Stjórn fiskveiða

90. fundur
Þriðjudaginn 15. febrúar 1994, kl. 16:32:53 (4128)


[16:32]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Í aðra röndina var ég undrandi á því að ríkisstjórnin skyldi hætta sér út í umræðu sem þessa nú í ólgandi iðu ósamlyndis sem brýst ekki síst fram í sjávarútvegsmálum. Þetta hefur vissulega sett sinn svip á umræðuna í dag en ég verð að segja að það er ekki annað en að sóa tíma þings og þjóðar ef það kemur í ljós á endanum að ríkisstjórnin hefur ekki meiri hluta eigin fulltrúa á bak við sig í þeim tillögum sem hún setur fram og það gerist standi menn við skoðanir sínar en sitji ekki bara í sínum stólum og fórni jafnvel hugsjónum sínum fyrir vikið. Þetta held ég að sé alveg nauðsynlegt að líta á í upphafi vegna þess að annaðhvort er hér fram undan mikil sjávarútvegsumræða á Alþingi eða mikil tímasóun sem ég vil ekki taka þátt í.
    Sjútvrh. hefur einn verið látinn sitja við þessa umræðu lengst af í dag ef litið er á ráðherrastólana. Það segir í fyrsta lagi dálítið sína sögu. Ég er ekki að gera lítið úr því að einn af ráðherrum Alþfl. hefur sést hér af og til en mér þykir þetta nokkuð einmanalegt og ég get ekki annað en látið í ljós ákveðna samúð með hæstv. sjútvrh.
    Í öðru lagi held ég að það verði ekki hjá því komist að hafa þessa umræðu í dag í ljósi þess leiðara og þeirrar ályktunar alþýðuflokksmanna og Alþýðublaðsins sem hér hefur verið vitnað til nú þegar í dag því þar eru ekki spöruð stóru orðin. Þetta er jú flokkur sem á aðild að stjórnarsamstarfi. Og jafnvel þótt eitthvað verði hér tvísagt þá get ég ekki ræðu minnar vegna annað en vitnað örlítið í leiðara Alþýðublaðsins þann 2. febr. sl. þar sem verið var að fjalla sérstaklega um ályktun flokksstjórnarfundar Alþfl. helgina á undan sem að mati leiðarahöfundar Alþýðublaðsins er gegn núverandi stefnu í stjórn fiskveiða. Með leyfi forseta ætla ég að grípa á þremur stöðum niður í þennan texta:
    ,,Ályktun flokksstjórnar Alþfl. er stríðsyfirlýsing gegn fjárhagslegri og siðferðislegri spillingu kvótakerfisins.
    Í ályktun flokksstjórnarinnar segir m.a.: Leiguliðakerfi þar sem braskað er með lífsafkomu einstaklinga og jafnvel heilla byggðarlaga tilheyrir annarri þjóðfélagsgerð en við búum við á ofanverðri 20. öldinni. Þess vegna lýsir flokksstjórn Alþfl. því yfir að stefna beri að gjörbreytingu á fiskveiðistjórnuninni. Sem fyrsta skref telur flokksstjórnin eðlilegt að kannað verði sérstaklega hvort gefa eigi veiðar frjálsar í þá stofna sem ekki hefur tekist að ná áætluðum afla.``
    Í leiðaranum segir síðan: ,,Í ályktun flokksstjórnar segir m.a. um veiðileyfagjaldið: Óþolandi er að ákveðnum hópi manna eða fyrirtækja sé úthlutuð helsta auðlind þjóðarinnar endurgjaldslaust en síðan sé þeim heimilt að ráðskast með þessa sameign allra landsmanna eins og um séreign væri að ræða.``
    Á þriðja stað í þessum leiðara eru þau ummæli sem kannski helst hafa vakið athygli manna í þessari umræðu og nauðsynlegt er að fá skýrari afstöðu til alþýðuflokksmanna en ég mun aðeins koma að því nánar á eftir að hér hafi verið misvísandi ábendingar á ferðinni:
    ,,Ályktun flokksstjórnar Alþfl. um stjórnun fiskveiða er skýr og ótvíræð: Alþfl. hafnar þeirri spillingu og óréttlæti sem núverandi kvótakerfi býður upp á. Alþfl. mun berjast af öllu afli gegn því að fáir sægreifar fái að ausa endurgjaldslaust úr helstu auðlind þjóðarinnar, fiskimiðunum, og ráðskast með sameiginlega eign þjóðarinnar eins og séreign. Alþfl. telur nauðsynlegt að hlúð sé að vistvænum veiðum og Íslendingar séu öðrum þjóðum fordæmi í þeim efnum. Alþfl. er einnig þeirrar skoðunar að núverandi fyrirkomulag fiskveiða sé úrelt og tilheyri annarri þjóðfélagsgerð og öðrum tímum en við lifum á.
