Stjórn fiskveiða

90. fundur
Þriðjudaginn 15. febrúar 1994, kl. 23:40:52 (4195)


[23:40]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Hér hafa farið fram miklar umræður í kvöld og e.t.v. halda einhverjir að þær umræður sem hér fara fram hafi verið ákveðnar með löngum fyrirvara. Svo er ekki. Forsetar þingsins voru búnir að taka ákvörðun um það að á þessum degi ætti að ræða byggðamál. En það er margt að gerast á bak við tjöldin og hæstv. sjútvrh. þurfti að fylgja þeirri lagaskyldu eftir að endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða ætti sér stað. Og með því að málið er tekið hér á dagskrá hefur þeim formsatriðum verið fullnægt. En hér á baksíðu Dagblaðsins eru línurnar lagðar og sagt hvernig stjórn starfar sem ætlar að sitja áfram og hvernig stjórn starfar sem er að falla.
    Þeir sem kynntu sér vinnubrögð viðreisnarinnar gömlu vissu að stjórnarþingmönnum var bannað að tala út og suður í þingsalnum. Þeim var skipað að ágreiningsmálin ætti að ræða í flokksherbergjunum og það ætti að ná samstöðu á milli stjórnarsinnanna og svo ætti að fylgja málunum eftir í þinginu. Þess vegna sat viðreisnin jafnlengi og hún sat. Undir þessum . . .   (Gripið fram í.) Nú er komið svo að hæstv. sjútvrh. er farinn að ókyrrast en það gerist nú ekki á hverjum degi því að hann nýtur aga frá dómsmrh. sem gerir kröfur um að menn hegði sér mjög sómasamlega hér í þingsölum. En við skulum örlítið fara yfir það hvað hæstv. viðskrh. hefur að segja um vinnubrögðin. ( StG: Hann skyldi þó aldrei ætla að fella þetta?) Þetta birtist þriðjudaginn 15. febr. 1994 og er haft innan gæsalappa svo að ég trúi því að orðrétt sé farið með:
    ,,Það var búið að gera samkomulag um búvörufrv. Sum þeirra atriða sem nú er rætt um í landbn. ganga þvert á það. Það gengur ekki ef stjórnarflokkarnir ætla að taka upp þau vinnubrögð að fara að afgreiða mál í þinginu með tilstyrk stjórnarandstöðunnar. Það eru ýmis mál sem við alþýðuflokksmenn höfum áhuga á sem stjórnarandstaðan mundi fúslega styðja. Slík vinnubrögð væru hins vegar ekki góð latína.``
    Nú er skipt yfir í latínu í lokin. Hvers vegna? Vegna þess að undir rós er verið að segja það að feigðarmerki núv. ríkisstjórnar blasa við, kistan hefur verið smíðuð. Gröfin hefur verið tekin. Útfarardagur hefur ekki verið ákveðinn. Þess vegna hefur það sáralítinn tilgang að ræða hér frv. sem ekki á að afgreiða. Það verða fyrst og fremst vangaveltur fram og til baka. Hvernig skyldi standa á því, hæstv. forseti, að sá ráðherra Íslands sem alltaf hefur orðið mjög trylltur á öllum framboðsfundum, barið sér á brjóst fyrir vestan og sagt: Kvótakerfið mun ég aldrei styðja. Ég mun aldrei styðja ríkisstjórn sem styður kvótakerfið, sem hefur látið Skutul bera það út fyrir kosningar: Að kjósa Ólaf Þórðarson er það sama og að kjósa Halldór Ásgrímsson á þing. ( StG: Sagði hann þetta?) Og nú kinkar kolli Einar Kristinn Guðfinnsson ( EKG: Og staðfestir.) og staðfestir. Hvers vegna skyldi sá hinn langi ráðherra, hæstv. iðnrh. og viðskrh., eiga svo erfitt með að komast um í snjófölinni í borginni að hann treystir sér ekki niður á Alþingi núna til að ræða málið? Ég veit að það er sleipt úti og menn geta brotnað á ferðalögum. En það getur líka verið að ástæðan sé önnur. Það getur verið að hæstv. ráðherra þori ekki í ræðustólinn.
