Stjórn fiskveiða

90. fundur
Þriðjudaginn 15. febrúar 1994, kl. 21:57:05 (4169)


[21:57]
     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég skal svara þessu afar skýrt. Að sjálfsögðu hef ég rætt þessi mál í þingflokki Sjálfstfl. og það er ekki þar með sagt að þau hafi ekki fengið bærilegar viðtökur þó þau hafi ekki litið dagsins ljós í þessu frv. Það er bara einfaldlega þannig, hv. þm., sem ég hélt að hv. þm. vissi eftir að hafa haft hér forustu í þingnefnd um sjávarútvegsmál að sjávarútvegsmálin ekki síst, eðli málsins samkvæmt, taka ævinlega býsna miklum breytingum og þegar þau koma fram í upphafi eru þau ákveðin málamiðlun, málamiðlun sem menn geta síðan haft ýmislegt við að athuga. Ég held að það hefði verið mjög óskynsamlegt og afar óheppilegt fyrir framgang málsins að þau mál væru ekki rædd hér af hreinskilni í þinginu og menn færu hér frá þessu máli nánast þegjandi áður en kæmi til þingnefndarinnar.
    Ég man ekki hvaða vinnubrögð hv. þm. viðhafði sjálfur í þessum efnum í þingsölum. En ég geri ráð fyrir því að hv. þm. hafi orðið að standa frammi fyrir því við þinglega meðferð mála að gera á þeim

mjög verulegar breytingar. Ég man t.d. eftir frv. sem var alltaf nátengt fiskveiðistjórnarfrumvarpinu á sínum tíma, frv. varðandi Hagræðingarsjóðinn. Ég man ekki hvort það tók tvo eða þrjá kollhnísa í meðferð þingsins og hv. þm. væntanlega með allan tímann og kom svo sæmilega óringlaður út úr því. ( ÓÞÞ: Frv. eða þingmaðurinn?) ( StG: Báðir.) Báðir, hv. þm. Þannig er þetta bara, hv. þm., að mál af þessu tagi taka nokkrum breytingum frá því að þau eru kynnt í þingflokkum þangað til þau koma inn í þingið, frá því að þau koma úr 1. umr. og í viðkomandi þingnefndum þannig að þetta er ekkert óeðlilegt, það sem hér er að gerast. ( ÓÞÞ: Þannig starfar lýðræðið.)