    Alþfl. hefur með ályktun sinni áréttað stefnu sína í þessum málaflokki og sagt óréttlæti, spillingu og stöðnun í stjórnun fiskveiða stríð á hendur.``
    Er furða þó menn spyrji hér spurninga? Og er furða þó menn krefji alþýðuflokksmenn svara þegar málgagnið fer þessum höndum um harðorða ályktun flokksstjórnar Alþfl. og birtir hana? Hér verð ég að viðurkenna að við höfum fengið afskaplega misvísandi skilaboð og ég vona sannarlega að fleiri alþýðuflokksmenn séu tilbúnir til þess að gefa svör og það nokkuð skýrari svör en við höfum fengið um raunverulega skoðun sína og einnig um það hvort þeir séu reiðubúnir til að standa við skoðun sína því að við erum að tala um annan stjórnarflokkanna. Við hljótum að gera þessa kröfu til þess flokks sem á þó þrátt fyrir allt enn aðild að þessari ríkisstjórn að það sé á hreinu hvort hann yfir höfuð er reiðubúinn að standa við stefnu sína eður ei og í öðru lagi hvort hann sé reiðubúinn til þess að starfa í þessari stjórn því að ég sé ekki að þetta tvennt geti farið saman. Því heimtum við skýr svör.
    Það vakti vissulega athygli mína í upphafi þessarar umræðu að á meðan hv. 4. þm. Reykn., þingflokksformaður Alþfl., og hv. 1. þm. Austurl., skiptust á skoðunum um hversu alvarlega bæri að taka skrif Alþýðublaðsins um stefnu Alþfl. í sjávarútvegsmálum hélt hv. 5. þm. Austurl., fulltrúi Alþfl. í sjútvn., uppi nokkrum frammíköllum. Umræðuefnið var hvort þessi tilteknu skrif Alþýðublaðsins bæri að taka alvarlega eða ekki. Þingflokksformaður Alþfl. reyndi, hafi ég skilið hana rétt, að draga úr því að að taka ætti þessi ummæli svo ýkja alvarlega en á meðan var hv. 5. þm. Austurl. að kalla fram í og ítreka að að sjálfsögðu

bæri að taka þessi ummæli alvarlega. Það staðfesti hann að einhverju leyti í ræðu sinni en ég tek undir með þeim gagnrýniröddum sem hér hafa komið fram að vissulega hefði maðurinn mátt orða sína hugsun skýrar.
    En aftur á móti þá leyndu skoðanir hans sér ekki og það er út af fyrir sig guðsþakkarvert. Hv. þm. fann núverandi kvótakerfi, sem frv. vissulega byggir á, allt til foráttu. Ekki var það endilega til þess að vernda fiskstofnana. Það gat átt hlut í því að brjóta á sjómönnum, raska byggðum og fleira má rekja úr ræðu hans þannig að ég skil í rauninni ekki hvernig hann getur litið á að þetta kerfi sé fyrir hann, mann með hans skoðanir, eitthvað sem er hægt að setja á, ekki einu sinni fram til morguns.
    Hæstv. sjútvrh. hefur greint frá því að tillögur þríhöfða nefndar ráðuneytisstjóranna um kvótaþing eigi að vera með í umræðu sem lausn á kvótabraskinu, lausn sem mér þykir raunar alls ekki taka á vandanum. Þetta staðfesti hann í ræðu sinni áðan og í bréfi til hv. sjútvn. við afgreiðslu á bráðabirgðalögunum sem við tökum fyrir á morgun. Mig langar að spyrja hv. þm. Vilhjálm Egilsson, sem ég trúi að heyri mál mitt, mig langar að beina spurningu til hans: Er hann sammála því að lausnin um kvótaþingið taki á því kvótabraski eða sé yfir höfuð æskileg lausn sem beri að taka inn í það frv. um stjórn fiskveiða sem við erum hér með til umfjöllunar? Mig langar að spyrja hann skýrt um hans skoðun í því máli því ég gat ekki skilið hæstv. sjútvrh. öðruvísi en svo, bæði í ræðu sinni hér og eins í því bréfi sem hann sendi til sjútvn., að hann ætlaðist til að þessar tillögur yrðu teknar þar með og litið á þær sem lausn á ákveðnum vanda sem allir eru sammála um að sé fyrir hendi.