    Hvers vegna skyldi hæstv. umhvrh. allt í einu hafa orðið svo upptekinn að hann féll frá orðinu? Nú er hann málsnjall og hefur ekkert talið eftir sér að gera grein fyrir viðhorfum sínum og allir biðu spenntir vegna þess að hann var búinn að lýsa því yfir að það væri aðeins 1% sem vantaði upp á að það væri samstaða milli Sjálfstfl. og Alþfl. í sjávarútvegsmálum, 1%. Það hefði nú ekki þurft að taka nema 10 mínútur að gera grein fyrir því hvort það væri búið að ná samkomulagi um þetta 1%, hvort það væri 0,5% eftir eða kannski bara 0,1% sem væri eftir óleyst. Og svo gerast þau undur og stórmerki að hér talar hver þingmaður Sjálfstfl. eftir annan og kemur sér undan því að gera grein fyrir því hvort þeir munu styðja frv. eða ekki. Láta nánast að því liggja að fáist ekki breytingar á frv., þá muni þeir fella það. Svo einfalt er það mál. Nei, það loga eldar innan ríkisstjórnarinnar utan þessara sala svo heitir í kvöld að þar fer sú þjóðfélagsumræða fram sem skiptir máli. Og íslenska þjóðin verður að gera sér grein fyrir því að núverandi ríkisstjórn er að falla og það er ekki eftir neinu að bíða að fylgja fallinu eftir. Þeir sem ekki þora að mæta hér í kvöld og ræða þessi mál en gala hæst þegar þeir eru komnir í eigin kjördæmi eru ekki trúverðugir í afstöðu.
    Hér hefur verið rætt um fiskveiðistefnu eins og himinn og jörð munu farast ef einhverju sé breytt. Hér hefur verið rætt um fiskveiðistefnu á þann hátt að það hafi nánast verið náttúrulögmál að standa að málum eins og gert var. Ég vil undirstrika að það var ekki auðvelt að taka ákvarðanir um það hvernig ætti að draga úr sókn á Íslandsmið á ákveðnum tíma. Og sannleikurinn var sá að menn gáfu eftir á þeirri forsendu að það væri ofveiði á þorskstofninum og það bæri að byggja stofninn upp. Þetta er söguleg staðreynd. Það er hægt að fara yfir þetta. Nú spyr ég: Er búið að byggja þorskstofninn upp? Er búið að byggja hann upp? Svarið er nei. Hafrannsóknastofnun segir að þorskstofninn sé að hruni kominn, hvorki meira né minna. Þeir eru reyndar svo öruggir með magnið í sjónum að mér er það óskiljanlegt. Því vil ég sérstaklega koma á framfæri hvers vegna lánastofnanir á Íslandi fengu ekki Hafrannsóknastofnun til að meta það hversu mikill lax var í kerunum út um allt, á þurru landi, þannig að þeir væru ekki í neinum vandræðum með að segja fyrir hvernig ætti að standa að veðsetningu á fiskinum í kerunum. Mennirnir sem vita nákvæmlega hve mikill þorskur er í sjónum. Hvernig getur verið að þeir geti ekki leyst slík mál að ganga tryggilega frá því hversu mikill lax sé í kerunum svo að hægt sé að veðsetja þetta með eðlilegum hætti? En það er ekki á hreinu.
