Stjórn fiskveiða

90. fundur
Miðvikudaginn 16. febrúar 1994, kl. 00:53:01 (4200)


[00:53]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég tel nú að þessi umræða hafi um margt verið athyglisverð og ekki síst núna síðasti hlutinn og satt best að segja dapurlegt að upplifa það hvað fáir eru hér eftir og nenna að leggja það á sig að ræða þetta stóra hagsmunamál. Hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson hafði að vísu uppi þá skýringu að ríkisstjórnin væri að því komin að falla og það væru slíkir hlutir að gerast úti í bæ að menn mættu vart við bindast hér í umræðunni og má satt vera og tek ég undir með honum að ástæða er til að gleðjast yfir því. En ég vona a.m.k. að hæstv. sjútvrh. hafi ekki tekið þetta svo alvarlega að hann sé bara farinn heim og farinn að pakka saman enda sýndist mér ég sjá í hann hér í hliðarsölum.
    Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson mun að öðrum ólöstuðum vera sá sem ég hef heyrt til hér í umræðunni sem varið hefur núverandi kerfi af mestum þrótti og það hefur hann reyndar orðið frægur fyrir að gera á fundum vítt og breitt um landið. Hann vill fyrst og fremst búa við eða sanna yfirburði aflamarkskerfis með frjálsu framsali. Það er satt best að segja nokkuð sérkennilegt að heyra þennan framkvæmdastjóra Verslunarráðs Íslands, sem mun vera hjáverk hv. þm., mæla með því skömmtunarkerfi sem þetta er og maður veltir því fyrir sér hlutverkaskiptum í þessum efnum því að auðvitað verður því ekki á móti mælt að þetta aflamarkskerfi með öllum sínum takmörkunum er mikið skömmtunarkerfi og spurning hlýtur að leita á menn hvort ekki séu til aðrar almennari aðgerðir til þess að draga úr sókninni þannig að við hæfi teljist.
    Ég hef t.d. velt því svolítið fyrir mér hvernig hv. þm. Vilhjálmur Egilsson mundi líta á það ef menn kæmust nú að þeirri niðurstöðu einhvern tíma á Íslandi að það væri nauðsynlegt að takmarka fjölda

verslana og það yrði t.d. talið hæfilegt með vísan til einhverra viðmiðunarára að hér störfuðu þúsund verslunarígildi og síðan mættu þessi verslunarleyfi ganga kaupum og sölum og þau mættu færast milli byggðarlaga og það mætti sameina þau og stækka einingarnar o.s.frv. og hvert verslunarígildi væri t.d. bundið 100 fermetra gólfpláss eða eitthvað af því tagi. Það væri vísindalega útreiknað að þessi verslunarígildi mættu vera svona eitthvað um 1.000 til að fullnægja þörfum þessara 260 þúsund hræðna sem hér búa. Og þá yrði þetta væntanlega þannig í þessu skömmtunarkerfi að menn gætu keypt upp verslunarleyfi í einhverju byggðarlagi og flutt það annað og stækkað þar verslun. Þar með væri viðkomandi byggðarlagi allar bjargir bannaðar nema tækist að kaupa þangað aftur verslunarleyfi. Ég hugsa að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson yrði ekki mjög hrifinn af slíku ástandi og hann teldi ýmsa ágalla vera á slíku skömmtunarkerfi og er ég þá ekki að ræða sjálft grundvallaratriðið, þ.e. nauðsyn þess eða nauðsyn þess ekki að takmarka og fá með hverjum hætti sókn í fiskstofna en það er viðfangsefnið.