    Ég fæ ekki betur séð á þessu ósamlyndi öllu saman heldur en að ríkisstjórnin hafi í raun og veru afhent okkur óskrifað blað í stað þeirrar sjávarútvegsstefnu sem látið er í veðri vaka að hér sé til umræðu en nýtur í raun tæplega meiri hluta fylgis núverandi stjórnvalda.
    Ég bendi einnig á ákveðnar, kannski dálítið loðnar yfirlýsingar hv. formanns sjútvn. sem kemur úr röðum sjálfstæðismanna en hann hefur ýmislegt við þetta frv. að athuga þótt hann geti því miður ekki verið hér við þessa umræðu í dag og það er af ástæðum sem ekki er hægt að vefengja. En ég treysti honum til þess að láta sínar skoðanir í ljós nú sem endranær þegar þetta frv. verður til áframhaldandi umfjöllunar.
    Ég get ekki séð annað en eitt af þrennu hljóti að gerast. Í fyrsta lagi það að nýr stjórnarmeirihluti myndist í þessari umræðu og það eru auðvitað allt önnur og meiri tíðindi heldur en hér er efnt til og útheimtir ekkert minna en nýjar kosningar svo kjósendur geti tjáð sig um stöðuna.
    Ég nefni þetta hins vegar vegna þess að það er ekki hægt að neita því að aðdáendur núverandi kerfis og þeirra lausna eða þeirrar útfærslu á því kerfi, sem kynnt er í því frv. sem hér er til umfjöllunar, komi úr annars vegar öðrum stjórnarflokknum og alls ekki þó óskiptum og svo hins vegar úr einum stjórnarandstöðuflokka. En ég verð að viðurkenna að það er dálítið einkennilegt og yrði dálítið einkennilegt ef stjórnarandstæðingar væru reiðubúnir til þess að ljá ríkisstjórninni liðsinni sitt án þess að hafa verið með í ráðum við endurskoðun á sjávarútvegsstefnunni því það eitt út af fyrir sig er auðvitað alveg forkastanlegt og segir dálítið um þau óskynsamlegu og ólýðræðislegu vinnubrögð sem hér hafa verið viðhöfð. Því miður er þetta ekki eina dæmið, en kannski eitt það illskeyttasta, sem við höfum að glíma við varðandi vinnubrögð þessarar ríkisstjórnar.
    Annar möguleiki og hann útiloka ég síður en svo er sá að umræðan um þetta plagg sé sýndarmennska ein og það standi alls ekki til að hreyfa neitt við sjávarútvegsmálum þrátt fyrir að lagaskylda hafi verið að endurskoða sjávarútvegsstefnuna fyrir árslok 1992. Það er mikið vatn runnið til sjávar síðan það var og það hefur oft og iðulega verið minnt á hversu það lögbrot var áberandi alvarlegt.
    Í þriðja lagi er hægt að búast við því að hér sé verið að leggja fram frv. bara til að leggja fram frv. Það er varla tilviljun að oftar en einu sinni hefur því verið svarað til af hálfu ríkisstjórnarinnar að samkomulag hafði náðst um að leggja frv. fram og vísa ég nú bæði í hv. 1. þm. Vestf., formann sjútvn., og einnig ræðu hv. 5. þm. Austurl. hér áðan. Þetta er eitt sem menn virðast þó geta sameinast um, að um þetta sé samkomulag, enda var frv. lagt fram og það er meira að segja búið að taka það til umræðu og það er kannski meira heldur en margir áttu von á.
    Þetta eru svör sem maður fær iðulega þegar maður spyr stjórnarsinna hvort þeir styðji þetta frv., þ.e. að samkomulag hafi tekist um að leggja þetta frv. fram og það var gert. Felur þessi yfirlýsing það í sér að það sé eiginlega það eina sem sé einhugur um? Ég útiloka það hreint ekki.
