið það upp áður í þinginu og ég sé ástæðu til þess að gera það einu sinni enn vegna þess að nú er til umræðu niðurstaða ríkisstjórnarinnar af þessari hugmyndavinnu sinni í kringum stefnumörkun í sjávarútvegi. Það stendur nefnilega í fyrstu setningum kaflans um sjávarútveg í hvítbók ríkisstjórnarinnar undir fyrirsögninni: Mörkun heildstæðrar sjávarútvegsstefnu:
    ,,Ríkisstjórnin hyggst móta sjávarútvegsstefnu er nær jafnt til veiða, vinnslu og markaðsmála, hamlar gegn ofveiði, treystir byggð, stuðlar að hagræðingu og tryggir stjórnskipulega stöðu sameignarákvæðis laga um stjórn fiskveiða.``
    Svo mörg voru þau orð og áreiðanlega enginn sem getur haldið því fram að skilja beri þessa setningu öðruvísi en þannig að það eigi að koma í veg fyrir að einhvers konar eignarréttur komist á veiðiheimildir á fiskstofnana í sjónum.
    Í framhaldi af þessu var skipuð átta manna nefnd sem kölluð var síðan tvíhöfða nefndin vegna þess að það náðist ekki samstaða um að hafa einn formann í henni. Það þurfti að hafa tvo og þá var hún kölluð tvíhöfða nefnd. Hún starfaði, eins og allir vita sem hafa tekið þátt í umræðum og fylgst með þessum málum í landinu, með þeim hætti að hún vann að þessu ein og sér fyrir stjórnarflokkana, stjórnarandstaðan eða aðrir aðilar í þjóðfélaginu komu ekki að málinu fyrir en nefndin var búin að móta sínar hugmyndir. Hugmyndirnar voru síðan lagðar fram í skýrslu tvíhöfða nefndar og þá en ekki fyrr átti að fara fram samráð við aðra aðila.
    En áður en kom að því fóru fram samningaviðræður í hæstv. ríkisstjórn um þessi mál um hvernig ætti að leysa þau endanlega. Þar inn í komu m.a. hugmyndirnar um þróunarsjóð sjávarútvegsins sem enduðu með einhvers konar hrossakaupum um það að bæði málin skyldu lögð fram í þinginu. Síðan hefur verið meiri og minni ágreiningur um hvort það hafi verið samkomulag um þetta. Hæstv. umhvrh., sem er mættir í salinn, var mikið í umræðunni í vor sem leið þegar stóð til að leggja þessi mál fyrir þingið. Þá hélt hæstv. sjútvrh. því fram að það stæði ekki á neinu í samvinnu ríkisstjórnarflokkanna um þetta mál og samkomulagi öðru en því að fá hæstv. umhvrh. til þess að samþykkja þá leið sem menn ætluðu til þess að leysa mál smábátaeigendanna. ( Umhvrh.: Umhvrh. lagðist í rúmið yfir þessu máli.) Og umhvrh. lagðist víst í rúmið, hann upplýsir það hér, vegna þess hvernig þessi mál tóku á hann á þessum tíma. ( Umhvrh.: Og taka enn.)
    Seinna, rétt fyrir jólin, þegar þetta mál var loksins lagt fram, þá kom það fram hjá hæstv. umhvrh. í umræðum í þinginu að ágreiningur hans við Sjálfstfl. í málinu væri upp á 1%. Það væri um 1% ágreining að ræða. Hann hefur líklega sagt frá þessu 1% sem hann var á móti hugmyndum Sjálfstfl. um að leysa þessi mál á flokksstjórnarfundi Alþfl. um daginn. Hann hefur líklega lýst því hver munurinn var á hans hugmyndum um það hvernig ætti að leysa sjávarútvegsmálin í heild og hugmyndum sjálfstæðismanna og hæstv. sjútvrh. sem hefur lagt þessi mál á sína ábyrgð hér fram. En hann útskýrir kannski betur fyrir okkur á eftir í hverju þessi 1% ágreiningur hans er fólginn.
