Stjórn fiskveiða

90. fundur
Miðvikudaginn 16. febrúar 1994, kl. 00:16:11 (4196)


[00:16]
     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Þessi umræða hér í kvöld hefur nú tekið á sig ýmsar og stundum stundum býsna sérkennilegar myndir. Hér var hv. þm. Tómas Ingi Olrich í ræðustól ekki alls fyrir löngu og vék eins og stundum áður að Framsfl. nokkrum orðum. (Gripið fram í.) Já, virðist nú vera farinn en þó hef ég trú á því að hann fylgist með hér. Hann vék að þeim 20 árum sem Framsfl. hafði verið í ríkisstjórn, vaðið í þoku og fjárfest í tómri vitleysu eins og hv. þm. orðaði það. Aðeins væri nú gaman að eiga orðastað við þennan hv. þm. og ég trúi því að hann sé hér einhvers staðar og gæti komið í salinn og gaman væri að heyra álit hans á því hvort það sé rétt að sú fjárfesting að byggja framhaldsskóla í öllum kjördæmum landsins eins og þær ríkisstjórnir gerðu sem Framsfl. var þátttakandi í á þessu tímabili sem hann gat um, að byggja heilsugæslustöðvar og sjúkrahús einnig í öllum kjördæmum landsins, að endurbyggja gersamlega samgöngukerfið í landinu, fjarskipti og fjölmiðlun. Og þegar viðreisnarstjórnin fór frá völdum og þessi stjórn sem hv. þm. var að tala um, viðreisnarstjórn sem mynduð var af þeim sömu flokkum og nú eru við völd, stóð fyrir mesta atvinnuleysi sem nokkurn tíma hefur verið á Íslandi og sömu flokkar nú eru að keppast við og þá sátu við völd að slá það met, atvinnuleysið á Íslandi. Þannig var viðskilnaðurinn. Ríkisstjórn Framsfl. og stjórnarþátttaka Framsfl. á þeim áratug sem kenndur hefur verið Framsfl. bar það líka í skauti að byggja upp fiskvinnslufyrirtækin vítt og breitt um landið, endurbyggja algerlega togaraflotann sem var gersamlega kominn í rúst þegar viðreisnarstjórnin fór frá. Er það virkilega sanngjarnt að segja það að þeim peningum sem í þetta var varið hafi verið kastað á glæ?
    Og enn væri hægt að spyrja þennan hv. þm. sem talaði um óráðsíu þessara ríkisstjórna og þessa stjórnartímabils að það hefði auðvitað aldrei í stjórnartíð viðreisnarinnar verið minnst á að ástæða væri til

þess að hreyfa við þeim grundvallarreglum að auka rétt okkar til hafsins, að færa út fiskveiðilögsögu okkar. En þegar þessir flokkar fóru frá völdum um 1970 var fiskveiðilögsaga okkar rétt rúmlega 5 þúsund km 2 en á valdatíma og áhrifatímum Framsfl. var fiskveiðilögsagan færð út --- í hvað? Í hvorki meira né minna en 758 þús. km 2 úr rúmum 5 þúsund km 2 . Var þetta ómögulegt stjórnartímabil? Var þetta virkilega ómögulegt stjórnartímabil? Auðvitað ekki. Þarna var grundvöllurinn lagður að því velferðarþjóðfélagi sem hér var byggt upp á þessum árum. En núverandi ríkisstjórn, samstjórn Alþfl. og Sjálfstfl. sem kenndi sig við viðreisn þar áður hefur nú komist til valda að nýju og hefur lagt sig í framkróka við að brjóta niður það velferðarkerfi sem var byggt upp. Hún hefur boðað okkur það að hér þurfum við og megum ganga að því sem vísu að búa við atvinnuleysi. Það sé óeðlilegt að það sé eitthvað minna atvinnuleysi á Íslandi heldur en í nágrannalöndum okkar. Þetta er boðskapurinn. Þessum boðskap höfnum við framsóknarmenn og teljum og getum bent á að við eigum marga valkosti til þess að komast frá slíku.
