Stjórn fiskveiða

90. fundur
Þriðjudaginn 15. febrúar 1994, kl. 17:12:01 (4129)


[17:12]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Halldór Ásgrímsson, hv. þm. hefur breiðan væng og undir þann væng leitar aftur og aftur talsmaður Kvennalistans í sjávarútvegsmálum. Eins og svo oft áður byrjar hún sínar ræður á að tína upp mola sem hafa hrotið úr ræðum hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar. Hann hóf sína ræðu hér í dag með miklu tali um ályktun Alþfl. sem samþykkt var á síðasta flokksfundi. Látum það nú vera. Stefna hans flokks býður upp á að hann geri ágreining við þá stefnu sem þar kemur fram. Hv. þm. Anna Ólafsdóttir Björnsson sagði: Við heimtum skýr svör, og kvartaði undan því að hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson talaði ekki skýrt. En ég spyr: Hvar er skýrleiki hv. talsmanns Kvennalistans í sjávarútvegsmálum?
    Hún ræðst hér, eðlilega, gegn því sem kallað hefur verið kvótabrask og felst í misnotkun á framsali aflaheimilda. Hún er á móti því. En hún kallar það stóryrði og heimtar skýr svör hvað felist í því þegar flokksstjórn Alþfl. ályktar gegn þeirri fjárhagslegu og siðferðilegu spillingu sem felst einmitt í kvótabraskinu sem hún er á móti. Hvernig er hægt að skilja svona málflutning? Og hvernig er hægt að koma hér upp og heimta skýr svör þegar hv. þm. talar ekki skýrar sjálfur. ( AÓB: Hver er spurningin?) Ég verð líka að segja það, virðulegur forseti, að það kemur mér á óvart þegar hv. þm. les hér upp úr leiðara Alþýðublaðsins, sem er eins og allir vita afskaplega gott blað. (Gripið fram í.) Já, ég er í andsvari, hv. þm. --- og kvartar undan því að Alþfl. árétti sína stefnu um veiðigjald. En það vill svo til að það er annar flokkur sem líka vill veiðigjald. Ég veit ekki betur en að það sé enn þá staðfest samþykkt Kvennalistans, það sé staðfest stefnuskrá Kvennalistans að fimmtungur veiðiheimilda renni í sérstakan sjóð sem verði seldur. Er það ekki veiðigjald? Ég spyr. Ég skil ekki svona.
    Athugasemd mín, virðulegi forseti og hv. þm. Anna Ólafsdóttir Björnsson, er sú að mér finnst afskaplega skrýtið þegar einn þingmaður kemur hér og ræðst á stefnu annars flokks sem svo vill til að er líka að finna í stefnu eigin flokks þingmannsins.