Stjórn fiskveiða

90. fundur
Þriðjudaginn 15. febrúar 1994, kl. 21:04:45 (4158)


[21:04]
     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það væri fróðlegt að rifja það upp með lestri þingtíðinda hvernig samstaðan og

einhugurinn var þegar hv. 1. þm. Austurl. stýrði því hér í þinginu að fá sett lög um stjórn fiskveiða. Mig minnir endilega að ég hafi lesið um það og fylgst með því þá að hann hafi ekki haft kannski alla hjörðina með sér en ég hefði viljað spyrja hv. þm. um það og hann kannski svarar því hér í seinni ræðum í þessari umræðu hvort hann telji ekki ástæðu til að taka tillit til þeirrar gagnrýni sem hefur komið fram, m.a. frá sjómannasamtökunum, það væri mjög fróðlegt, hvort hann vilji algerlega hafna því. Ég er ekki reiðubúinn til þess að skella skollaeyrum við aðvörunarorðum sjómanna í sambandi við stjórn fiskveiða. Ég vil reyna að ná sátt og reyna að ná fram breytingum og lagfæringum á þessum lögum og ég er sannfærður um að það á að vera hægt. Og miðað við þær umræður sem hér hafa farið fram í dag sýnist mér að það sé býsna mikill áhugi hjá hv. þm. að ná fram breytingum. Og þegar fyrir liggur að það er ekki mikil gagnrýni á það frv. sem hér er lagt fram þá er það vissulega mikilvægt innlegg í þær umræður sem hér þurfa að fara fram og undirbúningur að þeirri lagasetningu sem Alþingi þarf að standa að gagnvart lögunum um stjórn fiskveiða.