    Í kjölfarið á því að tillaga tvíhöfða nefndar kom fram í vor fór fram kynning á málinu og hæstv. sjútvrh. ætlaði sér að koma því inn í þingið eins og ég sagði áðan. Þá komu hagsmunaaðilar loksins að málinu og eins og hefur verið rakið áður brugðust sjómannasamtökin hart við og lýstu yfir fullri andstöðu við þær hugmyndir sem felast í þessu frv. Ég ætla ekki að fara að rekja gang þess máls hér. Það þekkja allir nógu vel hvernig það gekk fyrir sig. En ágreiningurinn við sjómannasamtökin í landinu endaði með verkfalli og endir málsins varð sá að ríkisstjórnin lét banna verkfallið með bráðabirgðalögum. En í tengslum við þessi bráðabirgðalög lofaði ríkisstjórnin, eða a.m.k. tók ég því þannig að þar hafi verið á ferðinni einhvers konar loforð, að taka á þeim vandamálum sem sjómenn hafa séð í kvótakerfinu og hafa farið fram á að væru lagfærð, þ.e. að ýmsar útgerðir hafa níðst á sjómönnum í sambandi við þeirra kjör og látið þá borga fyrir veiðiheimildir.
    Málið hefur núna tekið ákveðnum breytingum sem ég ætla aðeins að fara yfir á eftir, en áður en ég kem að því langar mig til þess að fara yfir tillögur ríkisstjórnarinnar um breytingar á lögunum um stjórn fiskveiða. Þær eru ekki miklar og í raun og veru má segja sem svo að aðaltillaga ríkisstjórnarinnar sé að festa í sessi kvótakerfið með öllum þeim göllum sem á því eru. Það eru smávægilegar lagfæringar. Sumar getum við í Alþb. skrifað upp á en aðrar ekki.
    Áður en kem að því ætla ég að fara yfir þá hugmynd sem ríkisstjórnin setti fram um að það ætti að setja upp einhvers konar kvótaþing og það ætti að vera niðurstaðan og ætti að leysa mál sjómannanna. Loforðið sem raunverulega var talið felast í því að lagfæra kjör sjómanna hefur nú þegar verið svikið með því að ríkisstjórnin hefur lýst því yfir að í staðinn fyrir að fram kæmi frv. í byrjun febrúar, eins og hæstv. utanrrh. lýsti yfir í viðtali, þá kom bréf til sjútvn. frá hæstv. sjútvrh. þar sem segir að hann telji eðlilegt að umfjöllun um áhrif viðskipta með aflaheimildir á skiptakjör sjómanna tengist umfjöllun um frv. til laga um breytingar á lögunum um stjórn fiskveiða. Hann sleit því í sundur með þessu bréfi umfjöllunina um bráðabirgðalögin og þá lausn á málinu sem var kynnt sem slík af hendi ríkisstjórnarinnar. Þetta er mjög athyglisvert og vert að minna á yfirlýsingu hæstv. sjútvrh. frá því í umræðum í apríl í fyrravor þar sem hann sagði m.a.:
    ,,Það hefur verið á það minnst hér að framan að fram hafi komið af hálfu sjómannasamtakanna gagnrýni á það að sjómenn tækju þátt í kvótakaupum og hafi verið þvingaðir til þess. Ég get tekið undir áhyggjur sjómannasamtakanna í þessu efni og tek undir þau sjónarmið þeirra að sjómenn eigi ekki að vera þátttakendur í þessum viðskiptum, enda hafa sjómannasamtökin og samtök útvegsmanna gert um það bindandi kjarasamning að svo skuli ekki vera.