    Við erum búnir að skrifa undir EES-samning. Efnahagsbandalag Evrópu hefur stjórnað fiskveiðum um langan tíma og hvaða aðferð hafa þeir notað til þess að vernda fiskimið Evrópu? Veit einhver hér inni hvaða aðferð þeir hafa notað? Þeir hafa notað kvótakerfi. Það er söguleg staðreynd. En þetta gekk ekki úti í Evrópu vegna þess að þeir svindluðu. Er það nú víst að enginn hafi svindlað á Íslandi? Er það nú víst? Var fylgst með því að aflinn væri vigtaður þar sem skipin komu með aflann að landi í upphafi kvótakerfisins? Ég held nú síður. Hér lýsir því yfir 5. þm. Vesturl., Guðjón Guðmundsson, að menn fleygi fiski í sjóinn eftir að þetta kerfi kom vegna þess að þeir vilji ekki koma með lélegan fisk að landi. Það er þó staðreynd að áður en kvótakerfið var komu netabátarnir stundum með lélegan fisk að landi en það gerist ekki eftir þetta. Er hugsanlegt að það sé satt að menn hafi fleygt þorski í sjóinn sem búið var að taka innbyrðis á þeirri forsendu að þeir vildu ekki koma með hann að landi. Höfum við gert eitthvað til að koma í veg fyrir þetta? ( Gripið fram í: Já, sett kvótakerfið á.)
    Hafrannsóknastofnun segir: Við verðum að vernda hrygningarstofninn. Hvað er gert við hrygningarstofninn þegar hann kemur að landi? Hann er veiddur. Er það rökrétt að veiða hrygningarstofninn jafngrimmt þegar hann kemur að landi ef hrygningarstofninn er allt of lítill? Það er nefnilega hárrétt sem kom fram í máli Jóhanns Ársælssonar að Vestfirðir og Vesturland voru þeir staðir þar sem menn voru farnir að verja hrygningarstofninn. Það var búið að banna veiðar inni á Breiðafirði með þorskanet. Til hvers? Til þess að tryggja það að þorskurinn sem var að koma að landi til að hrygna, fengi að hrygna. Nú segja menn: Þetta skiptir engu máli. En hvað segja Norðmenn? Hvað segja norskar rannsóknir um þetta? Norskar rannsóknir segja að 35% af þorskinum skili sér til þeirra svæða þar sem hann hrygndi. Hvorki meira né minna. Það skyldi þó ekki vera að vandamálið sums staðar á Íslandi væri það að það verður að stöðva veiðar á þorskinum á hrygningartímanum svo að hann fái að hrygna og nýliðunin eigi sér stað? Og hvað með drauganetin í sjónum? Hvað með drauganetin? Hvernig stendur á því að togararnir eru enn að fá þorskanet með trollinu upp, þorskanet með dauðum og lifandi þorski sem hafa stundum rekið langa leið frá þeim stað þar sem þau voru lögð? Höfum við tekið á þessu?
    Ég minnist þess að þegar ég var ungur maður þá var talað um það að þorskanet yrðu að vera þannig útbúin að korkurinn væri festur við með sísal svo að hann gæti fúnað og steinarnir ættu að vera festir við með sísal svo þeir gætu líka fúnað, svo bandið gæti fúnað og steinarnir losnað af svo netið félli saman og hætti að veiða. En í dag er flotteinninn komin inn í nælonþráðinn ofan á netunum og blýteinninn er kominn inn að neðan. Þetta eru veiðarfæri sem rétta sig aftur og aftur. Á Breiðafirði fóru löggæslumenn í það að taka upp grásleppunetin frá árinu áður, glás af slíkum netum. Þau voru með lifandi grásleppu í. Er tilfellið að við göngum um þetta lífríki án þess að gá að því hvað við erum að gera? Er hugsanlegt að við höfum verið að veiða miklu meira af þorski við strendur þessa lands á undanförnum árum en við höfum gefið upp? Er hugsanlegt að það sé ekki bara innan EB sem svindlið á sér stað, að það sé líka við strendur Íslands?