    Þeir hafa rætt um það hér einnig í umræðunni hv. þingmenn Vesturlands og orðið tíðrætt um það að fiskur hafi verið fluttur frá Vesturlandi og norður í land. Þeir hafa hins vegar ekki rætt um það að fiskvinnslufyrirtæki á Norðurlandi og Vesturlandi í kjördæmi þessara ágætu þingmanna hafa náð samstöðu um það að efla fiskvinnslu á Vesturlandi, draga þangað stóraukinn aflarétt til þess að treysta atvinnu og atvinnuöryggi fólksins í þeirra eigin kjördæmi. Auðvitað viðurkenni ég að þar hefur ráðið það sjónarmið að báðir hefðu ávinning af og ég vona að að svo sé og svo verði. En það vill svo verða að menn gleyma oft þessum þættinum og ég hefði gaman af að spyrja hv. þm. Vesturl. að því sem um þetta hafa verið að tala, var þetta óskynsamleg leið? Var þetta og er þetta óskynsamleg leið? Í mínum huga er hún ekki óskynsamleg. ( Gripið fram í: Fyrir fyrirtækin.) Fyrir fyrirtækin og fólkið í kjördæminu. Fólkið á þessum stöðum. Ég held að við megum þakka fyrir það ef atvinnufyrirtækin geta náð saman á þennan hátt og stutt hvert annað í þessari uppbyggingu.
    Hér höfum við verið að ræða í allan dag og núna komið fram yfir miðnætti um stjórn fiskveiða. Sú endurskoðun átti að fara fram eins og hér hefur verið getið um held ég af einum eða tveim ræðumönnum áður og átti að byggjast á samstarfi og samvinnu sjútvn. þingsins og hagsmunaaðila. Aldrei komu þessir menn sem tóku að sér þetta verkefni á fund sjútvn. Þeir komu held ég tvisvar sinnum að ósk nefndarinnar og sögðu ekki neitt, sögðu akkúrat ekki neitt. Það var allt samráðið.
    Svo heyrum við hér í dag hvert samráðið virðist vera innan ríkisstjórnarflokkanna um þetta mál, ekki bara milli flokkanna, Alþfl. og Sjálfstfl., heldur innan flokkanna sjálfra. Auðvitað hefur það verið og er eitt af meginefnum fiskveiðistjórnunarinnar að ná fram hagræðingu og sífellt dynja þær óskir og kröfur raunverulega frá stjórnvöldum á sjávarútvegsfyrirtækin í dag að þau skili aukinni hagræðingu og aukinni arðsemi. Fyrirtækin hafa reynt að bregðast við og ég fullyrði það að engin atvinnustarfsemi á Íslandi hefur náð lengra en sjávarútvegurinn í þessum efnum.