    Stjórnvöld eru að sjálfsögðu alltaf reiðubúin að ræða viðfangsefni eins og þetta við sjómenn og útvegsmenn. Menn hafa velt því upp hvort menn ættu að reyna að ná betri tökum á þessu viðfangsefni með lagasetningu. Ég hef ekki fyrir mitt leyti séð að lög geti leyst þennan vanda, en þó ætla ég ekki að útiloka að svo geti verið. Ég tel þó``, sagði hæstv. ráðherra, ,,alveg augljóst að slík lagaákvæði ættu ekki heima í fiskveiðistjórnunarlöggjöf.``
    Síðan kom þetta bréf sem ég las hér áðan þar sem hæstv. ráðherra. telur að það sé akkúrat aðferðin að leysa þetta mál í tengslum við breytingar á lögunum um stjórn fiskveiða sem við erum að fjalla um.
    Breytingar á kvótakerfinu, sem hér liggja fyrir til skoðunar frá ríkisstjórninni, eru lausn allra mála og eiga uppruna sinn í tvíhöfða nefndinni, fjalla um að festa í sessi kvótakerfið. Alþb. hefur sem flokkur lýst sig andvígt því að festa kvótakerfið í sessi með þeim göllum sem á því eru. Það hefur ítrekað komið fram á fundum flokksins, bæði á síðustu tveimur landsfundum og miðstjórnarfundinum sem haldinn var í sumar að Alþb. er andvígt því að festa kvótakerfið í sessi. Þar hafa komi fram tillögur um að það væri tekið á þessu máli sameiginlega. Við bárum fram þáltill. í fyrravor þar sem var reynt til þrautar að fá víðtækari umfjöllun um þetta mál. Það var ekki hlustað á það. Stjórnarflokkarnir hafa farið sínu fram og lagt fram sínar tillögur sem eru tillögur tvíhöfða nefndarinnar, sjálfsagt í ljósi þess og skjóli þess að þeir hafa talið að þeir fengju stuðning Framsfl. þegar á ætti að herða við að festa kvótakerfið í sessi. A.m.k. gæti maður haldið eftir ræðu hæstv. sjútvrh. að það hafi verið hans von. Í Alþfl. hafa menn ekki verið alveg jafnhrifnir af þessari niðurstöðu, en þeir hafa þó látið þetta yfir sig ganga fram að þessu. Það hafa verið verkir með því í flokknum og kannski ekki að ófyrirsynju sem þetta mál var tekið fyrir á flokksstjórnarfundi um daginn og ályktað með þeim hætti sem hér kom fram áðan.
    Virðulegur forseti. Ef stjórnarflokkarnir ætla sér að ganga þessa göngu til enda með þær tillögur í farteskinu sem hér liggja fyrir og ekki koma neitt til móts við tillögur Alþb. eða annarra um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða, þá munum við auðvitað bera fram brtt. í sjútvn. og reyna að hafa áhrif á gang málsins þar. Við munum reyna að hafa áhrif í þá átt að þeirri óheillaþróun verði snúið við sem þetta fiskveiðistjórnarkerfi hefur leitt yfir okkur. Þar held ég að þurfi að koma fram frá Alþingi mjög skýr yfirlýsing um að það ígildi eignarréttar sem nú er á veiðiheimildum í sjávarútveginum verði afnumið. Ég tel að það megi gera t.d. með því að styrkja ákvæðið í 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða um eignarrétt allra landsmanna á þessari auðlind með því að setja þar inn í líka að ekki megi koma til ígildi eignarréttar eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum. Þannig að það verði ekki hægt að hártoga vilja Alþingis eins og gert hefur verið fram að þessu, þ.e. þann vilja að þessi auðlind verði áfram sameign þjóðarinnar.
    Við höfum skoðað og ég geri ráð fyrir að fram geti komið tillaga í þá áttina, sem kom til umræðu áðan, að afnema aflamark þeirra tegunda og gefa veiðar frjálsar eitthvert tiltekið tímabil, t.d. innan fiskveiðiárs, ef það sýnir sig að það ætli ekki að nást að veiða það sem stefnt hefur verið að með úthlutun veiðiheimilda í upphafi veiðitímabilsins. Ég tel að það megi gera þetta og ráðherra eigi að fá heimild til að gera það. Það mun líka draga úr þeirri einka- og eignarréttartilhneigingu sem er í kerfinu.