    Ég vil láta það koma hér skýrt fram, hæstv. forseti, af því að mér finnst loksins að menn séu svolítið farnir að tæpa á umræðu um grundvallaratriði þessa máls. Ég er þeirrar skoðunar, það er enginn vafi í mínum huga, að ákjósanlegasta fyrirkomulagið, það besta væri að við gætum haft hér hæfilega stóran flota sem með almennum friðunaraðgerðum, reglum um notkun veiðarfæra, friðun tiltekinna veiðislóða o.s.frv. væri í þokkalegu samræmi við afrakstursgetu auðlindarinnar. Með öðrum orðum, í grófum dráttum það kerfi sem við kannski getum sagt eða bundið vonir við að við höfum haft hér þegar sem best samræmi var á milli sóknargetu íslenska flotans og afrakstursgetu fiskstofnanna t.d. á árunum fljótlega eftir útfærslu landhelginnar í 50 og síðar 200 mílur. Það er enginn vafi í mínum huga að það er langbesta kerfið ef kerfi skyldi þá kalla. Ég tók eftir því að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson talaði aftur og aftur um kvótakerfi með framsali sem hagkvæmasta kerfið og ég leyfi mér að setja það innan gæsalappa, hæstv. forseti, með þessum framburði, ,,kerfið``, ,,hagkvæmasta kerfið``. Hv. þm. er sem sagt alveg gikkfastur í því að skoða þetta út frá þeim forsendum að það verði að vera eitthvert kerfi.
    Nú er bara staðan sú að kvótakerfið, aflamark með framsali er ekki eina fiskverndarkerfið á Íslandi í dag og hefur aldrei verið. Það er í gangi tvöfalt, þrefalt og jafnvel fjórfalt lagskipt friðunarkerfi því að menn hafa ekki treyst kvótanum einum heldur hafa menn líka haft hömlur á stærð flotans og með úreldingarkerfi tryggt það eða talið sig vera að reyna að tryggja að fiskiskipaflotinn mætti ekki stækka heldur skyldu jafnmörg tonn ganga út eins og bættust við. Hvers vegna eru menn að viðhalda þessu kerfi ef kvótinn væri jafnaltækt og gott stjórnunarkerfi og menn vilja stundum vera láta?
    Í þriðja lagi er svo auðvitað að kerfi sem byggt hefur verið upp í gegnum árin og hefur verið viðhaldið nánast í öllum aðalatriðum þrátt fyrir tilkomu kvótans. Þetta er kerfið sem miðast við togveiðilínur, miðast við reglur um veiðarfæri, takmörkun á veiðarfærum, möskvastærð o.s.frv., skyndilokanir utan enda. Þarna er alveg heilt kerfi sem var sett upp til þess að friða og vernda, passa upp á ungfisk. Öllu þessu kerfi hefur verið haldið. Maður skyldi ætla að ef kvótinn væri jafnafgerandi verndunaraðgerð og menn láta stundum í veðri vaka þá þyrfti ekki að vera með þessi tvöföldu, þreföldu og fjórföldu kerfi í viðbót. Auk þess koma svo tilteknir banndagar og stopp sem auðvitað hafa sín áhrif, ekki síst þá í bátaflotanum þannig að mér finnst umræðan um þetta stundum alveg ótrúlega föst í viðjum þessa kerfishugsunarháttar þegar á það er nú að líta að við erum hérna ekki með einfalt stjórnunarkerfi, heldur tvöfalt, þrefalt eða fjórfalt.
    Vegna ummæla sem féllu hjá hv. 5. þm. Norðurl. v., Vilhjálmi Egilssyni, og hv. 5. þm. Norðurl. e., Tómasi Inga Olrich, þá vil ég segja að það er grundvallarmunur á því í mínum huga að fyrirtækin nýti sér þá möguleika sem eru á hverjum tíma til hagnaðar frá rekstri og hinu að þau séu að einhverju leyti að spila á stjórnkerfið sem sett er um þann rekstur og hafa hagnað af því. Með öðrum orðum, það er grundvallarmunur á því að draga fisk úr sjó og vinna hann á fiskvinnslustöð og gera það með góðum árangri og hafa hagnað af eða t.d. hinu ef við tökum það tilbúna dæmi að hagnast á kvótabraski, að fara t.d. á markað með veiðiheimildir og kaupa aðrar í staðinn og selja þær svo og kaupa enn aðrar og græða einhvern skiptamun. Þá eru menn að hagnast á kerfinu. Í hinu tilvikinu eru menn einfaldlega að standa sig vel í þeim atvinnurekstri sem þeir stunda.
