Stjórn fiskveiða

90. fundur
Þriðjudaginn 15. febrúar 1994, kl. 18:56:11 (4145)


[18:56]
     Árni R. Árnason :
    Virðulegi forseti. Það fer ekki á milli mála að það frv. sem hér liggur fyrir ásamt því sem síðar er á dagskrá þessa fundar taka á þeim viðfangsefnum sem einna mestu skipta fyrir efnahag og afkomu okkar þjóðarbús og ráða mestu um efnalega afkomu fólks og fyrirtækja í velflestum byggðarlögum landsins auk þess að vera algjör undirstaða lífsafkomu í sjávarbyggðum allan hringinn með sjávarsíðunni. Í ljósi þess hversu mikilvægt það er hlýt ég að taka fram, eins og ég hef raunar oft gert áður í umræðum um þennan málaflokk, að ég hef vissar efasemdir um stjórn á atvinnu í stórum atvinnuvegi af þessu tagi með lögboði eins og við hins vegar höfum neyðst til að hafa í sjávarútvegi og í landbúnaði sem eru okkar fjölmennustu atvinnuvegir.
    Það liggur hins vegar fyrir að ástand fiskstofnanna er með þeim hætti að við getum vart brugðið á annað betra ráð. Hins vegar hefur ekki tekist þrátt fyrir hálfan annan áratug fiskveiðistjórnar að byggja þá upp svo nokkru nemi. Enn þá eru þeir mjög slakir og enn er fjárfesting og afkastageta fiskveiðiflotans í minnstu samræmi við afrakstursgetu fiskstofnanna. Á sama tíma hefur okkur lítt fleygt fram í athugunum á áhrifum hinna ýmsu veiðarfæra á mið, á fiskislóðir, á hrygningarsvæði, á uppvaxtarstöðvar þeirra fiskstofna sem við höfum helst lífsafkomu af. Þó vitum við nokkurn veginn, virðulegi forseti, að þær þrjár tegundir veiðarfæra sem helstar eru hafa misjöfn áhrif og við veiðarnar sjálfar veita þær misjafnt álag. Þannig liggur fyrir að krókaveiðar og línuveiðar eru ekki til þess fallnar að velja fisk. Togveiðarfæri eru það ekki að fullu leyti. En með þeim breytingum sem orðið hafa á netaveiði gegnum áratugina, sérstaklega síðustu 15 ár, hafa netin einna lengst komist í að velja fisk við veiðina. Hins vegar er engin ástæða til þess að ætla að þau séu miklu betri en áður ef menn missa af þeim á veiðislóð.
    Þegar við lítum til baka þá liggur fyrir að þegar leið á áttunda áratuginn var ljóst að útfærsla lögsögunnar og brotthvarf erlends togaraflota af heimamiðum okkar dugði engan veginn til að sporna við ofveiði. Hún var orðin af okkar eigin sökum. Allt síðan eða um hálfan annan áratug höfum við reynt að ná stjórn á veiðum innan lögsögunnar með tilliti til þess sem á hverjum tíma hefur fram komið um afrakstursgetu stofnanna og miðanna. Hvert stjórnkerfið hefur tekið við af öðru, banndagar, skrapdagakerfi, sóknarmark, blanda sóknarmarks og aflamarks og nú síðast aflamarkskerfi með sérstökum frávikum vegna línuveiða og krókaveiðibáta.
    Ekki tel ég eftir mínum upplýsingum leika vafa á nauðsyn þess að stjórna veiðum okkar. Til þess eru upplýsingar fræðimanna, niðurstöður rannsóknastofnana og sjálf veiðireynslan einfaldlega of sammála, sammála vísbendingum um ástand fiskstofnanna og miklu meiri afkastagetu fiskiskipaflotans. Allt frá því að við brugðum á það ráð hafa stjórnkerfi okkar á hinn bóginn verið svifaseinni en ætlað var, þ.e. ekki nægjanlega skilvirk til að ná fram þeim takmörkunum eða þeim samdrætti sem annars vegar ráðgjöf og hins vegar fyrirætlan stjórnvalda hafa staðið til hverju sinni. Stjórnvöld hafa í ákvörðunum um sókn eða síðar ákvörðunum um afla oftast farið fram úr því sem ráðlagt var og raunverulegar veiðar hafa síðan einatt farið fram úr heimildum stjórnvalda. Mér virðist auðsýnt að þar muni miklu meiru en afla smábátanna eins og þeir eru nú taldir alvarlegur hlutur í sjósókn okkar.
