Stjórn fiskveiða

90. fundur
Þriðjudaginn 15. febrúar 1994, kl. 19:14:12 (4146)


[19:14]
     Gísli S. Einarsson :
    Virðulegur forseti. Þessi umræða sem nú er á dagskrá er um fjöregg þjóðarinnar. Um það eru allir sammála sem hér hafa talað í dag. Þessi umræða er um afkomumöguleika okkar allra. Þessi umræða er um framtíð og tilvist fólksins sem hér býr og mun búa í framtíð.
    Fiskimiðin við Ísland eru einhver þau gjöfulustu í heimi. Þau eru meginauðlind landsins og sameign þjóðarinnar allrar. Með harðfylgni og hátækni hefur íslenskri sjómannastétt og fiskvinnslufólki tekist að nýta auðlindir sjávar og gera úr þeim mikil verðmæti. Starf þessa fólks hefur gert sjávarútveginn að kjölfestu í framfarasókn Íslendinga á þessari öld. Sjávarútvegurinn er og verður áfram undirstöðuatvinnugrein hér á landi og um langa framtíð. Fiskimiðin eru takmörkuð en endurnýjanleg auðlind. Því er forsenda skynsamlegrar nýtingar fiskstofnanna að virt séu líffræðileg takmörk auðlindarinnar. Vöxtur og tæknivæðing fiskiflotans hefur á hinn bóginn aukið svo sóknargetu hans að hætta er á ofnýtingu fiskimiðanna.
    Vegna mikilvægis sjávarútvegsins fyrir þjóðarbúið, samfara hættu á ofnýtingu á fiskstofnunum, er þjóðinni lífsnauðsyn að ráðgjöf um nýtingu sé byggð á sem bestum og traustustum þekkingargrunni. Því er afar brýnt að stundaðar séu öflugar rannsóknir á öllu vistkerfi sjávarins samhliða hagrænu mati á skynsamlegri auðlindanýtingu. Það þarf að kanna samspil tegundanna í sjónum. Það er mikilvægt að uppeldis- og hrygningarstöðvum helstu nytjastofna sé hlíft við sókn. Það þarf að auka vitneskju um vannýttar eða

óveiddar tegundir, bæði hvað varðar hinn fiskifræðilega þátt sem og vinnslu og markaðssetningu.
    Þótt sjávarútvegurinn hafi á síðustu 20 árum notið ávinnings af útfærslu landhelginnar og fiskverð á erlendum mörkuðum hafi yfirleitt verið hærra er rekstrarafkoma og eignastaða fjölmargra sjávarútvegsfyrirtækja slæm. Varðandi fiskveiðarnar er því m.a. um að kenna að fyrirkomulag fiskveiðistjórnunarinnar hefur ekki haldið nægjanlega aftur af stærð flotans, en varðandi vinnsluna veldur m.a. það að henni hefur verið torvelduð samkeppnin um aflann.
    Stjórnkerfi fiskveiða verður að ýta undir þá endurskipulagningu í sjávarútvegi sem er nauðsynleg til að styrkja stöðu hans. Það er nauðsynlegt að rétta hlut fiskvinnslunnar í samkeppninni um aflann við erlenda fiskvinnslu og hugsanlega sjóvinnslu, en stuðla jafnframt að betri nýtingu fjárfestinga í fiskvinnslufyrirtækjum. Það þarf að auðvelda þeim fyrirtækjum leið sem vilja leita á fjarlæg mið, sem vilja stunda útgerð og fiskvinnslu erlendis.
    Hvernig höfum við farið með það sem okkur er trúað fyrir? Ég læt mönnum eftir að meta það og geri það hver fyrir sig. Ég spyr: Hefur stjórnun fiskveiða með því kerfi sem við höfum notað skilað árangri? Mér liggur næst við að segja nei. Og ég spyr: Er það vegna þess að við höfum hundsað tillögur fiskifræðinga? Höfum við misnotað svo stofnana að við erum á fullri ferð í feigðina? Nánar skilgreint til örbirgðar og ófarsældar? Svari hver fyrir sig. Er atvinnuleysi í landi vegna fiskleysis? Er það kvótakerfið sem er sá draugur sem við erum að fást við?
