Stjórn fiskveiða

90. fundur
Þriðjudaginn 15. febrúar 1994, kl. 20:57:49 (4155)


[20:57]

     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég spurði nú þeirrar spurningar við upphaf þessarar umræðu hvort það ætti að taka þetta frv. alvarlega og ég verð að segja það alveg eins og er að ég verð alltaf meira og meira undrandi eftir því sem ég hlusta lengur á hv. stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar. Hv. 5. þm. Austurl. sagði hér í dag að eitt væri stefna og annað væri gerð og mér fannst hann vera að gefa það í skyn að þetta stangaðist allt saman á en auðvitað gerir það ekki. En nú kemur hv. 1. þm. Vesturl. hér upp og talar í reynd algerlega á móti þessu frv. Og ég spyr: Hvernig í ósköpunum stendur á því að það var verið að reyna að ná samstöðu um það innan stjórnarflokkanna á sl. vetri að leggja þetta frv. fram þannig að það verði bindandi fyrir flokkana? Síðan er búið að vera að vinna í þessu að okkur er sagt í allt sumar og allt haust og enn er búið að gera samkomulag og síðan er þetta mál tilkynnt hér á Alþingi af stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar með þeim hætti að það sé allt opið, allt saman opið, það sé sjálfsagt að athuga allar leiðir. Veiðileyfagjald á að skoða, framsalið eigi allt annaðhvort að taka aftur eða breyta, það sé hins vegar sjálfsagt að leyfa framsal á fiskvinnslustöðvarnar en menn eru á móti því að veiða tonn á móti tonni. Það er náttúrlega alveg ljóst að veiðar tonn á móti tonni munu stóraukast ef fisvinnslustöðvarnar fá kvóta þannig að þetta mál virðist allt saman vera hér í skötulíki og engin leið að átta sig á því að hér sé meiri hluti meðal stjórnarsinna fyrir þessu frv. Það virðist alls ekki vera og ég marka það m.a. á þeirri ræðu sem hér var flutt.