    Eru einhverjar hugmyndir um það hér á landi að vistvænar veiðar eigi að hafa forgang? Þegar við tölum um vistvænar veiðar þá tölum við löngum um handfæraveiðar eða línuveiðar. En við Alaska þar sem menn tala um vistvænar veiðar þá veiða þeir ekkert nema í gildrur. Það eru vistvænar veiðar. Ég verð að segja eins og er að það er alvarlegt áhyggjuefni svo að ekki sé meira sagt að við höfum umhvrh. sem má ekki sinna nema örlitlu broti af því svæði sem Íslendingar ráða yfir. Hans umdæmi nær að sjónum. En auðlindir Íslands sem við erum að nytja eru fyrst og fremst í hafinu. Það vita það allir að ef skip sekkur eða togari sekkur, t.d. á Vestfjarðamiðum, þá má búast við því að í kringum flakið sé fisksælla en annars staðar. Hvers vegna? Vegna þess að fiskurinn leitar sér skjóls. Hann leitar að bústað, hann leitar að hæli. Það breytir ekki því að sums staðar eru flákar sem fiskurinn kemur alltaf upp á og hefur sem umferðarsvæði vegna þess að hann er í ætisleit en hann notar aftur á móti flökin til þess að leita skjóls. Og það er söguleg staðreynd að það er búið að slétta stór svæði af hafsbotninum við strendur Íslands með þungum verkfærum sem togararnir nota.
    Ég er hvorki á móti togveiðum né netaveiðum. En mig undrar það að Hafrannsóknastofnun skuli ekki reyna að komast niður á vísindalegt plan. Við þurfum ekki fleiri veðurfræðinga sem eru fróðari um veðrið í gær heldur en morgundagsveðrið. Við þurfum þá sem vilja fara að rannsaka þessi mál á þann hátt að það sé trúverðugt sem þeir eru að boða.
    Þegar fiskifræðingur mætir hjá umhvrh. og ræðir um rjúpuna þá lýsir hann því yfir að það skipti engu máli hve mikið sé skotið af rjúpu. Þeir sömu tala um að það sé hægt að ofveiða, að manni skilst nánast með handfærum eða línu, þorskinn.
    Ég er sannfærður um það að við Íslendingar höfum til þessa alls ekki komist nema á byrjunarreit í nýtingu þeirra auðlinda sem eru í hafinu hér í kringum okkur. En það gengur ekki að reikna þetta allt út frá hverjum fiskstofni fyrir sig. Það er sagt við okkur: Svona mikið er veitt af ókynþroska þorski. Það er eins og það eigi að vera skilyrði að það megi ekki éta þorsk nema hann sé kynþroska. Hvernig skyldi vera með kjúklingaframleiðsluna? Ætli það sé skylda þar að kjúklingarnir séu allir kynþroska áður en þeir séu étnir? Hvernig skyldi vera með dilkakjötsframleiðsluna? Ætli það sé skylda þar að þeir séu allir orðnir kynþroska? Eða laxinn? Er það skylda í kerunum að laxinn sé orðinn kynþroska áður en hann er veiddur? Það er nú öðru nær. Það veit nefnilega hver einasti maður sem hefur eitthvað kynnt sér lífeðlisfræði að þeim mun eldri sem skepnan verður, þeim mun meira æti þarf hún hlutfallslega til að bæta við sig nýju og nýju kílói. Það er ódýrast að fóðra hana upp að kynþroska aldrinu. Þess vegna á að veiða mikið af þorskinum á þeim aldri. Það er ekkert vafaatriði. Það er einfaldlega of dýrt að ala hann í hafinu upp í það að hann verði stór golþorskur. Það kostar allt of mikið fóður á hvert kíló af fiski, allt of mikið fóður. Eru menn kannski að leggja það til að við tökum upp sauðaeldi aftur á Íslandi og drepum lömbin 5--6 vetra og þorskinn allan þegar hann verður orðinn 10 ára. Ætli hann væri þá ekki búinn að éta mikið af rækjunni í hafinu? Ætli hann væri ekki búinn að höggva það mikið í loðnuna að það yrði heldur minna eftir til þess að frysta?