    Þessi reynsla okkar sýnir á einn hátt fram á að löggjöf og stjórnvaldsákvarðanir um sjósókn og fiskveiðar ganga gegn þeirri mannlegu viðleitni sem best hefur gefist við veiðar, tilhneigingu veiðimennskunnar. Það liggur fyrir að það er framtak veiðimanna sem hefur um allan aldur komið okkur áfram við fiskveiðar á Íslandi. Meira að segja meðan fiskveiðar voru aukabúgrein bænda til sveita var það samt sem áður veiðimennskan sem dró þá ásamt mannafla til verstöðvanna. Það er ekki fyrr en á síðustu árum sem við höfum orðið þess varir, já, erum þess varir að miðin gefa ekki af sér nóg handa okkur öllum, a.m.k. ekki eins mikið og við öll mundum vilja hafa.
    Að sjálfsögðu er þá rétt að taka upp aðra hætti og það má vera að okkur takist í framtíðinni að ganga um fiskimiðin, um auðlindir lögsögunnar og heimamiðanna allra, segjum kannski sem hjarðmenn, kannski sem ræktunarmenn og nýta þau sem iðnaðarmenn. En það verður að segjast að frá öllu þessu erum við enn langan veg. Fiskvinnsla okkar er enn þá frumvinnsla hráefnis að mestu leyti og veiðarnar eru enn þá undir merkjum veiðimennskunnar, ekki hjarðmennskunnar né heldur ræktunarinnar og uppskerunnar. Enda

hefur alla tíð verið deilt um setningu og framkvæmd laga um stjórn fiskveiða því það hefur komið við þær taugarnar sem við Íslendingar höfum talið sterkastar í okkur sjálfum, taugarnar til sjávarins, til sjóróðra og fiskveiða.
    Hverju sinni sem þurft hefur að skerða aflaheimildir hafa eðlilega komið upp deilur og ágreiningsefni. Og hverju sinni sem lög um stjórn fiskveiða hafa komið til umfjöllunar hafa risið mikil og djúpstæð átök. Fyrir nærfellt tveimur árum var á lokastigi endurskoðun þeirra laga sem nú er rætt um breytingar á og niðurstöður þess starfs að svo miklu leyti sem um þær varð almenn opinber umræða urðu enn sem fyrr afar umdeildar sem okkur er öllum í fersku minni. Helsta niðurstaða af starfi tvíhöfða nefndarinnar var í megindráttum sú að festa skyldi í sessi aflamarkskerfið með frjálsum framsalsrétti og bæta úr nokkrum ágöllum með breytingum á lögunum.
    Sjómannadeilan sem við höfum nýlega rætt snerist mjög um framkvæmd og túlkun nokkurra ákvæða í þessum lögum og hins vegar um deiluefni sem ekki verða leyst nema í löggjöf til að tryggja hlut sjómanna eða taka af vafa um réttarstöðu þeirra. Við þær umræður lét ég í ljós þá skoðun að til álita þyrftu að koma nokkur ákvæði þessara laga. Og án þess að endurtaka það sem ég þá sagði segi ég nú að ég er enn þeirrar skoðunar að þau þurfi athugunar við. Við getum vart fram hjá þeim gengið án athugunar.
    Ég hef gert grein fyrir þeirri skoðun minni á öðrum vettvangi að málefni smábátanna þurfi úrlausnar við. Mér sýnist miðað við lögin sem nú eru í gildi og frv. sem fyrir liggur að krókabátar eigi að taka mestri skerðingu að þessu sinni, a.m.k. að svo miklu leyti sem hún er ákveðin í lögunum sjálfum. Mér sýnist að í núgildandi lögum og í hinum fyrri hafi ein helsta glufan verið rúmar heimildir smábáta og síðan krókabáta, rýmri en annarra. Ég sé ekki sanngirni í því þegar við nú viljum lagfæra eða stoppa í þessi göt, að ganga þá svo langt að þær lagfæringar eigi á einu tímabili að bæta allan þann mismun sem segja má að hafi safnast upp á einhverjum árum. Ég held að við þingmenn verðum að vera menn til að taka afleiðingum gerða okkar. Hér eru afleiðingar af lagasetningu, ekki af því hvernig smábátamenn stunda veiðar sínar. Það var nokkuð vitað hvernig svo mundi fram fara. Veiðimunstur þeirra hefur ekki breyst svo gífurlega á fáum árum. Ég tel að Alþingi á þeim tíma hafi einfaldlega viljað gefa mönnum þessar glufur, enda var þá af mörgum um rætt, þingmönnum og öðrum, að þar væri tækifærið fyrir nýliða í sjávarútvegi á Íslandi að hasla sér völl, fyrst með smábát og síðan koll af kolli upp til stærri skipa. Mér sýnist eðlilegra að hverju sinni sem við náum að stoppa í slík göt á sokkunum gerum við það þannig að skerðingar verði jafnar eða sambærilegar frá gildistíma lagfæringar.