    Ég er ekki að segja það að þetta frv. segi álíka mikið um stefnu stjórnarflokkanna í sjávarútvegsmálum eins og t.d. ef hæstv. sjútvrh. hefði tekið upp á því að kyrja hér ,,Kátir voru karlar`` og þingmenn hafi í raun í höndunum texta sem þeir geti mótað að vild og freistað þess að koma saman heildstæðri stefnu er lýsi vilja Alþingis í sjávarútvegsmálum í einhverri notalegri nefnd. En sé svo þá munum við kvennalistakonur að sjálfsögðu ekki láta okkar eftir liggja að leggja til nýtilegt hráefni inn í þessa vinnslu. Hins vegar er það spurningin hvað þessi vinnubrögð eiga að þýða ef þetta reynist raunin. Við getum alla vega boðið betra hráefni en aðrir að okkar mati, þ.e. þjóðarsátt í sjávarútvegsmálum sem byggist á byggðakvóta. Ég hygg að það væri hægt að ná um þessa stefnu sátt ef menn færu í einhverri alvöru að vinna að því, ef það væri virkilega vilji, ef hér væri ekki hver höndin uppi á móti annarri í alls konar leik og valdatafli og hagsmunapoti og jafnvel ákveðnu trúarbragðastríði því ég get í rauninni ekki annað en kallað sumt af því sem menn hafa freistast til þess að binda sig í hér.

    Við kvennalistakonur höfum markað okkur þessa skýru stefnu í sjávarútvegsmálum og mælt fyrir hugmyndum okkar um byggðakvóta. Á sl. ári var unnið mikið starf í sjávarútvegshópum Kvennalistans og þeir skiluðu af sér niðurstöðu miðað við stöðuna eins og hún er nú því að sjálfsögðu verður reglubundið að fjalla um þessa útfærslu þar sem ekki hefur enn tekist að koma þessu kerfi á og það er ekki hægt að gera þetta eftir þeim leikreglum sem við byggðum inn í okkar tillögur þegar við lögðum þær upphaflega fram 1987.
    Hópar þeir sem hafa fjallað um þessi mál fyrir hönd Kvennalistans skiluðu af sér niðurstöðu sem fjallað var um á landsfundi Kvennalistans í Varmahlíð í Skagafirði í byrjun nóvember og, með leyfi hæstv. forseta, þá held ég það sé bæði rétt og æskilegt að rekja þessar niðurstöður sjávarútvegshópanna þar sem sérstaklega var tekið á ýmsum álitamálum er varða þetta frv. er hér liggur fyrir. Það sem hóparnir settu sér m.a. var að skoða þetta frv. með gagnrýnum augum, sjá á hvern hátt væri hægt að nýta tillögur sem þar kæmu fram --- og ég verð að viðurkenna að það var kannski ekkert óskaplega mikið sem eftir stóð --- en við freistuðum þess jafnframt að fella saman okkar hugmyndir og þær hugmyndir sem hafa verið í umræðu, m.a. í þessu frv.
    En, með leyfi forseta, vil ég taka þetta fram frá Kvennalistanum:
    ,,Stefna Kvennalistans um byggðakvóta þar sem 80% af heildarafla verði úthlutað til byggðarlaga með hliðsjón af lönduðum afla næstliðinna ára stendur óhögguð en hún var fyrst sett fram 1987. Við útfærslu hennar þarf þó að taka tillit til þess að miklar tilfærslur hafa orðið milli byggðarlaga á undanförnum árum vegna sölu skipa. Taka þarf tillit til stöðunnar fyrir fimm árum og fyrir daga fiskveiðistjórnunar sem hófst árið 1984.
    Kvennalistinn minnir á að úthlutun veiðiheimilda skapar ekki eignarrétt samkvæmt lögum sem nú gilda.``
    Varðandi þetta vil ég taka það fram að dómur sá sem við fjölluðum um í utandagskrárumræðu undir lok nóvembermánaðar var ekki fallinn þegar þetta var skrifað enda var það í byrjun nóvember, nánar tiltekið 5. nóv. sem þessi texti var settur á blað.
    En engu að síður er ég sannfærð um að það sem á eftir kemur hér stendur enda eru allir að ganga út frá því.
    ,,Það á því að vera löglega og tæknilega mögulegt að koma á byggðakvóta. Með byggðakvóta væri rofið það samband sem í dag er á milli kvóta og skips. Þannig gengur óveiddur fiskur í sjó kaupum og sölum sem hefur kallað yfir okkur brask og spillingu hvers konar og hyglað þeim sem af einhverjum ástæðum höfðu stundað fiskveiðar á einhverjum tilteknum viðmiðunarárum. Taka þarf mið af tillögum Hafrannsóknastofnunar um leyfilegan heildarafla. Mörg fleiri atriði skipta þó sköpum við skynsamlega nýtingu fiskstofna en vegið magn upp úr sjó svo sem veiðarfæri, fjöldi skipa, veiðitími, veðurfar og lífríki í hafinu.