    Að mínu viti er það alfarið ósannað mál í sumum tilfellum að það sé hægt að halda því fram af einhverju öryggi að það sé æskilegt markmið að við eigum að veiða 500 þúsund tonn af þorski á ári og hafa hrygningarstofninn af þeirri stærð? Vita menn hvað sá þorskstofn mundi éta af lífríkinu, af öðrum fiskum sem við erum að veiða? Hafrannsóknastofnun er ekki hugsað að vera ríkisstjórn í þessu landi. Henni er ætlað að vera vísindastofnun sem vinnur á þeim grunni. Og það hlýtur á hverjum tíma að verða að taka tillit til margra þátta þegar ákvörðun er tekin um það hversu mikið við ætlum að taka úr hafinu á hverjum tíma.
    Mig minnir að í dýrafræðinni gömlu hafi verið sagt að það væru 10 milljónir sem kæmu af seiðum frá einum þorski ef klakið heppnaðist. Það er fróðlegt að það er fyrst núna sem Hafrannsóknastofnun ætlar að fara að rannsaka það hvort það séu jafnmiklar líkur á því að gamall þorskur skili góðum árangri í klaki og ungur þorskur. Hvað hafa þeir verið að gera? Bjarni Sæmundsson talaði um það að þorskurinn yrði einhvers staðar úti í djúpinu og kæmi svo upp á grunnið og héldi til hrygningarstöðvanna. Það er kannski eins gott að við vitum það ekki enn þá hvar í djúpinu hann heldur sig.
    Ég er sannfærður um að það kerfi sem við höfum tekið upp með frjálsu framsali veiðiheimilda mun kalla á meiri ófrið en æskilegur er í þessu landi. Hvernig við eigum að takmarka framsal veiðiheimildanna er annað mál. En það er nú einu sinni svo að einhver glæfralegasti leikur sem tröllin á Íslandi stunduðu til forna var að henda fjöregginu á milli sín því ef einhver komst að og gat skotið þetta fjöregg niður þá var líf þeirra búið. Og ef byggðarlög geta búið við þá óvissu að kvótinn sópist þaðan allur burtu vegna einnar fjármálaaðgerðar þeirra sem skipin eiga þá er öll fjárfesting verkamannsins og sjómannsins í íbúðarhúsnæði á staðnum fallin í verði. Þessi aðili hefur vissulega ekki fjárfest í skipum en hann fjárfestir líka í eignum. Hann á líka rétt í þessu landi. Hagsmunaaðilarnir sem upp eru taldir þegar menn snúa sér að því að tala um sjávarútveg hafa löngum verið skilgreindir útgerðarmenn og sjómenn og fiskvinnsla

þegar vel liggur á mönnum. Hagsmunaaðilarnir eru í sjálfu sér miklu fleiri. Hagsmunaaðilarnir eru allir Íslendingar ef grannt er skoðað. Í það minnsta er hægt að fullyrða það að hver og einn einasti sem byggt hefur sér íbúðarhús í sjávarþorpi eða litlum bæ við ströndina, sem fyrst og fremst lifir á fiskveiðum, hann er hagsmunaaðili í þessum leikreglum. Hann getur ekki unað því að þessu fjöreggi sé fleygt jafnvillt á milli og fulltrúi Verslunarráðsins telur æskilegt. Og það verkfall sem stöðvað var með lögum, deilan var ekki leyst. Verkfallinu var aðeins frestað. Deilan verður ekki leyst meðan þannig er staðið að málum að sjómenn eru látnir taka þátt í kvótakaupum. Það er staðreyndin sem blasir við.