    Ég tel að það útgerðarform sem við búum við sé frekar sökudólgur en það kvótakerfi sem notað hefur verið. Hafa menn gert sér grein fyrir því að útfluttur fiskur, unninn á frystitogurum og óunninn ísaður er meiri heldur en sá fiskur eða sá afli sem unninn er í 10--15 stærstu frystihúsum landsins á árinu 1992? Ég hygg að menn hafi ekki gert sér grein fyrir því. Afli þeirra aðila sem ég nefni nú er úr sameiginlegum kvóta, nemur 190 þús. tonnum, þ.e. frystiskip sem veiða og selja afla út og það sem flutt er út ísað, óunnið, sem nemur 82 þús. tonnum á árinu 1992. Allt þetta magn sem ég hef hér nefnt er meira en unnið er samanlagt í Granda, í HB á Akranesi, Norðurtanga á Ísafirði, Skildi á Sauðárkróki, Útgerðarfélagi Akureyringa, Tanga á Vopnafirði, frystihúsunum öllum á Austfjörðum og öllum frystihúsum Vestmannaeyinga. Ég hefði viljað spyrja hv. þm. Vilhjálm Egilsson, hefði hann verið hér, hvort hann teldi að þetta væri eðlilegt. En hann fær kannski tækifæri til að svara þessu seinna.
    Ég hallast frekar að því að það sé útgerðarformið en ekki kvótinn sem mestu ræður um atvinnuleysi í fiskvinnslu og það smitar út í atvinnuleysi til iðnaðarins og síðan koll af kolli.
    Virðulegur forseti. Ég er að segja að atvinnuleysi á Íslandi er áskapað en ekki eitthvað sem við verðum að hafa. Ég ítreka enn að það er útgerðarform en ekki beint kvótakerfið sem er orsök atvinnuleysisins. Þess vegna tek ég undir þá sanngjörnu kröfu fiskvinnslufólks, og held henni á lofti, að allan afla skuli vinna í landi áður en hann er fluttur út. Þetta er krafa þeirra sem eiga aflann í hafinu við Ísland samkvæmt 1. gr. laga um stjórnun fiskveiða.
    Ég tel að við verðum að gera breytingu á stjórnun fiskveiða hér við land. Við verðum að færa okkur til stjórnunar fiskveiða með aflagjaldi. Í nýlegri skýrslu kemur fram að ef gjaldstýring hefði verið notuð stæðum við mun betur. Ég ætla ekki að fara yfir niðurstöðu þeirrar skýrslu frekar, en legg það hér fram að það sé ástæða til að skoða niðurstöðu þeirrar skýrslu betur heldur en gert hefur verið.
    Ég hef áður haldið því fram að við núverandi aðstæður ætti ríkisstjórn að leita eftir samningum við frystitogara um að þeir veiddu aðeins hálfan kvóta innan landhelginnar. Ég endurtek að ég hef áður nefnt að ég tel að það eigi að leita eftir samningum við frystitogara um að veiða aðeins helming af sínum kvóta innan landhelginnar. Og ég tel að helmingur þess kvóta sem þeir annars hefðu ætti að koma til minni skipa og báta og sá afli ætti að vinnast allur í landi. Á móti þarf að gera samning við stóru skipin um tryggingu fyrir meðalafkomu miðað við síðasta ár. Ég tel að þetta sé tilraunarinnar virði. Aflann sem þannig færðist til annarra skipa yrði að vinna í landi.
    Eftir að hafa hlustað á ræður hér í dag velti ég því fyrir mér hvort fullyrðing um hagkvæmni stórskipa til veiða sé rétt. Ég viðurkenni að við verðum að hafa stóru skipin til jöfnunar öflunar hráefnis. Það er staðreynd sem ég viðurkenni. En þegar settar eru fram fullyrðingar um hagkvæmni verður líka að viðurkenna þann kost sem hagkvæmastur er.