    Ég get jafnað því saman við umræður sem hér hafa orðið fyrr og eiga sér stað á fleiri þingum og í fleiri stofnunum sem fara með framkvæmd laga, ég get jafnað því við þær hugmyndir að skattleggja með ákvörðunum löngu eftir að tekjur urðu til. Mér sýnist hins vegar líkt og ýmsum öðrum að það eigi betur við að smábátarnir búi við sóknardagakerfi, ég segi sóknardagakerfi, fremur en aflamark. Sóknardögum gæti þá fjölgað eða fækkað eftir því sem gert er ráð fyrir í hámarksheildarafla. En þess tel ég að við verðum að gæta að þegar við bönnum mönnum beinlínis að stunda vinnu sína um tiltekinn tíma, þá hljóti þeir í þess stað bætur. Og ég tel einu skipta hver staða hvers manns er á bátnum, hvort hann telst háseti, stýrimaður eða útgerðarmaður. Þegar hann hefur að engu öðru að hverfa, þá hlýtur honum að bera réttur til atvinnuleysisbóta og staða hans í skipsrúmi á ekki að varða réttinn til bótanna.
    Í annan stað álít ég það til ávinnings fyrir okkar heildarhagsmuni í sjávarútvegi að smábátar fái úthlutun í samræmi við sóknarreynslu og mætti þá hverfa ótti manna við hina miklu efnahagslegu vá af ónotaðri sóknargetu þeirra í dag. Einnig tel ég réttmætt að þeir fái viðlíka möguleika og aðrir í sjávarútvegi til að leita aukinnar hagkvæmni með vali um nýtingu sóknardaga, t.d. gagnvart veiðum utan kvóta eða með framsalsrétti milli báta í sama stærðarflokki. Menn hafa sagt sem svo að til slíkra viðskipta þurfi þeir aflamark. Ég hef þó ekki enn heyrt þau rök sem sýna fram á að svo verði að vera, aðeins staðhæfinguna eina. Má vera að menn geti sannfært mig um þetta og ég er tilbúinn að heyra umræðu um það eins og önnur atriði þessa máls.
    Virðulegi forseti. Ég sé engin merki þess að unnt sé að draga úr stjórn fiskveiða með lagaboði. Helstu fiskstofnar okkar þola ekki veiðar að því marki sem flotinn hefur afköst til. Með sanni má segja að með upptöku aflamarkskerfisins á sínum tíma hafi ekki lengur verið unnt að snúa til baka. Fyrir því standa efnahagsleg rök fremur en fiskifræðileg. Sá kostur er á aflamarkskerfinu að það er virkara heildarstjórntæki en önnur sem við höfum reynt og er auk þess skilvirkara gagnvart efnahagslegum áhrifaöflum framboðs og eftirspurnar í greininni á þeim mörkuðum sem hún starfar með hráefni eða afurðir, ég tala nú ekki um gagnvart heildartækifærum til sóknar eða afla. Það hefur hins vegar ekki enn frekar en hin fyrri kerfi náð þeim árangri eða þeim markmiðum sem sett voru að tryggja uppbyggingu fiskstofnanna í hámarksafrakstursgetu né heldur að tryggja fjárfestingu í afkastagetu fiskveiðiflota í samræmi við afrakstursgetu heimamiðanna. Hvorugu markmiði hefur enn verið náð.
    Segja má þó miðað við upplýsingar síðustu ára um ástand fiskstofnanna á heimamiðum að hvað það varðar séum við að nálgast markið í fyrsta sinn frá því við hófum stjórn á fiskveiðum, en hitt markið nálgumst við ekki enn sem komið er. Fjárfesting og afkastageta flotans er enn að aukast, en ég tel að við verðum að hafa þolinmæði til að líta til baka og sennilega er hinum fyrri stjórnkerfum um að kenna. Bæði skrapdagakerfið og sóknarmarkskerfið voru þeim annmarka brennd að þau höfðu engin áhrif til hagræðingar, meira að segja til umframfjárfestingar. Þessi ágalli þeirra er þekktur. Við fengum þá reynslu mjög

skilmerkilega á sínum tíma.
