Stjórn fiskveiða

90. fundur
Þriðjudaginn 15. febrúar 1994, kl. 22:00:15 (4171)


[22:00]
     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er dálítið sérkennilegt fyrir mig að vera að reyna að kenna svo þingreyndum manni eins og hv. þm. Stefáni Guðmundssyni hvernig þessir hlutir ganga fyrir sig. Þannig er mál með vexti að það er býsna algengt þegar mál eru rædd innan þingflokka, jafnvel innan stjórnarflokka, að það sé talið eðlilegt að þær ábendingar sem koma fram séu teknar til sérstakrar skoðunar í þingnefndinni sjálfri.
    Þær ábendingar sem ég kom með lúta að sjálfum grundvellinum eins og t.d. varðandi sóknarmarkið og meðferðinni á því og grálúðunni og meðferðinni á þeim kvótum. Það var auðvitað mjög eðlilegt og ég var fyllilega sáttur við það að hlutir af því taginu yrðu ræddir vegna þess að hér eru faglegir hlutir sem eiga auðvitað að koma sérstaklega til umræðu í fagnefndum þá taldi ég þetta mjög eðlilegt að í stað þess að vera að taka afstöðu til þess þar og þá væri afstaðan tekin til þess sérstaklega innan nefndarinnar sjálfrar. Ég held að þau vinnubrögð séu mjög eðlileg og ég veit að hv. þm. Stefán Guðmundsson, sem hefur mikla reynslu af því að vera í stjórnarliði þekkir það miklu betur en ég eða a.m.k. jafn vel og ég, hann hefur staðið frammi fyrir því, eða ég trúi ekki öðru en hann hafi staðið frammi fyrir því, að þingmál sem hann hefur gefið grænt ljós á að yrðu rædd í þinginu og staðið að fengju þinglega meðferð, hann hefur gert ráð fyrir því að þau gætu tekið pólitískum breytingum í meðferð þingsins og þannig er nákvæmlega með þetta frv. sem hér er til umræðu. Ég vænti þess að það taki talsverðum breytingum eðli málsins samkvæmt og þær ábendingar sem ég hef verið að koma hér fram með hafa verið settar fram í þeirri trú og þeirri von að til þeirra yrði tekið tillit og ég hefði þannig áhrif á hina endanlegu niðurstöðu málsins með sem jákvæðustum hætti út frá mínum sjónarhóli.