    Ég leyfi mér að vitna í rit Fiskifélags Íslands, með leyfi hæstv. forseta. Í Útvegi 1992, riti Fiskifélags Íslands, sem ég vitnaði í hér áðan, er eftirfarandi upplýsingar að finna. Það er stuðst við töflu III um fjölda sjómanna árið 1992 og töflu um afla og sókn á veiðarfæri:
    ,,Á skuttogurum var fjöldi sjómanna 1.690 manns. Á smábátum voru 788. Afli upp úr sjó í tonnum talið á togara var 323.808 tonn en á opnum vélbátum 29.962 tonn. Tonn á bak við hvert starf eru 192 á skuttogurum en 38 á opnum smábátum.`` --- Niðurstaðan úr þessu: Það þarf fimm sinnum minni afla til að skapa ársverkið hjá trillunni en hjá togaranum. Í atvinnuleysinu, eins og núna ríkir á Íslandi, verða stjórnvöld að líta til slíkra staðreynda. Það er hægt að auka atvinnu með því að hlúa að minnstu einingunum. Til sjávar eru það smábátarnir. Sjómenn eru tilbúnir. Bátarnir eru til staðar og fiskurinn er stutt frá landi. En smábátaeigendur hafa yfir fleiri rökum að ráða tilvist sinni til framdráttar. Fyrir rösklega ári síðan kom skýrsla um afkomu smábátaútgerðarinnar 1989. Niðurstaða þeirrar skýrslu staðfesti það sem smábátaeigendur hafa ávallt haldið fram að hagkvæmasta leiðin til að ná í tonnið er að nota smábátinn til slíkra athafna. Olíukostnaður var helmingi minni og hreinn hagnaður, hreinn hagnaður af útgerðinni tvisvar sinnum meiri heldur en hjá þeim útgerðarflokki sem næst kom, en það voru frystitogararnir. Þetta tel ég vera þung rök og mikilvæg rök sem innlegg í það sem ég tel að við eigum að hafa í huga þegar við erum að úthluta heimildum til smábátanna.
    Ég er andvígur því frjálsa framsali sem reiknað er með í frv. sem hér liggur fyrir. Ég vil breyta því þannig að 75% úthlutaðs afla á skip verði aflað á viðkomandi skipi. Ég vil líka að það sé heimilt að minnka þetta hlutfall í 50% ef skip fer til sérstaks viðhalds í íslenskri skipasmíðastöð. Það sem umfram er og ekki er veitt á skip sem hefur kvóta, verði selt á kvótamarkaði.
    Ég vil gera athugasemd við 2. gr. fyrirliggjandi frv. sem kæmi þá fyrir framan 6. gr. laganna, sem varðar fiskveiðar smábáta eða krókaleyfisbáta í desember og janúar. Ég vil veita þá heimild ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi eins og hafa verið ríkjandi núna frá haustmánuðum, að það sé gefin heimild til róðra, fimm til sex róðra í janúar og febrúar ef aðstæður leyfa. Í nóvember á sl. ári voru aðstæður þannig að smábátar við Faxaflóa komust ekki á sjó einn einasta róður allan nóvembermánuð og þeir komust í tvo róðra í októbermánuði. En það gaf fimm til sex daga í desember og fjóra daga í janúar. Og það er þess vegna sem ég tel að menn verði að hafa þá rýmd innan þessa kerfis að menn geti fært þetta til.
    Varðandi bann við veiðum sjö síðustu daga hvers mánaðar þá verður að breyta því. Það verður að breyta því. Ég gæti hugsað mér að viðkomandi sjómenn fengju að velja hvort þeir tækju sjö dagana í upphafi mánaðar eða í lok mánaðar. Þetta gæti ég hugsað mér. Ég gæti hugsað mér að einhverjir af þessum sjö dögum sem talað er um væru sunnudagar. Þetta gæti ég hugsað mér. En í heildina tekið tel ég að það þurfi að fækka banndögum og viðurkenna það að náttúruöflin taka svo hraustlega í taumana á stundum að það getur verið nauðsyn að rýmka takmörkunarákvæði laganna. Hins vegar segja sjómenn mér að þeir væru mikið sáttari við að vera bannað að vera á veiðum hálft árið bara ef þeir geta fengið að velja sjálfir þá daga sem þeir stunda veiðarnar. Það er kallað ótakmarkað leyfi til fiskveiða á smábátum.
    Ég hef innlegg í lausn sjómannadeilunnar að mínu mati. Ég vil að það verði tekin pólitísk ákvörðun um að auka þorskafla um 20 þús. tonn, sem yrðu sett á markað með því skilyrði að þau yrðu öll unnin í landi. Ég get einnig hugsað mér að 10 þús. tonn af þessum afla sem ég tilgreindi áðan yrðu til sérstakrar ráðstöfunar til þeirra byggða sem verst hafa orðið úti vegna niðurskurðar á þorskkvóta. Þetta get ég hugsað mér. Ég er ekki tilbúinn að útfæra það nánar, en ég tel að ríkisstjórn Íslands standi nú frammi fyrir því dæmi að verða að taka pólitíska ákvörðun um aukningu aflamarks þorskafla við Ísland. Ef þessi kvóti, þó ekki væri nema 10 þús. tonn, yrði lagður inn á kvótakaupamarkað, þá mundi það greiða fyrir lausn þess vandamáls sem fyrir liggur í umsögnum aðila við tillögum þríhöfða nefndar, sem svo hefur verið kölluð, sem gerði tillögu um kvótamarkaðinn.
