Stjórn fiskveiða

90. fundur
Þriðjudaginn 15. febrúar 1994, kl. 16:29:44 (4126)


[16:29]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það má helst ráða af þessu svari að hv. þm., fulltrúi Alþfl. í sjútvn., styðji frv. eins og það er hér lagt fram í öllum meginatriðum. Í öðru lagi hyggst hann ekki beita sér fyrir neinum sérstökum breytingartillögum á frv. Í þriðja lagi mun hann að sjálfsögðu skoða einhverjar tillögur sem aðrir kunna að flytja í nefndinni, það er venja í þinginu, en spurning mín var sú hvort fulltrúi Alþfl. í sjútvn. hygðist beita sér fyrir einhverjum breytingum og svarið við því kom alveg skýrt. Svo er ekki. Að vísu var undir lokin aðeins vísað í smávegis orðalagsbreytingar. En mér finnst þetta fela það alveg skýrt í sér að það hefur komið fram að fulltrúi Alþfl. sættir sig við frv. eins og það er hér flutt og hyggst ekki beita sér fyrir neinum brtt. Hitt er svo annað mál að veröldin breytist og nýir tímar koma og það er hægt að bera fram alls konar spurningar og það þekkja þeir best sem fjalla um veröldina ( Umhvrh.: Eins og hún var.) eins og hún var og verður og var fyrir þúsundum ára. Það er hins vegar ekki það sem þingið þarf að taka afstöðu til heldur þetta frv. og það er þakkarvert að hv. þm. hefur tekið af skarið með það að fulltrúi Alþfl. hyggist ekki beita sér fyrir neinum sérstökum breytingum á þessu frv.