Stjórn fiskveiða

90. fundur
Þriðjudaginn 15. febrúar 1994, kl. 21:52:39 (4167)


[21:52]
     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ekki veit ég hvort við hv. 9. þm. Reykn. séum alveg sammála um hvað í hugtakinu ,,samráð`` felist. Það að hafa samráð þýðir auðvitað ekki það í sjálfu sér að allir sem haft er samráð við séu síðan alveg sammála niðurstöðunni sem verið er að kynna þeim eða ræða við þá um. Ég hef kynnst því á þeim ferli frá því að þessi fyrsta kvótalagasetning um stjórn fiskveiða leit dagsins ljós árið 1984 að vera samráðsaðili varðandi þessa lagasetningu. En ég hef hins vegar ekki litið svo á að ég hafi verið ábyrgur fyrir þeirri lagasetningu á einn eða annan hátt.
    Það var einfaldlega þannig að málin voru kynnt. Menn höfðu síðan aðstöðu til þess að ræða þau vítt og breitt og síðan var niðurstaðan fengin hér í þinginu. Og niðurstaðan var oft og tíðum býsna frábrugðin því sem hún hafði virst vera í upphafi þegar málin voru kynnt hinum svokölluðu samráðsaðilum vítt og breitt um þjóðfélagið, fiskiþingi, talsmönnum hagsmunasamtaka o.s.frv. Og það er auðvitað þannig að þessi mál hafa að ég hygg verið meira í umræðunni síðustu missirin en oft áður vegna þess að skýrsla sú, sú umdeilda og fræga skýrsla sem kennd var við tvíhöfða, var rædd vítt og breitt um þjóðfélagið og þó að ýmislegt hafi breyst frá þeirri skýrslu á leiðinni inn í frv., þá er það engu að síður þannig að þau mál, þau efnisatriði og efnisatriði í frv. hafi verið til kynningar og til umræðu vítt og breitt um þjóðfélagið. Þannig að ég hygg að stór hluti af þeim samráðsferli sem eðlilegur er við mótun slíks frv. eins og þessa sé þegar að baki og menn geti farið að snúa sér að efnisatriðum þess vegna.