    Það vildi svo til að árið 1978 kom ég inn á Alþingi sem varaþingmaður um stund og flutti þá eitt þingmál. Ég rakst á það í dag í fórum mínum og er það orðið býsna gulnað blað en það var um aukna nýtingu í fiskvinnslu. Með mér var flm. að þessu máli Vilhjálmur Hjálmarsson. Ég var að færa rök að því hvað gæti verið skynsamlegt að leggja fjármagn í og reyna að stuðla að aukinni nýtingu sjávarfangs og taldi mig geta gert það og bent á að við ættum þar mikið óunnið verk. Þá var nýtingin í þessari grein vinnslunnar um 36%. ( GunnS: Á Sauðárkróki?) Á landsmeðaltali 1976. ( GunnS: Það er ekkert að marka meðaltal.) Á Austfjörðum var þessi nýting, þá hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson, um 38%, aðeins yfir meðaltalið. En í dag er þessi nýting komin í hvorki meira né minna en í 45%. Það hefur sem sagt tekist að auka aflaverðmætin um hvorki meira né minna en 25% og menn geta . . .  ( GunnS: Ekki er það kvótakerfinu að þakka.) M.a., hv. þm., þeirri hagræðingu sem náðst hefur. Og menn geta síðan reiknað það út og gælt við það hvað þetta er í milljörðum króna. Það er nefnilega málið að þessi grein hefur náð undraverðum árangri miðað við það ástand sem ríkir í dag með hefta sókn til hafsins og það er nokkuð merkilegt hvað ríkisvaldið sjálft hefur raunverulega gert stífar kröfur á sjávarútveginn að hagræða og auka arðsemi miðað við það hvað greinin sjálf hefur lítið fengið að vita um það hjá stjórnvöldum hver starfsskilyrði greinarinnar eigi að vera til einhverrar framtíðar. Og nú er svo komið og það fyrir nokkuð löngu að menn segja: Hingað og ekki lengra. Nú verða menn að fá að vita, hver eiga starfsskilyrði þessarar greinar að vera? Og ég hef áhyggjur af því ef menn ætla ekki að geta afgreitt það frv. sem hér liggur fyrir, a.m.k. afgreitt eitthvert frv. um stjórn fiskveiða þannig að menn geti haft einhverja vitneskju frekar um það við hvað þeir eigi að búa.
    Menn hafa auðvitað alla tíð haft misjafnan skilning á því hvað þessi atvinnugrein getur gefið. Og einn af þeim mönnum, sem virðist nú vera einn af bestu vitum þessarar ríkisstjórnar og heitir Þorvaldur Gylfason, skrifar mikið í blöð og lætur mikið að sér kveða, hann flutti erindi árið 1988 og af því að þingmaður Alþfl. er hér á vappi í þingsalnum, hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson, þá leyfist mér aðeins að lesa það hvað hann segir hér í fáum orðum, dr. Þorvaldur Gylfason, en hann segir hér:
    ,,Ég er viss um að hlutur sjávarútvegs í öflun gjaldeyristekna okkar verður kominn niður fyrir helming eftir fáein ár og eftir aldamótin jafnvel niður í þriðjung.`` ( GunnS: Hvenær sagði hann þetta?) Hann sagði þetta árið 1988.
    Þetta eru þeir menn sem stjórna gerðum þessarar hæstv. ríkisstjórnar. Þetta var lífssýn þessara manna til þessarar atvinnugreinar. Ja, við þurfum ekki að vera hissa á því þó okkur miði skammt þegar spádómarnir rætast ekki betur en hér.
    Ég undirstrika það að okkur er nauðsynlegt að afgreiða hér frv. sem kveður á um stjórn fiskveiða vegna þess að þjóðin þarf og þeir sem í þessu starfa verða að fá að vita hvert starfsumhverfið á að vera.
    Það er auðvitað margt sem mætti minnast á í þessu frv. en ég ætla ekki að fara að tíunda það mjög nauið hér vegna þess að ég hef aðstöðu til þess í sjútvn. að gera það og þar munum við gera kröfur til þess að aðilar verði kallaðir fyrir nefndina og við getum spurt þá spjörunum úr. En það hefur vakið athygli mína hér í dag vegna þess að það hefur margoft komið upp sem haldið hefur verið fram af hv. stjórnarliðum hversu ósanngjarnt og vitlaust það kerfi sé sem menn kalla tonn á móti tonni. Það hafa þeir kallað kvótasukk og ég man ekki hvað og hvað. En svo þegar grannt er lesið þá er það þetta sem kveðið er á um í frv. ríkisstjórnarinnar að skuli tekið upp, það kerfi að færa aflaheimildir á fiskvinnslustöðvar sem auðvitað munu síðan þurfa að semja við aðila að fá að fiska fyrir sig og þá trúlega tonn á móti tonni.