    Ég get tekið undir það sem kemur fram í tillögu ríkisstjórnarinnar í 1. gr. frv., sem fjallar um veiðileyfin, að rýmka möguleikana til þess að endurnýja fiskiskip. Ég held að að sé til bóta. Þetta kerfi er of niðurnjörvað. Það hefur ekki mátt fram að þessu t.d. endurnýja fiskiskip með fleiri en smærri skipum. Þótt það myndi í einhverjum tilfellum verða hagkvæmara hefur það verið bannað. Ég held að rétt sé að snúa þeirri þróun við.
    Þá kem ég að því sem hefur oft verið mest um rætt í sambandi við fiskveiðistjórnunina. Það eru litlu bátarnir. Í tillögu stjórnarflokkanna er gert ráð fyrir því að setja upp nýtt sóknarstýringarkerfi á báta undir 6 tonnum. Ég tel satt að segja að ef þetta kerfi verður sett á, þá megi menn búast við að það muni auka slysahættu hjá þessum útgerðarmönnum. Á því held ég að sé ekki nokkur einasti vafi. Þarna er á ferðinni ákvörðun um að segja mönnum að vera í landi í heila fimm mánuði á hverju ári og fyrir fram ákveðið hvaða tímar það eru. Þetta er svo mikil skerðing á möguleikum þessara aðila til þess að sækja sjó að það er í raun og veru fáránlegt að setja fram þessa hugmynd nema snúa henni hreinlega við, þ.e. að gefa mönnum heimild til að sækja sjó ákveðið marga daga á ári og leyfa þeim að velja þá daga sjálfir. Þá gætu þeir líka verið færri heldur en þarna er. En með þessari aðferð er nánast verið að segja við sjómenn: Þið eigið að róa þegar þið getið. Og það t.d. að hafa heila viku í lok hvers mánaðar sem stopptímabil hjá þessum aðilum mun virka þannig, og það er ég ekki í vafa um, að sjómenn munu róa fyrstu þrjár vikurnar eins og þeir mögulega geta, en síðan munu þeir taka út sína frídaga í lok mánaðarins. Það hafa sagt við mig fleiri en einn sjómaður sem hafa séð þessar hugmyndir að þetta muni neyða þá hreinlega til þess að sækja sjó mikið stífara en þeir hafa gert. Þeir hafi einfaldlega yfir sér að þeir eigi að vera í viku fríi í lok hvers mánaðar fyrir utan það að þeir viti fyrir fram að um fimm mánaða stopp sé að ræða á hverju ári.
    Ég tel þessa tillögu fáránlega og langeðlilegast í þeirri stöðu sem málið er núna að framlengja það dagatakmarkanakerfi sem nú er í gildi á þessum hluta flotans óbreytt. Ef það verður gert, þá mun örugglega draga verulega úr sókn þessra báta því að fjöldinn allur af þeim hefur verið að keppa eftir veiðiheimildum vegna þess að menn hafa átt von á því að það yrði úthlutað aflahlutdeild til þeirra miðað við aflareynslu liðinna ára. Þess vegna hafa þeir sótt sjóinn svona stíft. Ég veit um marga báta sem eru stærstir í þessum flokki undir 6 tonnum sem hafa verið gerðir mjög stíft út á línu t.d. yfir vetrarmánuðina þó að það hafi verið mjög óhagkvæm útgerð. Þar hafa verið á ferðinni menn sem hafa verið að reyna að safna sér upp veiðiheimildum með þessum hætti. Þessu yrði aflétt með þeirri hugmynd að framlengja kerfið óbreytt og þar með kæmist meiri ró á þessa útgerð. Ég tel það þess vegna eðlilegustu niðurstöðuna ef menn vilja ekki ganga alla leið og úthluta mönnum ákveðnum sóknardögum sem þeir geta þá valið sjálfir, eins og ég nefndi hérna áðan.

