Stjórn fiskveiða

90. fundur
Miðvikudaginn 16. febrúar 1994, kl. 00:46:55 (4197)


[00:46]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ef ég hef heyrt rétt þá spurði hv. 4. þm. Norðurl. v. um það hvort það hefði verið óskynsamlegt að koma á samstarfi milli Fiskiðju Sauðárkróks og Hraðfrystihúss Grundarfjarðar. ( StG: Ég spurði ekki um það akkúrat, ég spurði um á milli fyrirtækja.) Á milli fyrirtækja já. Ég heyrði ekki nema síðari hlutann af þessari setningu þannig að ég setti samasem merki á milli. ( StG: Þetta gæti passað.) Þetta gæti sem sagt passað. Ég tel að það sé síður en svo neitt athugavert við þessa gjörð sem hann nefndi eða þetta samstarf. Ég tel að það sé til fyrirmyndar ef menn finna leiðir til þess að styrkja hverjir aðra í rekstri fyrirtækja og hef ekkert út á það að setja.
    En mig langar til þess að biðja hv. þm. að segja mér hvað hann átti við með orðum sínum um það að hann tæki undir með hv. 5. þm. Norðurl. e. og hv. 5. þm. Norðurl. v. í því sem þeir sögðu hér um frjálsa framsalið. Á að skilja það þannig að hv. þm. finnist að það sé ekkert athugavert við það hvernig þetta frjálsa framsal er notað í dag t.d. gagnvart skiptakjörum sjómanna og gagnvart því hvernig kvóti skiptir um eigendur? Ég tel að þar séu á ferðinni afskaplega alvarlegir hlutir og hef reynt að koma mínum skilningi til skila í ræðum í þinginu. Ég hef skilið hv. þm. þannig að hann telji að þessi viðskipti séu með óeðlilegum hætti og hann telji að það eigi að gera breytingar á þessum viðskiptaháttum, a.m.k. að lágmarkinu til þannig að sjómenn taki engan þátt í kvótakaupum, hvorki þegar verslað er tonn á móti tonni né með öðrum hætti þegar veiðiheimildir eru seldar í tengslum við fiskkaup.