    Það hefur einnig verið fróðlegt að fylgjast með því sem menn hafa rætt í sambandi við smábátana. Við höfum gjarnan eytt löngum tíma í að ræða það í þingnefndum og þingsölum þegar þessi mál hafa verið á dagskrá um stjórn fiskveiða. Menn hafa dregið það fram hversu þetta sé þýðingarmikill þáttur í atvinnulífinu, ekki dreg ég það í efa. Einnig að þetta muni skapa mjög mikla atvinnu, það sé í lagi að gefa þessar veiðar frjálsar, nánast algjörlega, því takmörkunin muni fyrst og fremst byggjast á veðurfarinu, það muni algjörlega stjórna sókninni. En þá vildi ég spyrja þessa menn sem slíku halda fram: Hvað þá með fólkið í landi? Hvað með fiskverkafólkið? Hvernig hugsa menn til þess? Eru menn virkilega á því að fara að kalla það kerfi yfir okkur aftur sem við lifðum sem unnum í fiski að við máttum búast við því að á morgun væri sagt: Það er enginn fiskur í næstu viku og ekkert að gera, menn verða bara heima?
    Menn þurfa nefnilega að átta sig á því að það er orðið breytt umhverfi og fiskvinnsluna í dag má ekki kalla lengur fiskvinnslu, þetta er orðin verksmiðjuvinna í dag og fólk gerir kröfur til þess eins og í annarri atvinnustarfsemi að hafa eitthvert atvinnuöryggi. Það vitum við að verður ekki skapað með útgerð smábáta. Hér þarf að finna vissa sátt og málamiðlun og ég held að menn hafi verið búnir að finna þar þokkalega leið.
    Ég vil einnig taka undir það með hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni og Tómasi Inga Olrich að ég er hlynntur framsali á aflaheimildum og ég tel raunverulega að það sé nauðsynlegt að hafa slíkt til að ná þeirri hagkvæmni sem okkur er svo nauðsynlegt að ná fram í þessari grein.
    Það væri einnig fróðlegt að draga fram tölur sem sýna okkur það hvernig þróunin hefur verið með útflutning á ferskum fiski. Það er öllum ljóst að núverandi stjórnun fiskveiða hefur gripið þar mjög á og dregið mjög úr svo nemur tugum prósenta útflutningi á ferskum fiski og þannig að nú njótum við landsmenn sjálfir í ríkari mæli en áður margfeldisáhrifa vinnslunnar í landi og það tókst með stjórnun fiskveiða.
    Ég vil líka segja það, vegna þess að það hefur komið hér fram, að ég vil ræða það í nefndinni og reyna að leita leiða til þess að kveðið verði skýrt á um það sem menn hafa viljað kalla meinta þátttöku sjómanna í kaupum á fiskveiðiheimildum. Ég er tilbúinn að leita leiða til þess að koma í veg fyrir slíkt, leiða sem tryggi það að sjómenn verði ekki látnir taka þátt í kaupum á veiðiheimildum. Ég tel reyndar að það sé ekki flókið mál að reyna að finna lausn á því. Ég vil leggja mig fram um það mál.
    Ég vil einnig benda á atriði sem mér finnst nauðsynlegt að víkja að líka, það er þar sem vikið er að því í núgildandi lögum þar sem segir að sé minna en 25% af aflamarki skipa ekki nýtt með veiðum skipsins sjálfs tvö fiskveiðiár í röð falli aflahlutur þess niður. Menn hafa haldið því fram að menn væru að flytja aflarétt á skip sem ekki væru gerð út í lengri tíma. Það finnst mér óeðlilegt að sé gert og ég vil tryggja að það sé ekki gert. Við ættum hæglega að geta fundið þar einnig leið ef vilji væri til þess.
    Virðulegi forseti. Ég geri mér grein fyrir því að við erum búin að eiga hér langan dag og er sjálfsagt orðið mál að þessari umræðu linni. Ég vil þó segja það að ég er tilbúinn að leggja mig fram í þessu máli og ná fram þeim meginmarkmiðum sem ég vil að fiskveiðistjórnun byggi á og ég vil leggja mig fram um það í nefndarstarfinu. Ég tel að það sé fyrst og fremst að við getum lifað sem næst á ávöxtun þess afla sem hafið gefur okkur án þess að ganga um of á stofninn sjálfan.