    Það er hugsanlegt að hafa þak á þessu og mætti skoða það. Þótt ég telji að á því séu ákveðnir gallar mætti auðvitað skoða þann möguleika að hver bátur hefði ekki möguleika á að fara upp fyrir eitthvert ákveðið þak í afla.
    Síðan eru vandamál þeirra báta sem ekki hafa verið í krókaleyfunum, þ.e. aflamarksbátanna innan þessa kerfis. Það er hægt að leysa þau með þeim hætti að gefa þeim kost á að koma inn í þetta, en ég geri mér grein fyrir því að á því eru veruleg vandkvæði. Það er að sumir hverjir hafa þessir aðilar selt frá sér veiðiheimildir og það yrði þá að taka alveg sérstaklega á þeim sem það hefðu gert ef ætti að hleypa þeim inn í krókaleyfisbátahópinn.
    Ég tel að það eigi líka að skoða möguleikana á því að rýmka, einfalda og gera skilvirkara það kerfi sem menn hafa verið að burðast með á undanförnum árum í sambandi við sveiflujöfnun í sjávarútveginum. Sú tillaga sem liggur fyrir í frv. í þessu efni er að vísu til verulegra bóta að mínu viti en ég tel þó að það væri eðlilegra að standa öðruvísi að þessu. Ég tel að það sé ekki endilega rétta aðferðin að halda sig við þau 12 þúsund þorskígildi sem lögð eru til í 4. gr. frv. Það er miklu eðlilegra að fyrir upphaf hvers fiskveiðiárs reyni menn að meta hvaða þörf er á sveiflujöfnun og taki frá aflaheimildir í því skyni að jafna út sveiflurnar. Það verði sem sagt metið en ekki ákveðið fyrir fram að þar séu á ferðinni einhver 12 þús. tonn heldur verði þetta metið og ákveðið síðan hvort verði hægt að bæta upp t.d. 10% skerðingu eða meiri ef hún hefur komið fram á fiskveiðiárinu á undan. Ég tel líka ástæðu til þess að velta því fyrir sér hvort eigi ekki að taka tillit til þess sem hefur gerst þar á undan, þ.e. t.d. á þremur nýliðnum fiskveiðiárum. Ég varpa því hér fram hvort ekki sé rétt að skoða möguleikana á því að miða t.d. við meðaltal síðustu þriggja ára, að menn fari ekki yfir 7% skerðingu á því tímabili til þess að menn standi ekki frammi fyrir því að 10% skerðing getur orðið ár eftir ár hjá sama útgerðarflokki og þannig skapist hörmungartímabil í ákveðnum útgerðarflokkum eins og við þekkjum reyndar núna af því kerfi sem nú er í gangi.
    Ég tel að 5. gr. frv. sé alveg til athugunar og ekkert óeðlilegt við það þó að aflamark hverrar botnfisktegundar sem má færa á milli ára verði takmarkað við 10% af aflamarki. Ég held að það eigi að vera alveg nægilegt, sérstaklega vegna þess að menn hafa líka möguleika á því að skipta á aflaheimildum og jafnvel að láta frá sér einhverjar aflaheimildir í því kerfi sem hér er til skoðunar.
    Í 6. gr. er verið að setja fram hugmyndir um að setja þak á línuaflann og miða það við 34 þús. lestir miðað við óslægðan fisk. Ég held að mönnum sé ákveðin vorkunn í þessu efni og kannski ekki óeðlilegt að skoða möguleika á því hvort þetta eigi að vera akkúrat talan. Ég skal ekki segja um það en ég hef samúð með því sjónarmiði að það þurfi að taka á þessu og ég held að það sé í lagi að menn taki jákvætt í það.