    Hér hefur það gerst, ef einhver leggur til að það eigi að veiða meira en ákveðið er, þá standa menn upp og tala um ábyrgðarleysi, ábyrgðarleysi og ábyrgðarleysi. Hér hefur það gerst að ef einhver telur að annað stjórnarkerfi henti betur á stjórn fiskveiða, þá hafa menn sagt: Það á að koma í veg fyrir það að Útgerðarfélag Akureyrar eða útgerðin á Neskapstað fái að lifa. Báðar þessar útgerðir urðu til fyrir daga kvótakerfisins. Þær lifðu þá. Hvorug varð til á því tímabili. Hins vegar spurði þingmaður Norðurl. e. spurningar um verðið á kvóta sem ákveðið fyrirtæki norður í landi fékk og fékk ókeypis og var tekið af kvóta Vestfirðinga vegna þess að í meðaltalskerfinu sem upp var tekið, þá voru þeir látnir leggja svæðinu til kvóta með Norðurlandi og Austfjörðum. Og það er líka rétt að arðurinn af því að friða Breiðafjörð féll aldrei í skaut Snæfellsnesinga eða Vestur-Barðstrendinga. Hann var hirtur annað. Engu að síður er mér ljóst að Alþingi Íslendinga verður aldrei á eitt sátt um það hvernig eigi að standa að stjórn fiskveiða og ég er sannfærður um það að við eigum eftir að feta okkur áfram langa þrautagöngu áður en við náum þeim framförum sem við þurfum að ná. En ég er sannfærður um það að við verðum að ná vitrænni niðurstöðu. En án stuðnings sjómanna þessa lands mun ekkert kerfi í fiskveiðum halda velli. Því verða menn að gera sér grein fyrir. Því verður hæstv. sjútvrh. að gera sér grein fyrir. Það dugar ekki að fulltrúi Verslunarráðsins á hærri launum en hann hefur sem þingmaður og þar með væri hann rekinn úr vestur-þýska þinginu ef hann starfaði þar, hann komi hér sem fulltrúi fyrir allt önnur öfl en þau sem raunverulega vinna við þessa atvinnugrein. Það gengur ekki. Það gengur ekki að draga upp fyrrv. forustumann í gjaldþrotarekstri í Reykjavík þó að hann sé orðinn aðstoðarmaður hæstv. utanrrh. og segja að þessi maður sé fær um að skipuleggja sjávarútvegsveiðar á Íslandi. Það er ekki lausnin. Það hefur verið mikið mannval á skipum Vestfirðinga í gegnum aldirnar, en það hefur enginn verið svo vitlaus að ætla að hafa tvo skipstjóra á sömu skútunni. Þar hefur einn kapteinn verið hafður og tvíhöfði var stjórnlaust fyrirbrigði vegna þess að menn þorðu ekki að hafa einn kaftein. Þeir þurftu að vera tveir.
    Ég held, herra forseti, að þó að e.t.v. einhver telji að það frv. sem hér er lagt fram eigi eftir að verða að lögum þá sýnist mér að umræðan um þetta mál geti aldrei orðið það heit að sá eldur nái til að brenna upp það stjórnarsamstarf sem nú er í landinu. Sá eldur er þegar farinn að hafa áhrif sem brennir það í rúst. ( Gripið fram í: Farið hefur fé betra.) Farið hefur fé betra. Það er rétt. Og alveg ástæðulaust að fella tár þó að núverandi ríkisstjórn fari frá. En það er ekki víst að það sé skynsamlegt að halda áfram fundi í Alþingi langt fram á nótt um frv. sem stjórnarsinnar hafa eytt jafnlöngum tíma í að ráðast á. Það er nefnilega nokkuð til í því sem er hér aftan á Dagblaðinu að þau vinnubrögð að færa deilur milli ríkisstjórnarflokka inn í þingsalinn eins og gert hefur verið hér í kvöld er ekki aðferðin til að halda ríkisstjórn saman og þess vegna játa ég að það liggur nokkuð vel á mér þessa stundina vitandi hvað er að gerast utan þingsalanna.