    Kvennalistinn vill að krókaveiðar séu áfram frjálsar og er hlynntur línutvöföldun eins og hún er framkvæmd nú. Koma þarf á virkara samstarfi sjómanna og vísindamanna um stjórn fiskveiða með það að markmiði að þeir sem vinna við sjávarútveg taki þátt í ákvarðanatöku. Auðlindir hafsins eru þjóðareign og allra hagur að nýta þær skynsamlega.
    Kvennalistinn leggur til að áður en sjútvrh. ákveður með reglugerð þann heildarafla sem veiða má á hverju fiskveiðiári þá þurfi að liggja fyrir tillögur samráðsnefndar um það efni.
    Kvennalistinn bendir á að ákvæði samráðsnefnd sjómanna og Hafrannsóknastofnunar er að finna í III. kafla núgildandi laga um stjórn fiskveiða. Skal hún fjalla um álita- og ágreiningsmál varðandi veiðileyfi, úthlutanir aflahlutdeildar og aflamark og gera tillögur um úrlausnir.
    Kvennalistinn leggur til að fulltrúar úr fleiri greinum sjávarútvegs, þar á meðal konur í fiskvinnslu, fá sæti í þeirri nefnd og að hún móti m.a. tillögur til ráðherra um verndarsvæði og heildarafla.
    Friða þarf ákveðin svæði algjörlega fyrir tilteknum gerðum skipa og veiðarfæra, sérstaklega þá staði og þann tíma sem hrygning stendur yfir.
    Kvennalistinn telur að skyndilokanir svæða í nokkrar vikur í senn hafi ekki skilað nógu miklu í uppbyggingu fiskstofna. Rannsaka þarf sérstaklega áhrif botndreginna veiðarfæra á lífríki sjávar og beina veiðum í meira mæli til skipa sem nota visthæf veiðarfæri. Kvennalistinn telur að skoða beri þann möguleika að skipta miðum upp í grunnsjávarmið og djúpsjávarmið og væru þá grunnsjávarmiðin fyrir íbúa viðkomandi svæða undir stjórn heimamanna.
    Kvennalistinn vill gera skylt að bjóða allan afla til sölu innan lands. Enn eru ónýttir möguleikar í frekari fullvinnslu sjávarafurða sem geta skapað atvinnu og útflutningstekjur.
    Kvennalistinn vill að húsnæði og búnaður frystihúsa sé nýttur til að þróa nýja framleiðslu og vinna nýjar tegundir sjávarfangs.
    Kvennalistinn vill framhald á tilraunum með lúðueldi en leggur áherslu á víðtækan undirbúning við frekara fiskeldi í framtíðinni.
    Í tillögum Kvennalistans um stjórn fiskveiða er gert ráð fyrir að 20% af heildarafla verði ráðstafað vegna sérstakra aðstæðna, selt eða leigt, og þeim tekjum m.a. varið til rannsókna tengdum sjávarútvegi eða verðlaunað fyrir sérstaka frammistöðu við nýtingu afla.
    Við teljum þó að framlög stjórnvalda þurfi einnig að koma til, sérstaklega við að þróa nýjar vinnsluaðferðir og vinnslu áður ónýttra sjávarafurða.

    Alltaf þarf að vera í gangi stöðug markaðsleit. Það er flestum fyrirtækjum ofviða að leggja mikið fjármagn í slíkt ein og sér. Samtök sjávarútvegsfyrirtækja þurfa að vera leiðandi í markaðsöflun. Víða í kringum landið eru fiskstofnar sem við höfum ekki nýtt sem skyldi. Enn er of lítið vitað um stofnstærð þeirra þrátt fyrir aukna veiði og þar þarf úr að bæta með ítarlegum rannsóknum. Íslendingar eiga að hafa forustu um að settar verði reglur um veiðar á alþjóðlegum hafsvæðum og samningum náð á milli þeirra þjóða sem nýta sameiginlega þau svæði.``
    Þannig hljóðaði niðurstaða þeirra hópa sem fjallað hafa um sjávarútvegsmál allt síðasta ár innan Kvennalistans og ég tel rétt að þetta komi fram jafnvel þótt við kvennalistakonur höfum verið óþreytandi við að tíunda okkar stefnu og ítreka að þarna höfum við sérstaklega tekið mið af þeim hugmyndum og þeim breytingum sem orðið hafa á umhverfi á undanförnum árum, bæði vegna þess að minna er til skiptanna og einnig vegna þeirrar röskunar sem orðið hefur vegna tilflutnings kvóta.