    En 7. gr. frv. get ég ekki tekið undir. Ég tel að það komi ekki til mála að úthluta aflaheimildum til fiskvinnslustöðva. Það er í grundvallaratriðum í mótsögn við það sem menn í Alþb. hafa ályktað í gegnum tíðina. Með því er verið að útfæra verslunarmöguleikana með aflaheimildirnar enn þá meira, að skilja á milli útgerðar og þess að geta átt aflaheimildir. Það er að mínu viti rangt að gera. Ég tel að það eigi raunverulega að ganga miklu lengra í því að gera þá kröfu að útgerðin í landinu veiði þann afla sem hún fær úthlutað. Ég kem betur að því hér á eftir. Ég tel ekki ástæðu til þess að ræða þetta neitt meira í sambandi við þessa grein vegna þess að ég kem að því á eftir í samhengi við annað.
    8. gr. frv. fjallar um að ekki eigi að vera hægt að flytja aflamörk milli skipa nema sem svarar veiðigetu þess skips sem fær aflaheimildina til sín. Þá spyr maður sig: Hvað eru menn að hugsa sem leggja þetta til? Af hverju þurfa menn að geta veitt þetta? Vegna þess að í næstu grein er lagt til að fiskiskip þurfi ekki að veiða nema 25% af samanlögðu aflamarki sínu til þess að halda veiðiheimildunum. Þetta er bara kák. Annaðhvort verða menn að ætlast til þess að útgerðarmenn í landinu noti veiðiheimildir sínar eða ekki. En í 7. gr., þ.e. í hugmyndinni um að láta fiskvinnslustöðvar fá þessa aflahlutdeild til sín, speglast sú hugsun að aflahlutdeildirnar eigi að vera söluvara og þær eigi ekki að binda við skip en í næsta grein á eftir koma menn með einhvers konar viðmiðun við að skipið eigi endilega að geta veitt samkvæmt þeim aflaheimildum sem fluttar eru til skipsins. En yrði þá ekki að gera ráð fyrir því að fiskvinnslustöðin gæti veitt þær aflaheimildir sem verið er að flytja til hennar?
    Mér sýnist þetta rekast hvað á annars horn og ég er mjög andvígur þeirri hugsun sem er á bak við þetta allt saman, þ.e. að ekki sé gert ráð fyrir því að hagræðing í útgerðinni felist í því að verkefnin verði hjá þeim útgerðarmönnum sem eru að veiða fiskinn á miðunum kringum landið. Það er sú hagræðing sem var kynnt í upphafi með þessum hugmyndum um stjórn fiskveiða og það er sú hagræðing sem flestir hafa örugglega skrifað upp á þegar þeir hafa verið að styðja þetta kerfi að það ætti að leiða til hagræðingar í útgerð. Það er ekki verið að leiða til hagræðingar í útgerð með þeim hætti sem hér kemur fram.
    Við höfum verið að velta fyrir okkur möguleikum á því að koma til móts við sjómenn og koma til móts við þær kröfur sem eru í þjóðfélaginu um það að breyta þessu kerfi. Það hefur verið skoðað og við höfum velt fyrir okkur hugmyndum um hvernig væri hægt að taka skref í þá átt að snúa til baka af þeirri braut sem þetta kerfi hefur verið að leiða okkur inn á. Mest hefur verið staðnæmst við þá hugmynd hjá þeim mönnum sem ég hef verið að ræða við um þessi mál að það ætti að þrengja að þeim möguleikum útgerðanna að framselja frá sér aflaheimildir og láta fiska fyrir sig og annað því um líkt. Það mætti gera t.d. með breytingu á 12. gr. laganna um stjórn fiskveiða þar sem við ættum að láta þær útgerðir sem fá aflamarki úthlutað veiða meira af því sem þær fá úthlutað en hefur verið fram að þessu. Ég tel að það væri

lágmarkið að þessar útgerðir yrðu látnar veiða t.d. til að byrja með 60% af úthlutuðu aflamarki og síðan ætti að hækka það mjög bráðlega upp í 80% og það verði yfirlýst með þessari stefnumörkun að það eigi að stefna að hagræðingu í útgerð í landinu með þeim hætti að aflaheimildirnar eigi að vera í höndum þeirra sem veiða fiskinn við strendur landsins.