    Samkvæmt mínum skilningi er nauðsynlegt að leita eftir breytingum á kvótakerfinu sem í raun þýðir nýtt kerfi. Hver breyting á núverandi kvótakerfi þýðir nýtt kerfi. Þróunarsjóður er líklegur til að auðvelda lausn mála hvað varðar að halda stærð fiskiflotans í skefjum. En ríkisvaldið verður að setja upp ferkari takmarkanir en eru núna vegna fiskiskipakaupa til landsins. Þróunarsjóður þarf að afgreiðast fyrst frá þingi áður en lög nr. 38 eru afgreidd að mínu mati. Það eru auðvitað aðrar tillögur sem er vert að skoða og það á að skoða hvernig ráðgjöf og forsendur fyrir aflaheimildum eru unnar. Þær hafa áhrif á búsetu í landinu.
    Herra forseti. Verði þetta frv. að lögum óbreytt mun það hafa slæmar afleiðingar. Margir munu missa eignir sínar. Atvinnuleysi mun enn þá aukast, ekki bara hjá smábátaeigendum heldur hjá fiskvinnslufólki og þjónustuaðilum bátaflotans. Það er því vissulega brýn þörf á að stjórnvöld vegi og meti hvort ekki verði að halda um stjórnun fiskveiða smábáta á annan hátt en um veiðar stærri skipa.
    Í ræðu hæstv. sjútvrh. kom fram enn einu sinni að smábátum hafi fjölgað óhóflega á árunum 1984--1991. Ég óska eftir því að menn viðurkenni um leið að floti 13 rúmlesta skipa og stærri stækkaði um 11 þús. brúttólestir á sama tíma og verið er að vitna til stækkunar smábátaflotans.
    Ég vil að lokum, virðulegur forseti, lýsa efasemdum um kvótakerfið sem við búum við, sem byggt er upp samkvæmt formúlu Nýfundnalendinga. Það vita allir hver þróunin hefur orðið þar. Fiskurinn hvarf af miðunum.
    Ég ætla að ljúka mínum orðum með því að nefna örlítið frjálst framsal kvóta. Það hefur leitt til slíks brasks að til verkfalls sjómanna kom sem kunnugt er. Málið er svo flókið að þær lausnir sem menn hafa helst talið koma til greina hafa ekki hlotið sátt milli aðila eða hjá þeim aðilum sem málið varðar hvað mest. Þetta síðasta er sönnun þess að menn verða að breyta núverandi kvótakerfi eins og segir í margumræddri samþykkt flokksstjórnar Alþfl. Áðan var beint spurningum til mín úr ræðustól, hv. þm. Ingibjörg Pálmadóttir spurði hvort Alþfl. ætlaði að standa að þessu frv. Ég geri ráð fyrir því að við sem samstarfsaðilar munum standa að frv., en það þýðir ekki að við reynum ekki að hafa eins mikil áhrif til breytinga í þá veru sem við höfum lýst að þurfi að gera á þessu frv.
    Hv. þm. Ingibjörg Pálmadóttir ræddi um veiðileyfagjald. Ég vil segja það að veiðileyfagjald getur treyst byggð í landinu ef því er beitt á réttan hátt. Hv. þm. Ingibjörg Pálmadóttir viðurkenndi hér úr ræðustól að kerfið væri gallað, kvótakerfið væri gallað. Því spyr ég: Vill hv. þm. ekki breyta því kerfi á þann sama veg eða á einhvern veg af því sem ég hef verið að ræða um og við aðrir sem hér höfum talað? Flestir stjórnarþingmenn sem hér hafa talað hafa lýst því að þeir vilji hafa áhrif til breytinga. Það þýðir ekki að við ætlum að kollvarpa kerfinu. Það er ekki hægt að snúa við um 180 gráður í þessu máli. Það

er hægt að fikra sig til samkomulags og til bættrar stjórnunar frá því sem nú er. Virðulegur forseti. Ég hef lokið máli mínu.