    Á hinn bóginn verður líka að gæta þess að á sama tímabili og við höfum nálgast fyrrnefnda markmiðið, uppbyggingu stofnanna, eða þeir virðast vera að hjarna við, höfum við meira en nokkru sinni fyrr beitt öðrum aðgerðum jafnhliða almennri fiskveiðistjórn, þ.e. með svæðisbundinni og tímabundinni friðun á hrygningarsvæðum og uppvaxtarsvæðum en nokkru sinni fyrr. Ég spyr því sjálfan mig stundum hvoru ávinningurinn er að þakka, aukinni friðun eða betri lögum um stjórnkerfi fiskveiða. Sennilega þarf hvort tveggja til og ef svo er, þá erum við sjáanlega á réttri leið.
    Oft er um það rætt að núgildandi stjórnkerfi fiskveiða, sem ætlunin er að festa í sessi með þessu frv., sé stjórntæki í þágu hagsmuna fiskveiðanna og fiskvinnslunnar allrar í heild. Ég hef alltaf átt erfitt með að átta mig á þessu því mér sýnist sjáanlegt, að minnsta kosti að mínum skilningi, að þetta stjórnkerfi og sennilega öll stjórnkerfi í fiskveiðum séu fyrst og fremst ætluð hagsmunum fiskveiðanna. Fiskvinnslan er að stórum hluta önnur atvinnugrein í eigu óskyldra aðila og er háð viðskiptum og stundum samkeppni við þá sem eiga heimildirnar til að veiða. Þannig að þar fara hagsmunir alls ekki alltaf saman.
    Ég tel að aflaheimildir verði alltaf nýttar í ljósi hagsmuna þeirra sem eiga og hagsmunir hinna sem ekki eiga en verða að kaupa, verði öðrum lögmálum háðir. Þeir verði einfaldlega á hinum enda spýtunnar og það held ég að við sjáum í raun í dag í ýmsum myndum. Það er ágalli stjórnkerfisins. Ég er ekki enn viss um hvort við komumst fram hjá þeim ágalla. Við vitum að samkeppni og viðskipti af þessu tagi eiga sér alltaf stað og ég held að það sé rétt niðurstaða sumra okkar í umræðunni að samkeppnin verður að vera til, hún verður að vera virk. Annað mun ekki knýja mann til aukinnar hagkvæmni í rekstri sínum. Ef við höfum nóg þá erum við hins vegar vís til að fara illa með. Þetta er reynsla okkar úr sjávarútvegi, þetta er líka reynsla okkar úr landbúnaði.
    Mér þykir miklu skipta, virðulegi forseti, að með afgreiðslu þessa máls náum við að jafna helstu ágreiningsefni aðila sjómannadeilunnar, a.m.k. sem varðar þau atriði hennar sem aðeins verður úr skorið með lögum eða ákvæðum laga. Í því ljósi árétta ég enn á ný það sem ég hef áður sagt um það mál. Mér þykir líka miklu skipta að þeim sem stunda fiskveiðar á Íslandi verði búnir sambærilegir möguleikar til hagræðingar. Að sambærilegum kvöðum þeirra fylgi sambærileg réttindi, þar á meðal rétturinn til að leita betri afkomu við sömu stjórn.
    Ég tel fullvíst að við höfum með aflamarkskerfinu ratað á stjórnkerfi fiskveiða sem mun standa til nokkurrar frambúðar. Að því leyti til tel ég að aðilar í sjávarútvegi geti horft fram á veginn með vissu um nokkur meginatriði. Hins vegar er mér líka ljóst, og það tel ég að hafi komið fram í þessari umræðu og raunar fyrr í umræðum hv. Alþingis, að á því eru enn nokkrir agnúar sem þarf að sníða af. Hins vegar er það nú svo með þetta eins og fleiri mannanna verk að þegar þeir agnúar verða af sniðnir munu væntanlega aðrir koma í ljós. Það hefur komið fram til að mynda innan hv. sjútvn. að í dag eru stunduð viðskipti með aflaheimildir sem menn sáu ekki fyrir þegar lögin voru sett. Sumt af því eru menn ekki fyllilega sáttir við.
    Ég fyrir mitt leyti hlýt að segja það að lokum að þó ég sé sammála frjálsum rétti til framsals á aflaheimildum eins og öðrum verðmætum og taki undir að það sé eitt af meginatriðum þessara laga til að ná þeim árangri sem við stefnum að, þá tel ég ekki rétt að menn geti átt slík verðmæti, sem eru atvinnuréttindi en ekki verðbréf, og stundað hreina leigustarfsemi. Og ég geri greinarmun á því að verða að láta frá sér slíkar heimildir af tímabundnum ástæðum og því að stunda leigustarfsemina ár eftir ár, sem ég kalla til langframa.
    Virðulegi forseti. Ég læt máli mínu lokið að sinni en vænti þess að umræðan megi halda áfram og við heyra álit og skoðanir hvers annars.