    Það var athyglisvert að heyra hv. þm. Vilhjálm Egilsson taka hér dæmi af nokkrum fyrirtækjum sem væru vel rekin og gerðu góða hluti og heyra að þar var fyrst og fremst um að ræða fyrirtæki í félagslegri eigu, bæjarútgerðir eða fyrirtæki með félagslegum rekstrarformum, fyrirtæki eins og Útgerðarfélag Akureyringa og Síldarvinnsluna í Neskaupstað. Og það er vissulega hárrétt hjá hv. þm. að þessi fyrirtæki bæði tvö og fleiri hafa verið að gera góða hluti. Þau eru ósköp einfaldlega að reyna að bjarga sér eftir því sem þau best geta á grundvelli þess kerfis sem er við lýði og lögfest hefur verið. Hver láir þeim það? Ekki nokkur maður. Og það er auðvitað til marks um ágæti þeirra manna sem þar stjórna að þeir hafa náð að reka sín fyrirtæki vel. En ég segi, það er engin ástæða til að ætla að sömu stjórnendur myndu ekki við annað fyrirkomulag gera jafngóða hluti hlutfallslega á þessu sviði. Það er engin ástæða til annars. Og við skulum hafa það í huga að þau fyrirtæki sem fyrst og fremst hafa komið út úr þessu sem sigurvegarar, hver eru þau? Það eru nokkur öflugustu fyrirtæki landsins sem höfðu sterkustu eiginfjárstöðuna, sem áttu öflugustu bakhjarlana, sem gátu sótt fé í hlutafjáraukningar, sem voru komin í rekstur frystitogara og höfðu þaðan hagnað til að kaupa veiðiheimildir. Og auðvitað verður að horfa á þá staðreynd.
    Við skulum ekki heldur gleyma því um leið og við hrósum þessum fyrirtækjum og gleðjumst yfir

því að þeim hefur gengið vel, munum þá hvað hefur gerst á hinum endanum. Er það ekki þannig að fyrirtæki sem hafa haft fjárhagslegt bolmagn til að kaupa til sín veiðiheimildir á móti skerðingunni hafa fengið þær veiðiheimildir einhvers staðar frá? Er það ekki þannig? Hafa þær t.d. ekki komið frá Suðurnesjum? Hafa þær ekki komið frá Keflavík? Frá Árborgarsvæðinu og víðar? Og hvað hefur þá gerst þar? Og er það ekki þannig að fyrirtækin sem eru að auka vinnsluna hjá sér í gegnum viðskipti tonn á móti tonni sem í mörgum tilvikum eru báðum aðilum hagstæð. Það er rétt. Og víða er myndarlega að staðið og borgað sanngjarnt verð fyrir. Það er líka rétt. En er það ekki þannig að með þeim viðskiptum taka þessi fyrirtæki fisk af einu svæði og flytja hann yfir á annað og þá tæmist hráefnið úr vinnslu sem þar var kannski fyrir? Við megum ekki gleyma því að um leið og einn er að auka sinn hlut þá er hann að minnka hjá öðrum. Og mér hefur alla tíð fallið illa sú umræða sem gengur út á það að taka afstöðu til kerfisins eftir því hvort þitt viðkomandi byggðarlag eða kjördæmi er að hagnast. Ég frábið mér að ganga inn í þessa umræðu á þeim forsendum einum. Ég hef til að mynda staðið í því í mínu kjördæmi þar sem Akureyri er sem hefur aukið mjög sinn hlut að menn hafa fallið í viðjar þessa ódýra málflutnings og svarað gagnrýni á kvótakerfið með því einu að segja: Menn ættu nú ekki að kvarta hér á Akureyri af því að okkar hlutur hefur aukist. En hvað þýðir það? Það þýðir að hann hefur minnkað einhvers staðar annars staðar. Og ég spyr mig að því: Er það frá heildarhagsmunum séð endilega jákvætt? Og ég geri þá kröfu til okkar alþingismanna þegar við ræðum þessi mál að við göngum út frá heildarhagsmunum en ekki þröngum sérhagsmunum einstakra byggðarlaga þó að það kynni að vera þægilegt fyrir okkur suma pólitískt séð. Ég hlýt þess vegna að spyrja og biðja þá menn sem nota dæmin um þau fyrirtæki sem hafa styrkt stöðu sína og með fullri virðingu fyrir þeim að svara mér þeirri spurningu: Eru menn þar með að segja að kvótakerfið sé svona gott vegna þess að það sé tæki til að fækka einingunum í sjávarútveginum og e.t.v. til að ganga lengra og fækka byggðarlögunum? Ég vil að menn séu heiðarlegir og hreinskiptnir og segi það ef það er það sem liggur að baki en tali ekki í hálfkveðnum vísum. Ef það er sem sagt þannig að menn telji það í sjálfu sér ágæta þróun að nokkur stærstu og sterkustu fyrirtækin í sjávarútvegi sem hafa aukið mjög hlutdeild sína á undanförnum árum þannig að nokkur þeirra hafa náð að bæta sér að fullu upp skerðinguna í þorski t.d., og með því tæmt að stórum hluta veiðiheimildir annarra byggðarlaga, það sé hin jákvæða þróun, þá vil ég fá það upp á yfirborðið og við skulum þá ræða um hlutina þannig.
