Stjórn fiskveiða

90. fundur
Þriðjudaginn 15. febrúar 1994, kl. 22:54:39 (4181)


[22:54]
     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það var svo að þessi þjóð fjárfesti í 20 ár við hin verstu skilyrði án þess að sjá nokkuð fram í tímann. Og hvers vegna? Vegna þess að hér ríkti verðbólgufár þannig að skyggni manna til fjárfestinga var bókstaflega ekki neitt og við súpum seyðið af því núna, hv. 9. þm. Reykn., að fjárfesting okkar hefur verið mislukkuð af því að við sáum ekki fram í tímann vegna verðbólgunnar. ( StG: Ekki í skólamálum, er það?) Nú er verið að bjóða okkur upp á annars konar þoku. ( ÓÞÞ: Af hverjum? Sjútvrh.?) Það er ekki þoka verðbólgunnar ( ÓÞÞ: Hver býður upp á þokuna?) heldur er það þoka sem þessi ágæti þingmaður hefur lýst með óbeinum hætti ( StG: Hver er að villast í þokunni?) ef þingmenn vilja gefa mér tækifæri til að ljúka máli mínu ef það skyldi verða til þess að upplýsa þá um hvað ég er að tala. Þessi þoka er hringlandaháttur sem er fólginn í því að breyta í grundvallaratriðum þeim lögmálum sem hafa ríkt í efnahagslífinu. Og þoka af mannavöldum, þoka af verðbólguvöldum er jafnskaðleg fyrir atvinnulífið og annað lélegt skyggni sem menn hafa til að fjárfesta eðlilega.