Stjórn fiskveiða

90. fundur
Þriðjudaginn 15. febrúar 1994, kl. 21:49:07 (4165)


[21:49]
     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er auðvitað ekki þannig að þetta mál sé að koma í fyrsta skipti í ljós. Þetta mál er að koma í fyrsta skipti til umræðu í þinginu en að baki liggur mjög ítarleg skýrsla sem hefur verið kynnt vítt og breitt um þjóðfélagið, ekki síst á meðal hagsmunaaðila. Ég held að að mörgu leyti sé það ekki eðlilegt að hagsmunaaðilar hafi mótandi áhrif um gerð frumvarpa þó að vissulega þurfi að taka tillit til þeirra og hafa samráð við þessa aðila. Ég tel að það hafi verið gert. Ég veit ekki betur en fyrir hv. sjútvn. liggi t.d. umsagnir hagsmunaaðila vítt og breitt úr þjóðfélaginu sem hafa haft aðstöðu til þess að taka afstöðu til ýmissa álitaefna sem við erum að ræða um í kvöld. Þannig að það er auðvitað ekki þannig að við séum á einhverjum byrjunarreit og þetta samráð sé rétt að hefjast.
    Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að engu að síður munum við þurfa á næstunni að ræða þessi mál miklu ítarlegar og það verður kallað eftir því að fá viðbrögð enn víðar að úr þjóðfélaginu. Ég held og trúi ekki öðru en að stjórnarandstaðan eins og við aðrir hv. þm. vilji taka þátt í því að finna farsæla lausn á þessu, ekki síst í ljósi þess sem hv. 9. þm. Reykn. sagði hér áðan að þetta mál er þess eðlis að ágreiningurinn gengur gjarnan þvert á flokksbönd og í þeim efnum snertir það hygg ég flesta flokka í landinu.