    Það er ósköp eðlilegt að menn staldri við það hvort ekki sé í reynd orðið óhjákvæmilegt að fyrirtækjunum fækki verulega og jafnvel byggðarlögunum. En eru menn þá tilbúnir til að axla þá pólitísku ábyrgð sem því fylgir og hvað eru menn þá að gera? Ég held að menn verði þá að horfast í augu við það. Og eru menn endilega vissir um að það sé frá heildarhagsmunum og þjóðhagslega séð hagkvæmast? Ég leyfi mér að setja stór spurningarmerki við það vegna þess að aðstæður kunna að breytast á nýjan leik og guð láti gott á vita að við verðum farin að veiða hérna t.d. 300 eða 350 þús. tonn af þorski eftir svona fimm ár, segjum fimm ár. Hvar verðum við þá? Er það þá gott t.d. að hafa lagt niður fiskvinnslu og sjósókn frá jafnvel fjölmörgum stöðum og byggðarlögum? Er það endilega skynsamlegt? Munum eftir því að um leið og menn nefna Fiskiðju Sauðárkróks, Útgerðarfélag Akureyringa, Síldarvinnsluna og jafnvel Skagstrending sem var mikið í tísku hér en er kannski minna talað um í dag, þá ættu menn líka að tala um Einar Guðfinnsson hf. í Bolungarvík, Hraðfrystihús Patreksfjarðar, Hraðfrystihús Keflavíkur, Stöðina í Vestmannaeyjum ef menn væru sanngjarnir, skoða báðar hliðar málsins, ekki bara fallegu hliðina, ekki bara það sem hefur gengið vel. Við skulum taka málið fyrir eins og það leggur sig í heild sinni.
    Varðandi það sem hv. þm. Tómas Ingi sagði hér um það og gagnrýndi þann málflutning hv. þm. Jóhanns Ársælssonar að það væri furðulegt að hv. þm. virtist ekki átta sig á því hvað það mundi kosta ef reglunum væri skyndilega breytt, talaði nánast eins og þetta hefði verið svona frá landnámstíð að hér hefði verið kvóti með frjálsu framsali. Eru menn búnir að gleyma því að kvóti var settur á til bráðabirgða í eitt ár 1983? Síðan var hann framlengdur um eitt og stundum tvö ár í senn alveg þangað til 1990. Þá var hann að vísu settur á ótímabundið en með tveggja ára endurskoðun sem því miður er ekki lokið enn. Þannig hefur þetta gengið til. Það hefur aldrei verið svo að þetta kerfi hafi verið lögfest um aldur og ævi sem einhver varanlegur grundvöllur fiskveiðistjórnunarinnar.