    Hæstv. sjútvrh. rakti ágætlega í sinni framsöguræðu gang mála frá því að menn fóru af stað með þetta kvótakerfi. Það má margt um það segja og ég ætla ekki að eyða tíma mínum í það, en þetta hefur skapast á töluvert löngum tíma og þróast. Ég held þó að upphafið að þessu hafi verið mjög meðvitað frá hendi þeirra sem réðu mest ferðinni. Það hefur varla aðra skýringu að menn skyldu vilja í upphafi fara út í að koma á þessu frjálsa framsali veiðiheimildanna, þ.e. kaupum og sölum á því að fá að sækja sjó. Það getur varla átt aðra skýringu en menn hafi ætlað sér að koma eignarhaldi á fiskinn í sjónum vegna þess að ef menn hefðu átt að taka hina skýringuna gilda, þ.e. þetta væri bráðabirgðafyrirkomulag sem ætti að standa í 2--3 ár, eins og málið var reyndar kynnt fyrir mörgum útgerðarmönnum allt í kringum landið í upphafi, þá hefðu menn varla farið að láta sér detta það í hug að setja á svona kerfi sem byggist á því að menn hafi ígildi eignarréttar á því að sækja sjó. Þess vegna var þessi tillaga mjög undarleg á sínum tíma og ég held að það segi sína sögu um hvað menn ætluðu sér. Aftur á móti voru margir sem voru afskaplega bláeygðir í kringum þetta og hafa staðið í þeirri meiningu fram að þessu að það ætti að afnema þennan kvóta sem allra fyrst og það væri raunverulega stefnan á bak við þetta allt saman.
    Þetta ígildi eignarhalds á veiðiheimildunum er raunverulega viðfangsefnið og langt frá því að hægt sé að segja að það hafi orðið til þess að hér kæmi meiri hagkvæmni inn í útgerðina. Ég tel að það sé þveröfugt. Ég ætla að nefna tvö dæmi um hvernig þetta ígildi eignarhalds hefur áhrif á ákvarðanatöku. Það er t.d. þau þvinguðu viðbrögð sem hafa orðið við aflasamdrættinum í þorski að undanförnu. Af hverju mátti ekki deila niður réttlátlega milli útgerða í landinu því áfalli sem var vegna þorskskerðingarinnar? Hvers vegna skyldi það ekki hafa mátt? Það var af nákvæmlega einni ástæðu. Það var vegna þess að menn áttu kvótann. En ef við hefðum verið að hugsa um hagkvæmnina fyrir landsbyggðina og landið í heild hvað hefðum við þá gert? Við hefðum haldið eftir veiðiheimildum sem hefðu verið mátulega miklar til þess að deila þessu jafnt yfir alla. Þá hefðum við setið uppi --- með hvað? --- 2--3% skerðingu en ekki 10% ár eftir ár eins og við stöndum núna frammi fyrir í sambandi við þorskveiðiheimildirnar þar sem verst er á ýmsum stöðum á landinu. Það mátti ekki og nú standa menn frammi fyrir því að þær byggðir sem lifa mest á þorskveiðunum munu standa uppi kvótalausar eftir nokkrar vikur, í hæsta lagi nokkra mánuði. Þá eru menn búnir með kvótann sinn á þeim stöðum.