    Ég vil taka það sérstaklega fram að við höfum gert ráð fyrir því að vegna þeirra röskunar sem orðið hefur vegna kvótasölu þá verðum við að hverfa frá þeirri stöðu sem við sáum fyrir okkur þegar við lögðum fyrst fram þessar hugmyndir vegna þess að sú kvótasala og það kvótabrask sem hefur verið í gangi hefur valdið óeðlilega mikilli skekkju og ég tek undir með hv. 5. þm. Austurl. að það er einfaldlega kerfið sem hefur boðið upp á þessa röskun. Þar af leiðandi er ekki um eðlilega þróun að ræða þó í nafni hagræðingar sé heldur einfaldlega óviðunandi röskun og um það mun ég raunar fjalla lítillega seinna í ræðu minni.
    Einnig vil ég taka það fram að það er nauðsynlegt að endurskoða hlutdeild hvers byggðarlags í heildarkvóta reglubundið. Þau byggðarlög, sem eru hætt að nýta kvóta sinn sjálf að einhverju eða öllu leyti, t.d. í þrjú ár eða lengur, eru aflögufær. Því höfum við lagt til að aflaheimildir sem ekki eru nýttar í heimabyggð í þrjú ár renni í sameiginlegan sjóð til jöfnunar eða endurúthlutunar vegna þess að við gerum ráð fyrir því að við verðum að takast á við ákveðna þróun sem að sjálfsögðu mun verða.
    En kannski er stærsta markmiðið það að rjúfa samband á milli kvóta og skips og í leiðinni að koma í veg fyrir að kvóti sé söluvarningur fyrir einkaaðila sem þurfa alls ekki að taka tillit til hagsmuna heildarinnar, atvinnuástands og fólksins sem á afkomu sína undir fiskvinnslunni.
    Ég vil líka aðeins koma að þeirri samráðsnefnd sem við töluðum um og að hvaða leyti hún gæti komið inn í þær tillögur sem eru gerðar í kjölfar rannsókna. Ég tek það fram að við teljum að efla þurfi rannsóknir í hafinu mjög verulega og á auðlindum þess. Við fiskveiðstjórnun þarf að sjálfsögðu að taka fullt tillit til ábendinga vísindamanna en það þarf líka að bæta aðstöðu þeirra til rannsókna. Því miður er hún verulega léleg.
    Ég vil ítreka það að markmiðið með því samráði sem við leggjum til að verði milli Hafrannsóknastofnunar og fulltrúa úr ýmsum greinum fiskveiða og hægt er í raun að byggja upp nú þegar á grunni þeirra ákvæða laga sem ég nefndi á undan, er það að þeir sem gerst þekkja miðin komi nánar að þeirri vinnu sem fer fram þegar ákveðið er t.d. aflahámark og við kvennalistakonur teljum að það sé nauðsynlegt að koma þessum samskiptum í fastan farveg. Ef það er ekki gert þá getur í rauninni komið upp sú staða að hver vísi á annan og það sé um hreinan fjandskap að ræða eins og manni gæti stundum dottið í hug að væri á milli vísindamanna og sumra sjómanna þegar í hart fer um tillögur. Að vísu tek ég fram að á síðasta ári virtist vera sameiginlega mikill skilningur á því að það þyrfti að fara mjög gætilega og mér finnst það vissulega af hinu góða. En ef það er ekki tryggt að upplýsingastreymi sé í báðar áttir þá getur verið að mikilvæg vitneskja fari forgörðum. Mér er það fullljóst að Hafrannsóknastofnun reynir eftir mætti að hafa samráð við sjómenn en við höfum engan fastan farveg fyrir slíkt og við höfum enga tryggingu fyrir því að allar greinar sjávarútvegs komi þar að.
    Ég vil t.d. benda á það að þetta mundi auka möguleika á svæðisbundnum aðgerðum samkvæmt ábendingum sjómanna, t.d. vegna veiðarfæra eða ástands hafsbotns, hrygningarsvæða, uppeldisstöðva og þannig mætti lengi telja. Ég held að þetta sé eitt af þeim atriðum sem brýnt er að taka á og það fyrr en seinna.