    Ég fór yfir í minni fyrri ræðu þá gagnrýnispunkta sem kannski vægju þyngst í umræðum manna um þetta fyrirkomulag. En ég tók það líka skýrt fram að það hefði vissulega jákvæðar hliðar og það hefur vissulega líka gerst ýmislegt jákvætt í þróun sjávarútvegsins á þessum tíma og ég hef aldrei tekið þá trú á annan hvorn veginn að þetta kerfi væri alvont og óhugsandi sem grundvöllur fiskveiðistjórnunar né hitt að það væri það eina rétta. Það er kerfishyggjan, það er formhyggjan sem er mér ekki að skapi. Og ég þarf ekki að fara yfir það aftur sem menn hafa margnefnt. Það er þessi ójafna og réttarstaða byggðarlaganna. Það er það hvernig veiðiheimildirnar eru að færast á fáar hendur sem veldur mörgum áhyggjum eðlilega. Það er þetta ígildi eignarréttar sem er að myndast þrátt fyrir ákvæði laganna um hið gagnstæða. Það er öryggisleysi byggðarlaganna og fiskvinnslufólksins. Það eru óeðlilegir viðskiptahættir með veiðiheimildirnar. Það er sú staðreynd að þetta kerfi í sumum tilvikum ýtir undir að fiski sé hent í sjóinn. Það eru efasemdir um hagræðingu því að þær eru líka fyrir hendi. Það gerist margt óskynsamlegt við hliðina á því skynsamlega. Við sjáum t.d. í sumum tilvikum fáránlega viðbótarfjárfestingu sem íslenskur sjávarútvegur ætti að geta verið án og það eru því miður síðast en ekki síst einnig efasemdir um fiskverndargildið. Kvótinn er til að mynda blindur. Hann mælir álagið á fiskstofnana eingöngu í tonnum sem komin eru á land

en ekki með öðrum hætti. Þetta verða menn að horfast í augu við. Það er t.d. ekki spurt að því hvað fiskarnir eru margir í tonninu, hvað mikið drapst um leið og það tonn var tekið, hvað mikið fór kannski í sjóinn áður en það fór ofan í lestina o.s.frv.
    Ég held að það hljóti að verða niðurstaðan af þessu máli nú að menn leiti leiða, það er mín tilfinning að menn ætli að leita leiða til að lögfesta nú 3--5 ára tímabil, ákveðið umþóttunartímabil þar sem aflamark gilti með tilteknum reglum áfram því að auðvitað er það augljóst mál að kvótinn verður ekki tekinn af á einni nóttu eftir að hafa gilt 10 ár. Ég tel að að ætti að færa sig upp á við með nýtingarhlutfall skipa og útgerða þannig að það hækkaði í áföngum úr þessum 25% að meðaltali á tveimur árum upp í 50--75% en með þó ákveðnum undanþágum sem nauðsynlegt gæti verið að hafa vegna bilana og t.d. veiða utan landhelgi.
    Það þarf að leysa vandamálið varðandi smábátaútgerðina og það á að gera það með varanlegum hætti þannig að þetta útgerðarform geti verið í sæmilegri sátt við önnur í landinu. Í gegnum það er líka hægt að taka á og tryggja stöðu margra minni byggðarlaganna. Það á að mínu mati að banna þátttöku sjómanna í kvótakaupum. Það á að heimila íslenska skráningu skipa sem stunda veiðar utan landhelgi. Það á að grípa til ráðstafana gagnvart byggðarlögunum og tryggja stöðu þeirra betur en nú er, e.t.v. með því t.d. að vekja á nýjan leik til lífsins ákvæði gamla Hagræðingarsjóðsins eins og þau voru lögtekin vorið 1990 og voru veruleg trygging fyrir byggðarlögin. Og á þessu 3--5 ára aðlögunartímabili á e.t.v. með kvótatengingu veiðiheimildanna eða öðrum slíkum hætti að tryggja betur hagsmuni byggðarlaganna. Menn eiga að leysa umræðuna úr viðjum kerfishyggjunnar og nálgast þetta viðfangsefni frá forsendum í fyrsta lagi lífríkisins, auðlindarinnar sem við erum að nýta, í öðru lagi fólksins, samfélagsins sem starfar og lifir við þessa atvinnugrein og í þriðja lagi og síðast en ekki síst auðvitað frá sjónarhóli rekstursins, afkomunnar og hagræðingarmöguleikanna í greininni.
    ( Forseti (GunnS) : Nú verð ég að tilkynna hv. þm. að tími hans er liðinn.)
    Já, enda hafði hv. þm. hugsað sér að láta hér lokið máli sínu nokkurn veginn nákvæmlega á slaginu þannig að hæstv. forseti hefði í sjálfu sér getað sparað sér þessi orð.