    Ég vil einnig reyna að tryggja það að auka nýtingu þess afla sem á land berst sem allra mest og ég tel reyndar að þar þurfi að taka mjög til hendi þó að árangur hafi náðst. Ég vil einnig að það verði fjallað ítarlega um aukna hagkvæmni í veiðum og vinnslu og að tryggja sem best hagsmuni þeirra sem í þessari grein starfa. Mér finnst það nefnilega gleymast oft að þessi stjórnun veiða og vinnslu er ekki bara sáttargjörð, ef það má kalla það svo, á milli sjómanna og útvegsmanna, hún er ekki síður sáttargjörð á milli þeirra sem í fiskvinnslunni starfa.
    En menn hafa gjarnan viljað kenna hér um aflamarks- eða fiskveiðistjórnuninni og kvótalögunum, kenna kvótastefnunni um hvernig komið er í þessari atvinnugrein. Mér finnst það því miður mikil einföldun í þessari umræðu. Það er svo ótal margt annað sem hér kemur til greina. Menn hafa viljað kenna kvótann sérstaklega við Framsfl. Ef ég man rétt þá held ég að það hafi verið þingmaður Alþfl. og þáv. ráðherra, Kjartan Jóhannsson, sem kom með þetta kerfi. En það skiptir ekki meginmáli. Ég held nefnilega að það sem mestum áhyggjum veldur og er það a.m.k. í mínum huga sé afkoman í þessari atvinnugrein. Ég held að þar sem byggðin er að bresta sé það ekki fyrst og fremst og aðallega vegna þess hvernig komið er í þeim kvótamálum. Ég held að grunnurinn sjálfur hafi brostið. Það er rekstrarafkoma fyrirtækjanna. Hana

hefur því miður skort allt of, allt of lengi. Þeir stórkostlegu fjármagnsflutningar, þeir milljarðar sem fluttir eru núna í gegnum taprekstur frá fyrirtækjunum, frá hinum ýmsu framleiðslubyggðarlögum, er gjörsamlega ólíðandi og það verður að koma einhverjum vörnum við. En því miður tekst mönnum að rugla þessa umræðu svo að menn taka ekki á þessu kjarnaatriði. Menn tala meira að segja um auðlindaskatt á sama tíma. Við eigum eftir að gera það síðar þegar verður rætt um Þróunarsjóðinn. Menn virðast geta sameinast um það að leggja aukna skatta á þessa grein. Mér er spurn: Hvernig ætla menn að leggja aukna skatta á þessa atvinnugrein sem í mörg ár hefur verið rekin með þvílíkum halla? Geta menn ekki beðið með það að setja nýjar álögur á þessa atvinnugrein þangað til henni hafa verið sköpuð sæmileg starfsskilyrði? Þannig að hún geti borgað skatta og skyldur eins og önnur atvinnustarfsemi í landinu? Af hverju þarf að meðhöndla sjávarútveginn á einhvern annan og sérstakari hátt heldur en aðra atvinnustarfsemi? Það skil ég ekki.