    Ef að er gáð þá má í raun sjá ákveðin teikn á lofti um það að menn hallist að byggðakvóta í einhverri mynd en það er mikil feimni við að viðurkenna að þar sé á ferðinni það sem menn eru að tala um. Ég vil minna á það að sú bábilja hefur þegar verið hrakin að ekki sé hægt að binda kvóta við byggðarlag. Það var gert með ákveðnum hætti þegar Bíldudal var úthlutað veiðiheimildum úr Hagræðingarsjóði á síðasta ári, þ.e. staðnum ekki skipunum, og það var síðan fulltrúa byggðarlagsins að útvega skip til að veiða kvótann. Þetta vafðist ekki fyrir neinum.
    Í öðru lagi hefur málsvörum smábátaeigenda vaxið fiskur um hrygg og ég held að það megi fullyrða það, alla vega þykist ég með lauslegri talningu geta dregið þá ályktun að þeir séu í meiri hluta á Alþingi. Hag smábátaeigenda er áreiðanlega betur borgið með byggðakvóta en flestum öðrum aðgerðum. Byggðakvóti hefur þann augljósa kost að tengja hagsmuni byggðarlags svo sem atvinnu og veiðar saman og það hefur enginn mælt á móti því að veiðar smábáta eru verulega atvinnuskapandi í landi umfram margar aðrar veiðar.
    Í þriðja lagi hefur það komið mjög hastarlega í ljós hversu mikil óeining og óréttlæti er falið í trúarsetningu hinnar tvíhöfða nefndar --- ég ætla ekki að fara að telja einhver hlutföll, en stundum dettur mér í hug að ekki sé meira eftir en kannski kvart af þessu upphaflega tvíforskeyti en það geta aðrir dæmt um.

--- En alla vega er ég að tala um að það sé óeining og óréttlæti falið í þeirri trúarsetningu að forsenda nýtilegrar sjávarútvegsstefnu sé frjálst framsal á kvóta. Þessi trúarsetning beið eftirminnilegt og endanlegt skipbrot í sjómannaverkfallinu nú í janúar og það er einnig ljóst að málin leysast ekki með því að setja þetta frjálsa framsal upp á borðið í líki kvótaþings eða einhvers álíka. Sjútvrh. hefur mjög háðuglega vísað hugmyndum þríhöfða ráðuneytisstjóranefndarinnar um kvótaþing inn í þessa umræðu en þar er ég að vísa til bréfs til sjútvn. við afgreiðslu á bráðabirgðalögunum. Ég hef þegar lýst eftir því hvort þessar hugmyndir njóti stuðnings eður ei því ég sé ekki að það sé tilgangur með því að vísa þessum hugmyndum inn í umræðu nema gert sé ráð fyrir að eitthvað sé gert með þær en ég hef grun um að það sé ekki grundvöllur fyrir því. Það mun að sjálfsögðu koma í ljós.
    Helsta röksemdin fyrir frjálsu framsali kvóta er að með því fáist aukin hagræðing. Ég vil í fyrsta lagi benda á að það hefur verið hagrætt töluvert í sjávarútvegi á undanförnum árum og ég bendi þar m.a. á þær tölur sem hv. þm. Stefán Guðmundsson rakti hér áðan. Þar hafa ýmis önnur veigamikil atriði komið inn en tilfærsla á kvóta enda held ég að hann hafi ekki verið að gera því skóna að það væri bara vegna tilfærslu á kvóta sem þessi hagræðing hefði orðið, mér þætti alla vega undarlegt ef hann reyndi að bera það á borð fyrir okkur vegna þess að við erum líka að tala um bætta vinnslu og betri nýtingu á afla. Við erum að tala um almennar ráðstafanir í fjármálum fyrirtækjanna. Við erum að tala um skuldbreytingar og aukna hagræðingu í rekstri óháð því hvort kvóti hefur gengið kaupum og sölum vegna þess að það er einfaldlega ekki einangrað fyrirbæri, það er margt fleira að gerast. En við höfum að sjálfsögðu líka horft upp á það að í kjölfar kvótaframsals tvist og bast hafa orðið mikil slys og mikil óhagræðing. Ég spyr: Hver er hagræðing þess sem þarf að kaupa kvóta á uppsprengdu verði? Hver er hagræðing þess sem situr uppi með skuldasúpu og getur engan kvóta fengið? Hver er hagræðingin í því að stór hópur smábátaeigenda hefur orðið að gefast upp og á ekkert eftir nema skuldirnar en eignir liggja ónotaðar og lítt seljanlegar þar sem kvótinn er þegar farinn undan bátunum? Hver er hagræðingin í því að gera byggðarlag atvinnulaust þegar kvótinn siglir í annað byggðarlag?
