Stjórn fiskveiða

90. fundur
Þriðjudaginn 15. febrúar 1994, kl. 18:01:10 (4137)


[18:01]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég er alveg fullviss um að það eru önnur atriði sem valda því að staðan hefur ekki orðið verri en hún er. Ég vil ekki þakka það því eðli kvótakerfisins að þar er um hömlulaust framsal að ræða eða hefur verið í reynd, og sumir vilja jafnvel enn meira hömluleysi, heldur þvert á móti þakka ég þeim aðgerðum sem fyrirtæki hafa gripið til þar sem það hefur tekist. En ég vil taka það fram að í svari sem Guðrún Helgadóttir fékk við fyrirspurn sinni um tjón hins opinbera vegna gjaldþrota á árunum 1990, 1991 og 1992 kemur fram að tjónið var rúmlega 2 milljarðar árið 1990, 5,5 milljarðar árið 1991 og 7 milljarðar árið 1992. Þetta er fyrst og fremst tjón vegna gjaldþrota fyrirtækja og töluvert af þessum fyrirtækjum hafa farið illa í sjávarútvegi og ég held að það sé útilokað annað en fara eftir þeim dæmum sem við vitum um. Í sumum tilvikum er einmitt það kvótaframsal sem hefur verið í gangi sem hefur farið illa með þessi fyrirtæki. Frá þessu hverf ég ekki. Enda held ég að ef menn rekja bara einstök dæmi þá geti þeir mjög vel komist að þessari niðurstöðu þó fleira spili að sjálfsögðu inn í.