    En því miður er það rekstrargrundvöllinn fyrst og fremst sem skortir í þessari grein. Ef hann væri í lagi þá mundu þeir staðir sem næst miðunum liggja njóta þeirrar auðlindar sem við strendurnar liggur. En því miður, eins og ég sagði í kvöld, virðist núverandi ríkisstjórn vera búin að finna upp nokkurs konar eilífðarhjól á gjaldþrotabrautinni í þessum fyrirtækjum og ég hef þungar áhyggjur af því. Nú er það svo að bankar eru að gerast hluthafar í þessum fyrirtækjum, bankar og sjóðir. Þjónustufyrirtækin eru að kaupa upp grundvallarfyrirtækin í sjávarútveginum. Þau eru að eignast þau. Þannig hefur þetta snúist. Bankarnir kaupa þessi fyrirtæki eða bjarga þeim, núllstilla þau sem kallað er, setja þau á núllið. Þar með hafa þeir gjörbreytt rekstrarafkomu þeirra og bætt samkeppnisstöðu þeirra langt umfram þau fyrirtæki sem venjulega eða til þessa hafa að nokkrum hluta geta staðið sig og greitt af lánum sínum til viðkomandi banka, jafnvel sama banka. Og þessi fyrirtæki sem bankarnir eru nú að eignast eru komin í bullandi samkeppni við þessi fyrirtæki. Sem sé, menn eru búnir að finna upp þetta ferli að menn eru farnir að kalla á þessi fyrirtæki aftur niður og gera þau gjaldþrota. Þetta er ferlið sem ríkisstjórnin er búin að búa til. Gæfuleg leið. En þessa umræðu eigum við örugglega eftir að taka næstu daga þegar við ræðum Þróunarsjóðinn og auknar álögur á greinina.
    Það var auðvitað nauðsynlegt að ræða hér í kvöld eða í nótt um það stefnuleysi sem ég vil segja að því miður hefur ríkt allt of lengi innan þessarar greinar. Ég man ekki hvaða stjórnarsinni það var sem talaði í dag og hafði orð á því hversu mikil fjárfesting hefði orðið í nýjum skipum og vildi kenna kvótakerfinu um. Það væri fróðlegt ef þessi hv. þm. kæmi hér upp og segði okkur hvað væri búið að fjárfesta marga milljarða kr. í nýjum fiskiskipum á þessum tæplega þremur árum frá því að þessi ríkisstjórn kom til valda. Hvers konar skip hafa hér verið byggð? Nánast öll eru þessi skip eða að langsamlega stærstum hluta er hér um að ræða fiskiskip sem eru svokallaðir frystitogarar. Hafa menn tekið þá umræðu í gegn? Eru menn klárir á því að við höfum verið að fara þar inn á þá braut sem við viljum sjá? Teljum við að þar liggi þeir möguleikar sem við eigum til þess að komast sem lengst í fullvinnslu afurða? Ég held að þá umræðu hafi skort. Ég held að sú umræða hefði átt að fara fram áður en í þessa fjárfestingu var ráðist. Við hljótum að kalla eftir þessari umræðu og eftir stefnu í þessum málum. Það er nokkuð merkilegt hversu einfalt það virðist vera fyrir útgerðarmanninn í dag að fara og sækja um heimildir og fyrirgreiðslu til þess að kaupa frystitogara í dag sem kostar líklega um 1,5 milljarða kr. En ef sami aðili fer til sömu stofnunar og biður um fyrirgreiðslu til þess að taka upp endurskipulagningu í fyrirtækinu sínu í landi til þess að fullvinna afurðir og komast sem næst neytandandum, hver ætli viðbrögðin séu? Ætli þau séu heldur ekki önnur? Þar koma menn nánast að læstum dyrum. Vantar ekki hér stefnu líka? Það held ég.
    Ég held sem sé að okkur vanti stefnu, heildstæða atvinnustefnu í landinu enda er þannig komið fyrir okkur í atvinnumálum, þessi umræða fer ekki fram, við erum að tala um allt annað.
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki þreyta þá lengur sem hér sitja, okkur gefst tækifæri og mér sem nefndarmanni í sjútvn. til þess að fara yfir þetta frv. ítarlega. Eftir að hafa hlustað á þessa umræðu í allan dag og í kvöld þá er mér það ljósara en áður að þessi umræða verður trúlega löng og ströng. En það væri hins vegar þarft verk að við mundum þreyja ekki bara þorrann heldur góuna líka og reyndum að koma hér saman einhverju vitrænu frv. um stjórn fiskveiða.