    Það er ekki hægt að líta á sjávarútveginn sem einangrað fyrirbæri sem lifir sjálfstæðu lífi án tengsla við annað sem er að gerast í samfélaginu og það er það sem ég gagnrýni sérstaklega þegar verið er að ræða um hagræðingu því að auðvitað er hægt að setja upp töflur og skemu til að sanna mál sitt en ef menn líta á staðreyndir, ef menn líta á hvað hefur verið að gerast, þá hlýtur niðurstaðan að sjálfsögðu að verða önnur.
    Þrátt fyrir þær efasemdir sem ég lýsti í upphafi máls míns um það að líta beri á þetta frv. sem alvarlegt innlegg í umræðuna um stjórn fiskveiða þá tel ég rétt að víkja að nokkrum efnisatriðum þess sem e.t.v. munu hafa áhrif á umræðuna fram undan hvort sem hún verður um þetta frv. eða eitthvað allt, allt annað.
    Ég vík þá fyrst að 2. gr. frv. Varðandi þá svokölluðu lausn sem nú á að vera komin á milli stjórnarflokkanna um veiðar smábáta vil ég sérstaklega vekja athygli á því að smábátaeigendur telja að tillögurnar séu svo takmarkandi að þeir geti hvorki lifað né dáið með þessa niðurstöðu. Sérstaklega eru það banndagarnir sjö í lok mánaðarins sem eru þeim þyrnir í augum en önnur gagnrýni hefur einnig heyrst. En ég vil fyrst og fremst taka það fram að þarna er verið að tala um að það séu of miklar takmarkanir og það hefur raunar þegar verið rakið hér. Ég bendi á það að með byggðakvóta væri mögulegt að láta smábátum eftir ákveðin svæði og ég bendi á það t.d. að Japanir hafa tvöfalt fiskveiðistjórnunarkerfi þar sem smærri bátar eru á ákveðinni sóknarstýringu innan marka á ákveðnum grunnmiðum en síðan eru stærri bátum og stórum skipum látin eftir önnur mið fjær landi og þá á aflamarki.
    Þetta er ákveðin lausn. Þetta er ekki endilega eina lausnin en þetta er lausn sem hægt væri að ná án mikils vanda m.a. í því kerfi sem við kvennalistakonur höfum mælt fyrir og kallað byggðakvóta.
    Ég vil einnig líta aðeins á 7. gr. frv. þar sem sérstaklega er verið að tala um aflaheimildir til fiskvinnslustöðva. Vissulega er athyglisvert að sjá þessar hugmyndir viðraðar í frv. Það er viðurkenning á því að það sé ekki nauðsynlegt að binda veiðiheimildir við skip og undir það tek ég að sjálfsögðu. En ég tel að hinar flóknu og klúðurslegu útfærslur sem við sitjum uppi með í þessu frv. rýri gildi þessara tillagna svo verulega að við getum í rauninni ekki annað en spurt okkur: Hvert er verið að stefna? Ég sé það ekki og ég bendi enn og aftur á að þetta mætti auðveldlega leysa með því að umbylta kerfinu og taka upp byggðakvóta.
    Með byggðakvóta væri líka hægt að koma í veg fyrir það augljósa klúður sem núverandi kerfi hefur komið okkur í þar sem ákveðnir aðilar eru farnir að eignfæra veiðiheimildir og greiða af þeim skatt samkvæmt úrskurði dómstóla. Ég vísa þar til hinnar eftirminnilegu utandagskrárumræðu sem var hér hinn 25. nóv. sl.
    En mín niðurstaða eftir vangaveltur um þá umræðu sem nú á sér stað um stjórn fiskveiða er fyrst og fremst sú að hér séu menn að fikta við eitthvað sem þeir ráða ekki við. Og mér þykir það ansi rýr uppskera eftir þá vinnu sem ég þó sé á fylgiskjölum þessa frv. og þeirri skýrslu sem tvíhöfða nefndin lagði fram að hefur þó verið lögð í málið. Ég held að það hefði verið farsælla frá upphafi að hafa raunverulegt samráð allra flokka um málið og milli allra hagsmunaaðila og þetta sé ekki annað en sú uppskera sem búast mátti við miðað við hvernig lagt var í málið.