    Umræðan um smábátaveiðarnar er í þessari sömu nauðhyggju. Það er svo voðalegt að menn sem gera út litla báta skuli ekki vera hægt að taka með í þessar miklu skerðingar. Það er aldeilis ægilegur hlutur að ekki skuli vera hægt að ná taki á þeim og það þrátt fyrir að þessar veiðar veiti mestu atvinnuna af öllum veiðum allt í kringum landið. Samt erum endalaust að ræða um að það þurfi endilega að skerða jafnt hjá þeim sem eru að gera út þessa litlu báta og hjá hinum. Menn eru orðnir fangar þeirrar hugmyndafræði að þjóðin eigi ekki fiskinn í sjónum heldur einhverjir útgerðarmenn. Einhverjir sem eiga aflahlutdeildina eiga hlut af fiskstofninum. Það er ekkert minna. Það er meira að segja þannig að ef menn fyndu ný fiskimið, eins og hefur gerst áður hér og upp kæmu allt í einu þær skoðanir Hafrannsóknastofnunarmanna að það mætti veiða helmingi meira af einhverri tegund, hvað gerist þá? Það gerist bara það að þeir sem eiga aflahlutdeild í viðkomandi tegund fá þessa viðbót alla saman. Það skiptir engu máli hver aflareynsla viðkomandi aflahlutdeildar var í upphafi. Það skiptir engu máli. Þeir eiga bara ákveðinn hlut í fiskstofninum. Þannig eru menn nú búnir að koma þessu fyrir.
    Þetta hefur haft þau áhrif að veiðiheimildirnar hafa verið að safnast á færri og færri hendur. Það hafa verið að myndast stórútgerðir í landinu og sér ekki fyrir endann á þeirri þróun. Nýlega komu fram tölulegar upplýsingar um þetta sem segja sína sögu og benda mjög ákveðið til að þessi tilhneiging í kerfinu sé svo rík að við megum búast við því að þessar fáu og stóru útgerðir verða búnar að ná langstærstum hluta aflaheimildanna til sín eftir mjög stuttan tíma. Og hvað gerist svo í tengslum við þetta? Það gerist að menn hætta að gera út. Þeir eru ekkert að standa í því. Það er hagkvæmara að láta einhverja aðra róa fyrir sig. Það er orðið þannig núna að samkvæmt tölum sem birtust í grein í Tímanum fyrir nokkrum dögum kemur fram að árin 1992--1993 leigðu menn frá sér aflaheimildir sem svarar 60% t.d. af þorskkvótanum. Þessi aðferð er talin vera einhver mesta hagræðingin í þessu kerfi og er oftast nefnd þegar ýmsir verjendur kerfisins eru að benda á hagkvæmnina og sveigjanleikann sem á að vera aðalatriðið í þessu kerfi, það að menn geti ráðstafað aflaheimildunum að vild. En hvað hefur gerst? Það hefur gerst að fleiri og fleiri bátar eru að verða kvótalitlir og kvótalausir. Fleiri og fleiri útgerðarmenn eru að gerast leiguliðar og flotinn minnkar ekkert. Hagræðingin er ekki lengur fyrir hendi. Þetta vinnur gegn hagræðingunni sem menn hafa haft fyrir rökstuðning fram að þessu.
    Virðulegur forseti. Ég er eiginlega orðinn hálfruglaður á þessu tímatali sem við höfum fyrir framan okkur. Maður fær ævinlega tíu mínútur í einu og síðan . . .

    ( Forseti (VS) : Nei. Það er ekki rétt hjá hv. þm. Það er þannig með töfluna að hún getur ekki talið nema upp í 30 mínútur. Við höfum það því þannig að við gefum fyrst 20 mínútur og síðan aftur 20 mínútur og nú hefur hv. þm. lokið við sínar 40 mínútur sem hann hefur til umráða.)

    Virðulegi forseti. Það hefur skýrst fyrir mér að tími minn er liðinn og mér entist hann ekki til að segja allt sem ég hefði gjarnan viljað segja um þetta mál. En það koma aðrir tímar síðar og þá get ég bætt við þetta.